Íðorðapistlar 1-130

087-Enn um stent

Í síðustu tveimur pistlum hefur verið rætt um útbúnað sem viðheldur opi eða holi sem ekki má lokast. Enska heitið er stent. Fram hafa komið margar góðar tillögur að íslenskum heitum og enn bætist við.

Einar Jónmundsson, röntgenlæknir, á þátt í því að koma umræddum búnaði á fyrirhugaðan stað. Hann segist hafa notað heitið fóðring í sínum lýsingum og hefur fyrirmynd í máli pípulagningamanna. Undirritaður leggst gegn því af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er um að ræða gamla dönskuslettu, sem ekki hefur verið viðurkennd eða tekin inn í íslenskar orðabækur. Í öðru lagi er danska orðið "fodring" eða "foring" fyrst og fremst notað um klæðningu sem þekur eða hylur hið klædda yfirborð nær alveg. Íslensku þýðingarnar eru þessar helstar: fóður (í flík), klæðning (áklæði á húsgagni) og þil (viðarklæðning á vegg). Sá útbúnaður sem Einar sýndi undirrituðum er ekki þess eðlis. Hann styður við en klæðir ekki algjörlega. Loks tókst undirrituðum að finna "foring" í samsettu heiti í Íðorðasafni verkfræðingafélagsins frá 1929, en þar er notuð íslenska þýðingin hólkur.

Jónas Magnússon, prófessor, sendi skilaboð og tillögu, stag, án rökstuðnings eða útskýringar. Undirritaður leggur honum því orð í munn. Nafnorðið stag má finna í Íslenskri orðabók Máls og menningar. Meðal skýringanna eru orðin reipi, band, rófustag, þvottasnúra, tjaldsnúra, kaðall í skipsreiða og styrktarstrengur. Að svo miklu leyti sem hið gamla heiti stag takmarkast ekki við einn streng er þessi tillaga því allrar athygli verð. Stag hefur að auki svolitla hljóðlíkingu við stent. Þá má ef til vill nota sögnina að staga og nafnorðið stögun um þann verknað að koma umræddu stagi á sinn stað. Meðal skýringa á sögninni að staga er eftirfarandi: að þenja, að strengja eða að stoppa í gat. Ekki hljómar illa að segja í lýsingu aðgerðar: "Stagað var í gallrás" eða "Æðastögunin tókst vel."

Hér með verður látið útrætt um fyrirbærið stent, en framkomnar tillögur að íslensku heiti eru (í stafrófsröð, sjá þó E.S. í næsta pistli): fóðring, ræsi, rör, lögn, hólkur, stag og stoðnet. Samsett heiti gætu þó einnig komið til greina: stoðrör, stoðlögn, stoðhólkur og jafnvel stoðstag.Ný sérgrein

Hildur Harðardóttir, læknir, hringdi og bað um aðstoð við að finna íslenskt heiti á nýja sérgrein í læknisfræði. Hún hefur lokið námi í undirgrein sem á ensku nefnist maternal-fetal medicine. Þessi sérgrein fæst við sjúkdóma móður og fósturs á meðgöngutíma og bein þýðing enska heitisins verður móður- og fósturlæknisfræði. Á Hildi mátti skilja að perinatology og perinatal medicine væru önnur samheiti á greininni.Læknisfræðiorðabók Stedmans nefnir ekki maternal-fetal medicine en lýsir perinatology á þennan veg: Undirgrein fæðingarfræði, sem fæst við umönnun móður og fósturs á meðgöngutíma og við fæðingu, einkum þegar móðir og/eða fóstur eru í hættu hvað varðar fylgikvilla. Rétt er þó að benda á að lýsingarorðið perinatal á sérstaklega við um tímabil sem nær frá 28. viku meðgöngu og allt fram til þess að ein vika er liðin frá fæðingu. Íðorðasafn lækna nefnir það burðarmálsskeið. Sé ótvírætt um samheiti að ræða, er lausn fengin með því að notað heitið burðarmálslækningar og nefna sérfræðinginn burðarmálslækni.

Mater er latneskt nafnorð sem þýðir móðir og maternal er lýsingarorð sem þýða má með móður- eða móðurlegur. Þar sem maternal kemur fyrir í Íðorðasafni lækna er ýmist notað móður- eða mæðra-.

Fetus er á sama hátt latneskt nafnorð sem þýðir fóstur og um lýsingarorðið fetal er ýmist notað fóstur- eða fósturs-. Rétt er að vekja athygli á skýringu Íslensku orðabókarinnar á orðinu fóstur: afkvæmi (barn) í móðurkviði (á hvaða stigi sem er milli eggfrjóvgunar og fæðingar). Fósturfræðin takmarkar hins vegar notkun á heitinu fetus við tímabilið frá lokum áttundu viku meðgöngu til fæðingar. Fyrir þann tíma nefnist hið verðandi afkvæmi embryo eða fósturvísir. Með fyrrgreindu sérgreinarheiti er þó vafalítið vísað til fósturs í víðasta skilningi.

Heitið medicine er notað um læknisfræðina í heild, en í þrengri skilningi eingöngu um lyflæknisfræði. Í samsetningum er oft talað um -lækningar, svo sem augnlækningar og barnalækningar. Þannig mætti einnig nefna undirsérgrein Hildar mæðra- og fósturlækningar.

Lbl 1997; 83: 181

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica