Íðorðapistlar 1-130

091-Mænudeyfing

Í síðasta pistli hófst stutt umræða um deyfingar, en tilefnið var bréf frá Jóni Sigurðssyni, svæfingalækni, sem vill láta endurskoða þau íslensku heiti sem notuð eru um mænudeyfingar. Enska fræðiheitið spinal anesthesia (L. anaesthesia spinalis) er notað um deyfingu sem byggist á því að deyfilyfi er komið í innanskúmsbilið (spatium subarachnoideum). Helstu samheitin, sem gefin eru í orðabókum, eru subarachnoid anesthesia og intraspinal anesthesia, en Jón nefnir að auki intrathecal anesthesia.

Strangt tekið merkja lýsingarorðin ekki nákvæmlega það sama. Auk þess að vísa til beinnibbu, svo sem mjaðmarbeinsnibbu (spina iliaca), getur latneska orðið spinalis vísað til hryggsúlu (columna spinalis) eða mænu (medulla spinalis). Intraspinalis vísar því ýmist inn í mænugöng (canalis spinalis), án nánari staðsetningar, eða alla leið inn í mænu. Enska orðið subarachnoid er nákvæmara og vísar í rýmið eða bilið undir heila- eða mænuskúmi (arachnoidea mater) þar sem heila- og mænuvökvinn flæðir. Gríska orðið theca hefur verið notað um slíður eða hýði, til dæmis theca externa sem er úthula gulbús í eggjastokki. Það var einnig áður notað um heila- og mænubast (theca cerebri, theca vertebralis), en er nú talið úrelt í þeirri merkingu. Intra- merkir ýmist inni í eða innan við og lýsingarorðið intrathecalis vísar því inn í eða inn fyrir heila- eða mænubast (dura mater).

Betri heiti?

Beinar þýðingar á framangreindum deyfingarheitum eru því þessar: hryggdeyfing, mænudeyfing, mænugangnadeyfing, innanskúmsdeyfing og innanbastsdeyfing. Jón er ekki fyllilega ánægður með neitt þeirra og telur að mænuvökvadeyfing sé betra heiti, meðal annars vegna þess að það valdi síður hræðslu hjá sjúklingum, "sem vita að mænan er viðkvæmt líffæri."

Undirritaður er Jóni ekki sammála um það að hopa eigi frá heitinu mænudeyfing sem náð hefur almennri útbreiðslu og er bæði sæmilega lipurt og hæfilega nákvæmt fyrir leikmenn. Betra er að upplýsa sjúklingana skilmerkilega um hættuna, sem af deyfingunni getur stafað, en að fara í feluleik með orðin. Nákvæmari heitin má svo nota þegar sérstök þörf er á, til dæmis í fræðilegum fyrirlestrum eða greinum og við kennslu. Hitt er svo annað mál að læknar hafa verið tregir til að nota íslensku heitin á heila- og mænuhimnunum, bast (dura), skúm (arachnoidea) og reifar (pia). Meðan svo er verða samsettu heitin alltaf framandi. Þessi heiti eru þó öll það stutt að þau fara vel í samsetningum og eiga það vel skilið að komast í almenna notkun. Undirritaður stingur þó upp á nýyrðinu reif, sem notað verði um pia mater sem kvenkynsorð í eintölu, í stað gamla fleirtöluorðsins reifar.Eru sjúklingar séðir?

Tilefni spurningarinnar er eftirfarandi fullyrðing íslensks læknis um hóp sjúklinga með tiltekinn sjúkdóm: "Sjúklingarnir verða að vera séðir á þriggja mánaða fresti!" Undirrituðum fannst ekki mikið til þess koma að sjúklingarnir væru einungis "séðir" á þriggja mánaða fresti og leitaði skýringa.

Í Íslenskri orðabók Máls og menningar má finna lýsingarorðið séður: aðsjáll, út undir sig, lævís; útsjónarsamur, hagsýnn. Orðið er þar sagt myndað af lýsingarhætti þátíðar af sögninni að sjá. Nú er þessi ágæti læknir bæði vel að sér og vinsæll og því má vera að sjúklingar hans verði að vera talsvert aðsjálir, lævísir eða útsjónarsamir til þess að komast í viðtal og skoðun hjá honum á þriggja mánaða fresti. Hitt er þó sennilegra að læknirinn hafi í hugsunarleysi verið að skila fræðilegum leiðbeiningum úr enskum eða amerískum texta: "The patients must be seen every three months." Enska fræðimálið er orðið svo útbreitt og mörgum læknum svo tamt að stundum virðist eins og þeir hugsi um fræðin á ensku fremur en á íslensku. Ofangreinda leiðbeiningu má þó orða á marga vegu: Sjúklingarnir verða að koma í skoðun ...; Sjúklingana verður að skoða ...; Sjúklingarnir verða að koma í eftirlit ...; Fylgjast verður með sjúklingunum ...; Eftirlit verður að fara fram ... og svo framvegis. Hrá orðabókarþýðing er alveg óþörf.Lbl 1997; 83: 515
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica