Íðorðapistlar 1-130

059-Meira um framburð

Í síðasta pistli var lítillega drepið á framburð íslenskra fræðiorða og tekin voru dæmi um ritvillur sem virtust eiga uppruna í óskýrmælgi, líffærið botnlangi var ýmist ritað "botlangi" eða "bottlangi". Það er vissulega athygli vert ef þekking ungra lækna á íslensku fræðimáli er orðin svo slök að slíkar villur geti komið fyrir.

Ef til vill er orðið nauðsynlegt að læknadeild taki upp sérstaka kennslu í íðorðafræðum. Undirritaður sér strax fyrir sér stutt námskeið, íðorðaskeið, þar sem fjallað væri um helstu atriðin í uppruna, byggingu og notkun íslenskra og erlendra fræðiorða. Rekinn yrði áróður fyrir réttri notkun fræðimálsins, hvort sem menn kjósa að íslenska öll fræðiorð eða að nota alþjóðlegu heitin. Það er reyndar skoðun undirritaðs að læknum sé engin vorkunn að hafa á takteinum bæði íslensk og erlend heiti á þeim fyrirbærum sem þeir fást við í daglegu starfi. Að sjálfsögðu yrði lögð sérstök áhersla á kynningu og notkun íslenskra fræðiorða, en að auki leitað nýrra hugmynda og tillagna frá þátttakendum. Þannig mætti ef til vill byggja upp frjóa hugmyndasmiðju og koma á nýju fræðasviði innan læknadeildar. Augljóst er að þekkingu á latínu og grísku, sem eru hornsteinar verulegs hluta fræðimálsins, fer stöðugt hrakandi. Veita mætti innsýn í þessi mál og ef til vill viðhalda lágmarksþekkingu, því að annars verða læknar vanbúnir til þess að fara rétt með mörg erlendu fræðiheitin. Slíkt námskeið gæti einnig orðið til þess að sá áhugi á fallegri framsetningu fræðilegra staðreynda, sem nú ber mjög á í innlendum ritsmíðum íslenskra lækna, gæti náð til talmálsins. Sjúklingar gætu jafnvel farið að skilja það sem læknarnir eru að segja við þá og ráðleggja þeim!Efnagreiningar

Rannsóknarlæknir hringdi og var að fást við þýðingar á hugtökunum quantitative analysis og qualitative analysis. Þýðingar Íðorðasafnsins þóttu of stirðlegar til að nota í daglegu starfi, en þar er quantitative analysis nefnd megindargreining og qualitative analysis eigindargreining eða eðlisgreining. Áður en komið er með tillögur er nauðsynlegt að "sundurgreina" orð og orðhluta.

Í ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs er lýsingarorðið quantitative þýtt með íslensku orðunum: magnbundinn, megindlegur, mælanlegur, veganlegur, og nafnorðið quantity meðal annars með orðunum: magn, fjöldi, stærð, mæld, skammtur. Hins vegar er lýsingarorðið qualitative þýtt sem: eiginda-, eigindlegur, eiginleika-. Nafnorðið quality má þýða á nokkra vegu, til dæmis: einkenni, aðal, sérkenni, eiginleiki, eðli eða gæði. Uppruna þessara orða er að leita í latínu þar sem nafnorðið quantum merkir magn, en qualis er fornafn sem vísar til eðlis eða eiginleika.

Analysis er komið úr grísku. Forskeytið ana- merkir: upp, sundur eða í áttina að, en lysis táknar niðurbrot, sundrun, rof eða upplausn. Íðorðasafn lækna upplýsir að heitið analysis sé notað á þrjá vegu, í fyrsta lagi í almennri merkingu og tákni þá greiningu eða sundurliðun, í öðru lagi um efnagreiningu og í þriðja lagi um sálgreiningu. Í ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs má finna að heitið er notað um fleiri greiningar, svo sem stærðfræðigreiningu, rökgreiningu og efnisgreiningu (í bókmenntum). Læknisfræðiorðabók Stedmans leggur mesta áherslu á þá almennu merkingu sem felur í sér niðurbrot efnasambanda í einfaldari efni og greiningu á því hver samsetning þeirra er.

Orðið analysis er notað í mörgum öðrum samsetningum, en athugun leiðir í ljós sérstaka áherslu á sundurgreiningu þess sem rannsakað er í hverju tilviki. Þannig virðist það eiga vel við þegar fram fer rannsókn til að aðgreina marga þætti, en síður þegar fram fer mæling eða prófun á einum þætti eða einu efni. Þannig má leiða rök að því að heitin quantitative analysis og qualitative analysis eigi best við þegar verið er að mæla eða greina marga efnisþætti í einu. Við annarri notkun skal þó ekki amast í bili.Magngreining, eðlisgreining

Niðurstaða þessara hugleiðinga verður sú að vel fari á að quantitative analysis verði nefnd magngreining á íslensku og að qualitative analysis verði eðlisgreining. Heitin megindargreining og eigindargreining hljóma svo líkt að hætta virðist á ruglingi. Þess vegna er lagst gegn notkun þeirra. Ef til vill er einnig ástæða til að skoða betur og samræma önnur rannsóknaheiti, svo sem assay, measurement og test.Lbl 1994; 80: 488
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica