Íðorðapistlar 1-130

067-Fósturnauð

Í síðasta þætti var rætt lítillega um andnauð, respiratory distress, og andnauðarheilkenni, respiratory distress syndrome.

Nauð er kvenkynsnafnorð sem táknar neyð, erfiðleika, þjáningu eða þrengingar. Í erlendum læknisfræðiorðasöfnum má einnig finna samsetninguna fetal distress, sem táknar þá streitu eða nauð sem fram kemur við alvarlegan súrefnisskort hjá fóstri eða ófæddu barni. Klínísk merki um fósturnauð eru til dæmis truflanir á hjartslætti og óvænt litun legvatns. Litun legvatnsins stafar af því að fóstrið - eða barnið - missir ristilinnihald út í legvatnið þegar það verður fyrir alvarlegu áfalli.

Meconium nefnast fyrstu hægðirnar, sem koma frá nýfæddu barni, og á sama hátt hægðainnihald ristils hjá fóstri. Heitið meconium er komið úr grísku og er talið dregið af mekonion, heiti á safa valmúans, sem ópíum er unnið úr. Sá safi er væntanlega þykkfljótandi og svipaður útlits og umræddar nýburahægðir. Meconium hefur fengið heitið barnabik í Íðorðasafninu, en í Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar frá 1954 er einnig getið um barnaat og barnasortu. Undirritaður hefur notað heitið fóstursaur, einkum þegar um fóstur er að ræða. Fóstursaurinn er svargrænn, þykkur og slímkenndur, og gefur legvatninu sérkennilegan grænleitan blæ þegar hann blandast því. Hugtakið grænt legvatn er vel þekkt á fæðingarstofnunum sem vísbending eða merki um hættuástand hjá ófæddu barni.

Fósturnauð er nýtt heiti, góð og lipur þýðing á fetal distress, og þarf það einnig að komast inn í Íðorðasafn lækna. Í þessari samsetningu táknar fetus ekki eingöngu fóstur, heldur, og jafnvel miklu fremur, ófætt barn. Barnsnauð er gamalt íslenskt heiti, sem vísar til fæðingar barns. Það er annars vegar notað um eðlilega jóðsótt, léttasótt eða fæðingarhríðir konu, en hins vegar um erfiða fæðingu. Orðið jóð merkir ungbarn eða afkvæmi, en samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er uppruni þess óviss og umdeildur. Kona í barnsnauð getur því ýmist verið þunguð kona sem hefur tekið léttasóttina án sérstakra vandkvæða eða þunguð kona sem á í erfiðleikum með að fæða.Heilkenni - samkenni

Þorkell Jóhannesson, prófessor, sendi stutt bréf í tilefni af umræðu um heilkenni í síðasta pistli. Þorkell kvaðst í mörg ár hafa notað heitið samkenni um syndrome, og sagði svo: "enda er það nokkuð gegnsæ og augljós þýðing og merkir einfaldlega öll þau einkenni, sem eru sameiginleg nánar skilgreindu og afmörkuðu sjúkdómsástandi." Undirritaður notaði sjálfur heitið samstæða, og þótti það best, þar til hann tók þá ákvörðun að hlýða vísbendingu Íðorðasafnsins og fara að nota orðið heilkenni, sem hann hefur síðan getað sætt sig við. Ekki er hægt að gagnrýna röksemdafærslu Þorkels, en henni má reyndar fullt eins vel snúa til varnar hinum orðunum. Hins vegar þurfa læknar að ná sátt um eitt heiti og þar sem heilkenni er nú, með aðstoð Íðorðasafns lækna, að ná vissri útbreiðslu, sýnist það rétti kosturinn.Bakrauf

Bakrauf er heiti sem undirritaður virðist alls ekki geta vanist og kveinkar sér reyndar undan í hvert sinn sem það kemur fyrir í verkefnum starfshóps Orðanefndar. Fyrsta mótbáran var sú að hér væri um gamla dönskuslettu að ræða. Í Danskri orðabók Freysteins Gunnarssonar frá 1957 er að vísu ekki að finna "bagrøv", en þar kemur orðið røv fyrir og er talið ruddalegt heiti á rassskoru, rassi eða boru. Danska orðið bag merkir að sjálfsögðu bak, en í sömu orðabók eru einnig gefnar þýðingarnar bossi, rass og bakhluti.

Í Lexicon poeticum Sveinbjarnar Egilssonar frá 1931 er greint frá því að Bakrauf sé heiti á tröllkonu, "egl. Bagrøv med en spalted bag, eller med en usædvanlig stor røv." Í Læknisfræðiheitum GH er heitið bakrauf hins vegar notað sem íslenskt fræðiheiti á anus og hefur síðan verið tekið upp í Íðorðasafn lækna. Þar er það talið upp á undan heitunum endaþarmsop og rassgat, sem gefur til kynna að bakrauf sé besta heitið. Í Líffæraheitum Jóns Steffensen er "bakið" í bakrauf haft innan hornklofa og gefur það til kynna að rauf sé fullnægjandi heiti á anus.

Lbl 1995; 81: 569

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica