Íðorðapistlar 1-130

062-Fulminant sepsis

Þórir Helgason, læknir, óskaði eftir umfjöllun um hugtakið fulminant sepsis og nýrri tillögu að íslensku heiti. Orðið sepsis er komið úr grísku og merkti upphaflega rotnun, enda var ígerð í sári upphaflega talin stafa af rotnun vefja. Sepsis er nú heiti á fyrirbæri sem nefnist graftarsótt í Íðorðasafni lækna og er skilgreint þannig: Svæsið sótthitaástand af völdum graftarsýkla, með eða án blóðeitrunar. Orðið fulminant finnst á öðrum stað í safninu og er talið merkja svæsinn. Samkvæmt þessu verður fulminant sepsis að fá heitið svæsin graftarsótt. Engu að síður er full ástæða til að taka fyrirbærið sepsis ásamt skyldum orðum og hugtökum, svo sem bacteremia, pyemia, septicemia og toxemia, til vandlegrar skoðunar.

Nefna má að enska lýsingarorðið fulminating er komið af latneska nafnorðinu fulmen sem merkir elding. Orðabók Arnar og Örlygs gefur merkingarnar skyndilegur, alvarlegur, ofsabráður, svæsinn, en önnur tiltæk ensk-íslensk orðabók tilgreindi merkinguna þrumandi. Í læknisfræðiheitum er latneska lýsingarorðið fulminatus oftast notað um einkenni eða veikindi sem eru allt í senn: skyndileg, hraðfara, mikil og alvarleg.



Bacteremia (bacteriemia)

Í B-kaflanum tilgreinir Íðorðasafnið einungis þýðinguna gerlablóðsmit, en í S-kaflanum, í athugasemd við septicemia, er nefnd þýðingin bakteríudreyri. Rétt er að geta þess að B-heftið var gefið út í október 1986, en S-heftið í febrúar 1989. Á þessum tíma hefur því farið fram einhver endurskoðun. Breytinguna má tímasetja enn nánar með því að skoða athugasemd við pyemia í P-heftinu, sem kom út í september 1988, en þar er bacteremia enn nefnd gerlablóðsmit.

Læknisfræðiorðabók Stedmans skilgreinir bacteremia þannig: The presence of viable bacteria in the circulating blood (Það að lífvænlegar bakteríur séu í blóðrás). Skilgreining hinnar miklu alþjóðlegu orðabókar Wileys í læknis- og líffræði, er nánast samhljóða: The presence of bacteria in the blood (Það að bakteríur séu í blóðrás). Segja má að skilgreining Stedmans sé ívið nákvæmari. Ef vel ætti að vera hefði skilgreining einnig átt að fylgja þýðingu Íðorðasafnsins.

Dreyri er fornt heiti á blóði, fyrst og fremst blóði sem rennur úr sári. Orðsifjabókin rekur skyldleika til ákveðinna orða í fornensku og fornháþýsku sem notuð eru um drjúpandi vökva. Í læknisfræðiheitum kemur dreyri til dæmis fyrir í dreyrasýki (hemophilia) og í natríumdreyri (natremia). Aftur má vekja athygli á því að þýðingar Íðorðasafnsins hafa verið í stöðugri endurskoðun. Þannig birtist heitið chloremia í C-heftinu í mars 1987 án þýðingar, en með skýringunni: Það að of mikið er af klóríðum í blóði. Kalemia birtist sem blóðkalíumhækkun í K-heftinu, sem kom út í nóvember 1987, og natremia sem natríumdreyri í N-heftinu í apríl 1988.



Pyemia (pyohemia)

Pyon er komið úr grísku og merkir gröftur, en haima blóð. Pyemia nefnir Íðorðasafnið blóðígerð og útskýrir þannig: Sjúkdómsástand af völdum graftarsýkla í blóði, sem mynda útsæðisígerð þar sem þeir stöðvast. Fyrrnefndar orðabækur Stedmans og Wileys útskýra á svipaðan hátt: Septicemia due to pyogenic organisms causing multiple abscesses og Septicemia caused by pyogenic bacteria and thus frequently associated with widespread abscesses. Sem beinar þýðingar á þessu heiti, pyemia, mætti nota íslensku heitin graftarblóð, graftarblæði eða graftardreyri.



Septicemia

Íðorðasafnið tilgreinir heitið blóðeitrun og útskýrir þannig: Heilkenni sem einkennist af heiftarlegri bakteríusýkingu með verulegri innrás baktería frá sýkingarhreiðri í blóðstraum. Skilgreiningin í orðabók Stedmans er ekki alveg eins tilkomumikil: Systemic disease caused by the multiplication of microorganisms in the circulating blood (Almennur sjúkdómur sem stafar af fjölgun (vexti) sýkla í blóðrás). Orðabók Wileys tekur heldur dýpra í árinni: Severe generalised infection resulting from hematogenous dissemination of pathogenic microorganisms and their toxins (Alvarleg, útbreidd sýking sem stafar af blóðborinni útbreiðslu sýkla og eiturefna þeirra)



Lbl 1995; 81: 186
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica