Íðorðapistlar 1-130

069-Hjartsláttartruflanir

Þorkell Guðbrandsson, læknir, kom með tillögu að breytingu á íslensku heitunum á hjartsláttartruflununum fibrillation og flutter. Hann bendir á að heitið fibrillation sé notað um óregluhreyfingar í hjartavöðva, en að íslenska heitið tif bendi fremur til reglulegra hreyfinga. Þá sé enska heitið flutter notað um mjög hraðan en reglubundinn hjartslátt, en íslenska heitið flökt bendi til óreglu. Því hljóti að vera rökrétt að íslensku heitunum verði snúið við.Fibrillation

Fibrillatio er latneskt heiti, dregið af nafnorðinu fibrilla sem merkir lítill þráður, þráðla. Samkvæmt læknis- og líffræðiorðabók Wileys eru það tvö fyrirbæri sem bera heitið fibrillation, annars vegar sjálfvaktir, samdrættir í vöðvaþráðum í taugaskertum beinagrindarvöðva og hins vegar sérstök hjartsláttartruflun, sem ýmist á upptök í gáttum (atrial fibrillation) eða sleglum (ventricular fibrillation) hjartans. Væntanlega er latneska heitið komið til af því að fram kemur óreglulegur kipringur eða kippir í stökum vöðvaþráðum, en ekki reglulegir, samhæfðir samdrættir í vöðvanum sem heild. Íðorðasafnið nefnir fibrillation kipring þegar um beinagrindarvöðva er að ræða, en titring eða tif þegar um hjartavöðva er að ræða. Kennslubækur í lyflæknisfræði greina frá því að tíðni hinna óreglulegu samdráttarhreyfinga sé á bilinu 350-600 á mínútu.Flutter

Flutter er engilsaxneskt orð, talið komið af sögninni floterian sem merkti að fljóta til og frá. Hin mikla alfræðilega ensk-enska orðabók Websters frá 1989 birtir þrettán notkunardæmi til að útskýra merkingar nafnorðsins flutter og sagnarinnar to flutter. Flutter getur til dæmis átt við þegar segja skal frá blakti fána í vindi, blaki fuglsvængja, fálmi órólegra handa, æsingi, óróa og taugatitringi hjá fólki eða hröðum og óreglulegum hjartslætti. Ljóst er því að enska orðið flutter er fyrst og fremst notað um óreglulegar hreyfingar. Kennslubækur í lyflæknisfræði lýsa flutter í hjartavöðva, þannig að um hraðan en reglulegan slátt sé að ræða, um 300 slög á mínútu, ýmist í gáttum (atrial flutter) eða sleglum (ventricular flutter).Tif og flökt

Undirrituðum er ekki kunnugt um uppruna eða aldur íslensku þýðinganna á fræðiheitunum flutter og fibrillation. Hvorugt er að finna í Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar frá 1954. Í A-hefti Íðorðasafns lækna, sem kom út í júlí 1986, er atrial fibrillation þýtt með heitinu gáttatitringur og atrial flutter er þar nefnt gáttaflökt. Í V-heftinu, sem kom út í júlí 1989, er ventricular fibrillation nefnt sleglatitringur, en bætt hefur verið við heitinu sleglatif. Ventricular flutter er nefnt sleglaflökt.

Samkvæmt Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er íslenska nafnorðið tif notað um smágerðar og snöggar hreyfingar, svo sem tif í klukku. Í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs er tif útskýrt á tvo vegu: 1. hröð og tíð hreyfing, 2. lágt og títt ganghljóð: tif í klukku. Flestum mun víst finnast að þessar skýringar gefi til kynna að tif sé hröð og reglubundin hreyfing. Íslenska orðið flökt gefur hins vegar til kynna hvikulleika eða óstöðugleika, samanber flöktandi kertaljós. Það hefur sennilega orðið fyrir valinu vegna hljóðlíkingar við enska orðið flutter.

Titur og tif

Undirrituðum líst ekki á þá hugmynd að heitunum verði snúið við, þó hann sé sammála Þorkeli um það að nafnorðið tif sé ekki heppilegt til að lýsa fibrillation í hjartavöðva. Óregluhreyfingin er meira í ætt við titring en tif. Því kom fram sú hugmynd að nota megi heitið titur um þetta fyrirbæri. Það er hvorugkynsnafnorð og finnst í Orðabók Menningarsjóðs í samsetningunni augnatitur: augnatitringur. Í Íðorðasafni lækna er titur notað í tveimur samsettum orðum, annars vegar titurvilla, delirium tremens, og hins vegar titurrafrit, vibrocardiogram. Í báðum tilvikum má líta svo á að titur sé styttingarmynd orðsins titringur, sem á í raun vel við um fibrillation. Þrátt fyrir að hafa síðan lagst undir feld með allar tiltækar orðabækur tókst ekki að finna betra heiti en flökt til að tákna flutter. Ef til vill er ekki nauðsynlegt að breyta. Gaman væri nú að fá að heyra skoðanir og tillögur lesenda, ef einhverjar eru.

Lbl 1995; 81: 679
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica