Íðorðapistlar 1-130

054-Kennslugögn

Prófessor Þorkell Jóhannesson hringdi og kvaðst vera upphafsmaður þess að heitið aðrétta væri notað um ákveðna tegund kennslugagna sem dreift væri til nemenda. Hann kvaðst nota heitið um kennslugögn sem væru komin á það stig að þau væru tilbúnir textar í hefti en ekki komin í útgefna bók. Heitið útbýti kvaðst Þorkell einnig nota um kennslugögn, en þá væri um að ræða stök blöð eða fá, ekki tilbúin í hefti. Hvort sem menn eru Þorkeli sammála eða ekki þá verður að segja að þessi vinnubrögð hans eru til fyrirmyndar, ekki einasta það að taka upp góð íslensk heiti í stað leiðinlegra slanguryrða heldur einnig að láta fylgja skilgreiningar.

Undirritaður leitaði lítillega í tiltækum orðabókum. Íslensk orðabók Máls og menningar upplýsir að sögnin að útbýta merki að útdeila eða skipta í skammta. Þá er einnig til sögnin að býta, sem er svipaðrar merkingar, að útbýta, úthluta eða hafa skipti á. Íslenska orðsifjabókin rekur uppruna þessarar sagnar meðal annars til dönsku sagnarinnar bytte: að skipta um eða hafa skipti á. Nafnorðið býti hefur hins vegar þrjár uppgefnar merkingar: skipti, hlutur eða kjör. Orðtakið að bera eitthvað úr býtum má finna í Íslensku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar og merkir að öðlast eitthvað. Væntanlega er upprunaleg merking sú að fá hlut sinn úr skiptum á afla eða ránsfeng. Eins og greint var frá í síðasta pistli finnst nafnorðið útbýti ekki í þessum bókum, en er nú notað um það sem útbýtt er.



Aðrétta

Frásögn Þorkels af tildrögum þess að hann tók upp heitið aðrétta um fyrrgreind kennslugögn er frásagnar virði. Hann segist hafa fengið orðið að láni úr Sjálfstæðu fólki Halldórs Kiljans Laxness og fyrst hafa notað það á þennan hátt í október 1993. Í fimmtugasta og sjöunda kafla segir frá því að Nonni litli sonur Bjarts í Sumarhúsum skyldi fara í fóstur alla leið til Vesturheims. Hann hafði fram til þessa sofið við fótagafl ömmu sinnar, undir skarsúð með lófastórum glugga. Heimurinn var að opnast fyrir honum, en hann gat ekki sofnað og "fanst eins og lífið alt væri uppfrá þessu ein hikandi vornótt,-". Að skilnaði og honum væntanlega til einhverrar huggunar fer gamla konan "innundir koddableðilinn sinn og tekur þar fram lítinn paufa", sem í voru "tveir dýrgripir, einu gripirnir sem hún átti, handlínan og eyrnaskefillinn". Þetta tvennt gaf hún Nonna litla, "betur gat hún ekki gert", og sagði um leið: "O þetta er sosum eingin aðrétta. En þú getur vafið þessum klút um hálsinn á þér á hátíðisdögum þegar vel viðrar. Og eyrnaskefillinn sá arna, hann ku hafa verið leingi í ættinni." Nonni litli þakkaði þegjandi og með handabandi, "því hann kunni eingin orð til að þakka slíka gjöf." Á sinn hátt taka nemendurnir þegjandi við aðréttunni frá kennara sínum, en hvernig þeir kunna að meta hana er önnur saga.



Lyfleysa

Á fræðslufundi fyrr í vetur var lýst eftir góðu heiti á því fyrirbæri sem nefnist placebo á fræðimálinu. Í latínu má finna sagnorðið placeo, sem hefur verið tekið upp í ensku í formi sagnarinnar to placate, sætta, róa eða gera ánægðan. Placebo er því eitthvað sem sættir eða róar einhvern og gerir hann ánægðan. Læknisfræðiorðabækur gefa skilgreiningar á borð við þessar: 1. óvirkt efni í formi lyfs, sem er gefið sjúklingum til sefjunar, og 2. efni sem líkist lyfi, sem verið er að prófa, en er óvirkt, oft án vitundar sjúklings og jafnvel læknis. Íðorðasafn lækna gefur þýðinguna lyfleysa, en vera má að það heiti líki ekki öllum. Heitið lyfleysa samræmist fyllilega skilgreiningu tvö hér að ofan, en nær ekki að gefa í skyn hin sefjandi áhrif sem fyrri skilgreiningin vísar í. Hér með er lýst eftir fleiri tillögum.

Áverkaskor

Ragnar Jónsson, læknir, hringdi og bað um að enska heitið score væri tekið til umfjöllunar. Hann var að fást við þýðingu á samsetningunni injuries severity score, sem er mælikvarði notaður til að tákna það hversu alvarlegir eða útbreiddir slysaáverkar eru. Okkur kom saman um að "fleyta" heitinu áverkaskor. Helsta fordæmið sem við gátum fundið er komið úr golfi, en þar er samanlagður fjöldi högga, sem er mælikvarði á árangur manna, nefndur skor.



FL 1994; 12(6): 8
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica