Íðorðapistlar 1-130

050-Fimmtugasti pistillinn

Íðorðapistlar hafa nú birst reglulega frá því í janúar 1990. Hugmyndin að slíkum orðapistlum kom fram eftir að undirritaður hafði fengið birtan ritdóm um Íðorðasafn lækna í maí-hefti Fréttabréfs lækna 1989. Formaður Orðanefndar læknafélaganna og þáverandi ábyrgðarmaður Læknablaðsins, Örn Bjarnason, sá strax leik á borði og hvatti til þess að undirritaður tæki að sér efnisöflun og umsjón íðorðapistils. Í febrúar-pistlinum það ár var áætluninni lýst með þessum orðum: "Svo hefur um samist að undirritaður leggi til efni fyrst um sinn. Það er þó að nokkru leyti undir viðtökum lesendanna komið hvert framhaldið verður. Læknar og aðrir þeir, sem Fréttabréfið lesa, eru hér með beðnir um að koma á framfæri athugasemdum í orðaþáttinn og tillögum, sem gætu komið að gagni við vinnslu og endurskoðun Íðorðasafns lækna."

Nóg hefur borist af ábendingum og fyrirspurnum frá læknum, þannig að aldrei hefur skort efni í pistilinn. Ekki eru nokkur tök á því að gera því öllu skil, en öllu er haldið til haga og verður tekið til rækilegrar athugunar. Fyrirspurnir og ábendingar eru alltaf velkomnar og þökk ber öllum þeim sem áhuga sýna.

Undirritaður hefur haft mikla skemmtun af því að skrifa pistlana og af því að vinna þá forvinnu sem nauðsynleg er í hvert skipti. Óskir og tilmæli um að aðrir læknar tækju að sér einn og einn pistil hafa hins vegar lítinn árangur borið, einungis tveir af þessum 50 eru ritaðir af öðrum. Væntanlega er slíkt þó ekki með öllu útilokað þó að síðar verði.

Þó að "önnur verkefni, leti og almenn vesöld" komi stundum í veg fyrir framkvæmdir, eins og segir í fyrrnefndum ritdómi, þá eru engin áform um að hætta pistlaskrifum að sinni. Ljóst er að áhugi lækna á málvöndun er smátt og smátt að aukast. Víst er líka að strangar kröfur Læknablaðsins um vandað mál á fræðigreinum íslenskra lækna leggja lóð á rétta vogarskál. Þá gerir almenningur einnig auknar kröfur til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna um að skrif þeirra, umræður og útskýringar séu á íslensku en ekki á "læknamáli".Þáttur Víkverja

Víkverji Morgunblaðsins 5. janúar 1994 stakk upp á því að "eitt allsherjar málhreinsunarátak" væri besta gjöf sem þjóðin gæti gefið sjálfri sér í tilefni af 50 ára lýðveldisafmælinu. Hann sagði síðan orðrétt: "Þar mega engar eftirlegukindur halda að þær séu yfir málvernd og málhreinsun hafnar." Síðan gagnrýndi hann málfar lækna með þessum orðum: "... og frómt frá sagt skildi Víkverji minnst af því sem læknarnir sögðu við hann, og alls ekki neitt, þegar þeir ræddu sín á milli, þar sem krankleiki skjólstæðings Víkverja var umræðuefnið. Ekki var um enskuskotið tungutak að ræða, heldur latínuskotið."

Taka má undir gagnrýni Víkverja hvað varðar þau orð læknanna, sem honum voru ætluð. Illt er til þess að vita ef læknar hafa það fyrir sið að ræða við sjúklinga sína eða umboðsmenn þeirra á slíku slangurmáli að þeir skilji ekki. Hvort læknum leyfist að ræða sín á milli á "læknamáli" um vandamál eða krankleika sjúklinga sinna, er hins vegar önnur saga.

Víkverji þessi sagði enn fremur, að brýnt væri að þýða á íslensku þau nafnorð, orðasambönd og hugtök, sem læknar nota í starfi sínu, og að gera notkun þeirra virka. Honum er greinilega ókunnugt um Íðorðasafn lækna, sem er séríslensk læknisfræðiorðabók með um 30 þúsund fræðiorðum, enskum og latneskum, sem þýdd hafa verið á íslensku. En þó að útgáfa Íðorðasafnsins sé hreint þrekvirki og til mikils sóma fyrir læknafélögin, þá er vissulega ekki nóg að gert fyrr en íslensku fræðiheitin eru komin í almenna notkun. Hafi Víkverji þökk fyrir gagnrýnina.Alexithymia

Fyrst á annað borð er farið að nefna blaðamenn þá má geta þess að Jónína Leósdóttir, blaðamaður hjá Fróða hf., hringdi og bað um aðstoð við að finna íslenskt heiti á fræðihugtakið alexithymia. Því var fljótsvarað að orðið fannst hvorki í Íðorðasafninu né í þeim erlendum læknisfræðiorðabókum, sem undirrituðum voru tiltækar.

Alexia er af grískum uppruna, a- er neitandi forskeyti og lexis merkir orð eða setning. Hugtakið er skilgreint þannig að á skorti um skilning á rituðum orðum og rituðu máli. Algengasta íslenska þýðingin mun vera lesblinda. Íðorðasafnið gefur reyndar einnig upp lesstol og lesblindni. Thymia finnst ekki í Íðorðasafninu, en er einnig komið úr grísku. Skýringu á uppruna þess er að finna í læknisfræðiorðabók Stedmans, en orðið thymos var notað um hug eða hjarta sem aðsetur sterkra tilfinninga eða ástríðna. Orðabók Blakistons skýrir frá því að thymia sé notað til að tákna hugarástand.

Eftir langt og skemmtilegt samtal kom okkur Jónínu saman um að alexithymia væri eins konar tjáningarskortur tilfinninga. Undirritaður stakk þá upp á því að nota mætti eitt af orðunum tilfinningahefting, tilfinningatregða, tilfinningablinda eða tilfinningastol um þetta fyrirbæri.Smáskurðarmeðferð

Þá hringdi Þórarinn Guðnason, fyrrum skurðlæknir á Borgarspítala, vegna fyrirspurnar í síðasta pistli, og lagði til að sú tegund meðferðar, sem á ensku kallast minimally invasive therapy, verði nefnd smáskurðarmeðferð (ritvilla, sjá 51. pistil).

Þá benti Þórarinn á það að heitið leysir hefði misritast í síðasta pistli. Enska orðið laser er svokallað acronym, myndað úr fyrstu stöfum annarra orða, úr orðunum light amplification by stimulated emission of radiation. Íslenskt heiti á acronym fannst ekki í orðabókum, en stungið er upp á nýyrðinu stafnefni. Því má bæta við að Íslenska alfræðiorðabókin lýsir leysinum þannig að hann sé tæki sem sendi út "grannan og sterkan samfasa ljósgeisla." Um notagildi leysis er þar sagt að það "byggist á miklum orkuþéttleika og skarpri afmörkun geislans sem nýtist annars vegar við ákvörðun á stefnu og fjarlægð og við fjarskipti um ljósleiðara, og hins vegar við smásæja borun og málmsuðu, fínlegar skurðaðgerðir og hugsanlega til að koma af stað kjarnasamruna."Co-morbidity department

Tómas Helgason, prófessor, bað fyrir ósk um tillögur að íslensku heiti á sjúkradeild þar sem fram færi greining og meðferð sjúklinga með fleiri en eina tegund kvilla, til dæmis þunglyndi og kvíða, ofneysluvandamál og þunglyndi eða þunglyndi og vitglöp (dementia). Vafalítið verður erfitt að finna heiti sem er eins lipurt og geðdeild, en hvað með fjölkvilladeild?

FL 1994; 12(2): 8-9
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica