Íðorðapistlar 1-130

096-Teppukvef

Michael Clausen, barnalæknir, skrifar frá Akureyri og gerir grein fyrir ástandi sem ung börn fá stundum þegar þau veikjast af veirum og kallast á ensku "bronchiolitis" og á sænsku "obstructiv bronchitis" og einkennist af kvefeinkennum og teppu í lungnapípum.

Michael er ekki sáttur við þau íslensku heiti sem tilgreind eru í Íðorðasafni lækna og leggur fram sína eigin tillögu: Mín tillaga er að við köllum það teppukvef, ástandið sem einkennist af hvæsandi, lengdri útöndun hjá veikum börnum yngri en 2ja ára, sem eru án ofnæmiseinkenna.



Kvef

Erindi Michaels gefur tilefni til þess að taka heitið kvef til svolítillar skoðunar, en það hefur lengi beðið á verkefnalista undirritaðs. Íslensk orðabók Máls og menningar lýsir kvefi þannig: algengur farandkvilli, venjulega samfara bólgu í slímhimnu koks og háls, stundum hósta. Lesandinn er litlu nær. Íslenska alfræðiorðabókin gerir mun betur: kvefsótt: algengur, smitnæmur veirusjúkdómur í slímhúð nefs og háls; lýsir sér með nefrennsli, hnerra, höfuðverk, hitaslæðingi, beinverkjum og oft háls- og barkabólgu. Best er þó lýsing læknisfræðiorðabókar Stedmans undir flettunni cold: Veirusýking í efri öndunarvegi sem einkennist af vökvafyllu í slímhúðinni, vatnskenndu nefrennsli og almennum lasleika sem varir þrjá til fimm daga. Íðorðasafn lækna tekur í sama streng um common cold og gefur þar íslensku heitin kvef, kvefsótt og bráð kvefsótt án sérstakrar aðgreiningar. Svo má því skilja að um samheiti sé að ræða.

Heitin kvef og kvefsótt koma fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924, en þar er gerður sá greinarmunur að kvefsótt er talin "farandkvilli". Íslensk læknisfræðiheiti Guðmundar Hannessonar frá 1954 tilgreina kvef sem eina af íslensku þýðingunum á catarrhus, en bráð kvefsótt er tilgreind sem þýðing á catarrhus respiratorius acutus. Gríska sögnin katarrhein merkir að renna eða flæða niður. Fyrrgreind orðabók Stedmans lýsir catarrh þannig: bólga í slímhúð með auknu flæði slíms eða vilsu. Ekki er sérstaklega vísað í slímhúð öndunarvegar og nú er fengin skýringin á því að Íðorðasafn lækna geymir nokkur kvefheiti sem nota má um bólgur með slím- eða bólguvilsurennsli úr öðrum líffærum, svo sem magakvef, ristilkvef, augnkvef, lungnakvef og jafnvel legkvef.

Gríska læknisfræðiheitið coryza vísar hins vegar sérstaklega í öndunarfærin og er þýtt á ensku sem acute rhinitis og á íslensku sem nefkvef. Það er talið samsett úr nafnorðinu korys, sem merkir hjálmur eða höfuð, og sagnorðinu zeein, sem merkir að sjóða, ólga eða freyða. Greinilegt er að snemma urðu læknisfræðiheiti lýsandi.

Að lokum má minnast á nafnorðið kvefja. Íðorðasafn lækna gefur heitin slímhúðarbólga og kvefja undir flettunni catarrh, en í Íslensku orðsifjabókinni má finna sögnina að kvefja í merkingunni að kæfa eða stífla.



Kvefja

Helsti gallinn við tillögu Michaels er sá að heitið teppukvef vísar ekki sérstaklega í þau líffæri sem teppt eru, berkjurnar. Teppukvef gæti allt eins vísað í stíflað nef eða stíflaða görn. Spurningin er nú hvort ekki megi taka þetta nýja nafnorð, kvefja, til að nota um kvef með stíflu og að bæta síðan við tilvísun í það líffæri sem stíflað er eða teppt. Berkjukvef er bólga í berkjuslímhúð með auknu slím- og vilsurennsli og berkjukvefja yrði þá berkjukvef með teppu eða stíflu. Án þess að leggjast beinlínis gegn tillögu Michaels er þessu hér með varpað fram, honum og öðrum áhugamönnum til umhugsunar. Aðrar tillögur eða frekari umræða væri vel þegin.



Veiruflétta

Óvænt rak nýlega á fjörurnar heitið virus complex. Í latínu má finna orðin complexio sem merkir samtenging eða sameining og complexus sem merkir samofinn. Af orðabókum má ráða að nafnorðið complex geti merkt samstæða, kerfi, flóki, flækja eða flétta. Ein af orðskýringunum getur þess að líffærafræðileg samstæða sé mynduð úr þremur eða fleiri skyldum fyrirbærum. Líffæra- og vefjafræðiheitin frá 1995 gera ráð fyrir að complex fái íslenska heitið flóki. Hér má þó vera að veirusamstæða hæfi betur, jafnvel veiruflétta.

Lbl 1998; 84: 63

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica