Íðorðapistlar 1-130

070-Örverur og sýklar

Sýkill er örvera (microbe, micro-organism), örsmá lífvera sem sýkt getur lifandi verur og valdið sjúklegum breytingum í vefjum þeirra. Helstu flokkar sýkla eru bakteríur (bacteria), sveppir (fungi) og frumdýr (protozoa). Þó að heitið microbe hafi eingöngu verið ætlað þeim lífverum sem sjást í smásjá, þá fjallar sýklafræðin einnig um veirur (viruses), sem eru of smáar til að sjást í ljóssmásjá, og orma (helminths), sem vel sjást með berum augum.



Sýklar og sníklar

Rétt er að ítreka það að sýklar eru allar þær örverur sem geta sýkt og valdið sjúklegum breytingum hjá öðrum lífverum. Heitið er ekki takmarkað við bakteríur. Rotverur (saphrophytes) nefnast þær örverur sem lifa í rotnandi lífrænu efni, en sníklar (parasites) þær sem lifa á öðrum lifandi verum og fá næringu frá þeim. Merking heitisins sníkill í læknisfræðilegu samhengi er þó núorðið gjarnan þrengri og vísar þá eingöngu í þau frumdýr og orma sem sýkja menn.

Mikilvægur flokkur örvera (commensal micro-organisms) lifir hins vegar sníkjulífi á manninum án þess að valda sjúkdómi eða sjúklegum breytingum. Þær mætti nú kalla gistiverur. Með hljóðlíkingu við heitið sníkill gæti gistivera einnig heitið gistill. Ýmsar gistiverur valda þó sjúklegum breytingum þegar sýklavarnir líkamans bila eða þegar þær komast inn í vefi gegnum rofið yfirborð. Slíkar verur nefnir Íðorðasafnið tækifærissýkla.

Sýklaheiti

Heiti ýmissa sýkla hafa verið þýdd á íslensku og hljóma dável. Nefna má keðjuhnettlu fyrir Streptococcus, klasahnettlu fyrir Staphylococcus, bogsýkil fyrir Campylobacter, snældugeril fyrir Clostridium og veiru fyrir virus.

Flest íslensku sýklaheitin eiga þó erfitt uppdráttar. Sum sýnast hjákátleg, svo sem blóðfíkill fyrir Hemophilus og iðrakeðjusýkill fyrir Enterococcus, en önnur óhæfilega stirðleg, svo sem lungnabólgustafsýkill fyrir Klebsiella pneumoniae. Enn fremur má segja að nákvæmni skorti þegar almennt lýsandi heiti kemur í stað fræðilegs nafns, sem á að vera einhlítt.

Heitið bacterium (ft. bacteria) er myndað af gríska orðinu baktron sem merkir stafur. Íðorðasafnið gefur íslensku heitin baktería, sem er kvenkynsorð, og gerill, sem er karlkynsorð. Heitið gerill vísar til þess að flestar bakteríur geta gerjað, sundrað vissum lífrænum efnasamböndum og breytt þeim í einfaldari efni. Gerjunarhæfni baktería er nú notuð við bakteríurannsóknir til að aðgreina tegundir þeirra. Gerill er þó gagnslítið heiti annars staðar en á rannsókastofum, enda nota flestir læknar nú heitið baktería í daglegu starfi.

Sýklar eru mjög margir og tegundum þeirra virðist stöðugt fjölga. Stöðugt er unnið að grunnrannsóknum á sýklum og sú vitneskja sem fæst leiðir stundum til þess að viðtekin flokkun breytist eða að skipta verður um nöfn á ákveðnum tegundum. Nægir að nefna bakteríuna Helicobacter, sem fyrir skömmu hét Campylobacter og þar áður Vibrio. Heiti einstakra sýkla eiga sér margvíslegan uppruna, til dæmis eru þau oft dregin af nöfnum vísindamanna (Salmonella, Escherichia, Klebsiella, Neisseria, Nocardia), stundum af sérstöku útliti (Streptococcus, Diplococcus, Clostridium, Helicobacter, Corynebacterium, Spirochaeta), en einnig af staðsetningu sýkingar í líkamanum (Pneumococcus), sjúklingahópi sem hefur veikst af þeirra völdum (Legionella), búsetu í líkamanum (Enterococcus) eða jafnvel hegðun á smásjárgleri (Vibrio). Mannanöfnin er ógerlegt að þýða og einnig mörg hinna svo að vel sé.

Umritun sýklaheita

Í pistli í Fréttabréfi lækna í ágúst 1990 fjallaði Karl Kristinsson, læknir, um nafngiftir í sýklafræði. Þar kemur fram að einungis örfá hinna íslensku bakteríuheita séu í notkun og segir Karl beinum orðum: "Óþarfi er að íslenska öll bakteríunöfn." Undirritaður vill nú stíga skrefi lengra og leggur til að bakteríuheiti verði ekki lengur þýdd á íslensku heldur umrituð nokkurn veginn hljóðrétt eins og heiti lyfja og lyfjaefna. Sem dæmi má taka: stafýlókokkur, streftókokkur, salmónella, eserikía, klebsíella, listería og hemófílus. Æskilegt væri að fenginn yrði vinnuhópur til að ganga frá samræmdum reglum.



Lbl 1995; 81: 751
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica