Íðorðapistlar 1-130

063-Toxemia, sepsis

Heitið toxemia hefur verið notað í tengslum við sýkingar. Íðorðasafn lækna gefur þýðinguna blóðeitrun og þessa skilgreiningu: Það ástand að í blóði eru eiturefni sem ýmist eru mynduð í frumum líkamans eða komin úr örverum. Grísku forliðirnir tox-, toxi-, toxico- og toxo- eru sömu merkingar og íslenski orðhlutinn eitur-. Sagan segir þó að gríska orðið toxon merki bogi og af því sé komið heitið toxicon, sem notað var um eiturefni borin á örvarodda. Flest læknisfræðileg heiti sem byrja á tox- vísa í eitur, en af heitum sem vísa til boga má nefna toxoplasma, bogfrymil, og toxocara, bogaþráðorm. Toxin er skilgreint þannig: Efni sem framleitt er af lífveru (dýri, plöntu eða örveru) og er öðrum lífverum skaðlegt eða eitrað.

Notkun hugtaksins toxemia í tengslum við sýkingar byggir á þeirri hugmynd að ýmsir sýklar framleiði eiturefni sem geti komist í blóðrás við sýkingu. Heitið toxemia hefur verið notað þannig að það vísi til þeirrar sjúkdómsmyndar, sem fram kemur þegar eiturefni sýkla hafa komist í blóðrás. Heppilegra gæti þó verið að þrengja merkinguna til samræmis við bacteremia, þannig að toxemia vísi einungis til þess að eiturefni séu til staðar í blóði, en ekki til þess klíníska ástands sem af slíku leiðir. Heitið toxicosis gæti tekið við því hlutverki að vísa í klíníska ástandið, sem af toxemia leiðir. Það yrði þá skilgreint sem: sjúklegt ástand sem stafar af eiturefnum í blóði. Blóðeitrun er gott íslenskt heiti, en spyrja má þá hvort það eigi betur við um toxemia eða toxicosis. Með tilliti til samræmingar við þýðingar annarra heita, þar sem síðari liðurinn -emia kemur fyrir, má benda á eiturdreyra, sbr. natríumdreyra, og eiturblæði, sbr. hvítblæði. Hitt er svo annað mál að heitið toxemia virðist nú fremur lítið notað í tengslum við sýkingar.Blóðeitrun

Rétt er að vara við læknisfræðilegri notkun heitisins blóðeitrun um vessaæðabólgu, lymphangitis. Hjá leikmönnum er það oft kallað "blóðeitrun" þegar rauð bólgustrik hafa myndast út frá graftarkýli eða bólgu á útlimum. Vissulega getur slík bólga verið fyrirboði blóðeitrunar eða blóðsýkingar, en læknar ættu að temja sér fulla nákvæmni í notkun íðorða. Sjúklingar þeirra hljóta einnig að geta sætt sig við þá skýringu, að rauðu strikin tákni vessaæðabólgu, en að blóðeitrun fylgi stundum í kjölfarið.Sepsis

Sakleysisleg umfjöllunarbeiðni er nú orðin að umtalsverðu verkefni, en þetta er einmitt það sem íðorðasmiðir verða oft að gera, kynna sér rækilega merkingu og notkun þeirra orða og hugtaka, sem til athugunar eru, auk annarra sem þeim tengjast. Ekki er heldur nóg að treysta á orðabækur því að notkun og skilgreining fræðihugtaka breytast gjarnan í samræmi við nýja þekkingu á hverju fræðasviði. Slíkar breytingar skila sér oft seint inn í almennar orðabækur.

Sepsis er einmitt eitt þeirra heita og hugtaka, sem tekin hafa verið til endurskoðunar, bæði vegna nýrrar þekkingar og eins vegna misræmis í notkun fræðiheita. Flett var upp í tveimur þekktum kennslubókum í lyflæknisfræði, 19. útgáfu af Cecil frá 1992 og 13. útgáfu af Harrison frá 1994. Báðar virðast forðast að nota hugtakið septicemia. Cecil skilgreinir sepsis á hefðbundinn hátt þannig: að ýmsir graftarmyndandi eða aðrir meinvirkir sýklar, eða eiturefni þeirra, finnist í blóði eða vefjum. Harrison hefur hins vegar tekið upp nýja skilgreiningu: sepsis er ástand sem felur í sér almenn bólguviðbrögð gegn innrás sýkla. Þar er það sérstaklega tekið fram að innrás sýkla í blóðrás sé ekki óhjákvæmilegur þáttur í sepsis. Harrison bætir við hugtökunum sepsis syndrome: ástand sem felur í sér almenn bólguviðbrögð gegn innrás sýkla og líffærabilun, og septic shock: ástand sem felur í sér almenn bólguviðbrögð gegn innrás sýkla, líffærabilun og staðfestan lágþrýsting (hypotension).

Þegar gluggað var í fleiri heimildir mátti finna hugtökin: clinically significant sepsis, severe sepsis, systemic inflammatory response syndrome, multiple organ failure og multiple organ dysfunction syndrome. Ljóst er að umræðu um sepsis er alls ekki lokið.

Lbl 1995; 81: 256
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica