Íðorðapistlar 1-130

101-Skyggna, hundraðsmark

Eftir krókaleiðum barst afrit af tölvubréfi frá óþekktum bréfritara, en það hefst þannig: "Ein er sú orðmynd sem raskar mínum fíngerðu taugum, en það er "slæða" í stað enska heitisins "slide" (litljósmynd sem varpað er á tjald, venjulega í plastramma 4x4 sm)."

Í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs koma fram margvíslegar þýðingar á sagnorðinu to slide og nafnorðinu slide. Aðalmerking sagnarinnar er sú að renna, en einnig má finna aðrar skyldar: að renna sér, skrika, skrensa, líða áfram, lauma, læða, mjakast, skríða o.s.frv. Aðalmerking nafnorðsins er renna, en í áttunda merkingarlið er það einnig þýtt þannig: skyggna, lítil myndglæra í ramma, litskyggna, skuggamynd. Upphaflega hefur mynd af þessu tagi fengið heitið slide á ensku vegna þess að myndin var látin renna á sinn stað í sýningarvélinni, fyrir ljósgeislann. Enskar orðabækur nefna gjarnan töfralampa, magic lantern, í tengslum við orðskýringar. Saga slíkra sýningarvéla er án efa heillandi, en ekki á færi undirritaðs að rekja. Í staðinn koma í hugann heiti bakkanna sem bera myndirnar í vélunum, carousel, hringekja í vélum af tiltekinni amerískri gerð og Schlitten, sleði í öðrum vélum. Þegar flett er upp í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar kemur einmitt í ljós að íslenska orðið sleði og enska orðið slide eiga til skyldleika að rekja gegnum fornensku sögnina slídan.

Skyggna og skyggnuvél eru lipur heiti og undirritaður sér enga ástæðu til þess að nota ensku sletturnar "slæd" eða "slædsmynd", né heldur að íslenska "slide" með heitinu "slæða". Í réttu samhengi má að auki nota mynd, til dæmis: "Næstu mynd, takk fyrir!" Gaman væri að fá fréttir af því hvort einhver önnur myndaheiti séu komin í notkun.Vernal conjunctivitis

Björn Árdal, barnalækir, óskaði eftir umræðu um fyrirbærið vernal conjunctivitis. Sjúkdómurinn er talinn af ofnæmisuppruna og birtist sem árstíðabundin slímhimnubólga í augum. Ljósfælni og mikill kláði fylgja gjarnan og við skoðun sést að slímhimnan er óslétt eða smáhnúðótt.

Nú ber þess að geta að conjunctiva eða tunica conjunctiva hefur ýmist verið nefnd augnslímhúð, augnslíma eða tára. Orðanefnd læknafélaganna tók þá stefnu við nýja útgáfu líffæraheitanna að tára verði aðalheitið. Nefna má hliðstæðurnar hvíta (sclera), glæra (cornea), æða (choroidea), lita (iris) og sjóna (retina). Conjunctivitis verður þá tárubólga, sem er mun liprara en augnslímhúðarbólga, augnslímubólga eða slímubólga í augum.

Enska lýsingarorðið vernal er komið úr latínu þar sem vernus er notað um það sem tengist eða líkist vorinu. Læknisfræðiorðabók Stedmans gefur meðal annars upp ensku samheitin allergic conjunctivitis og spring conjunctivitis. Þá sýnist liggja næsta beint við að heitið vernal conjunctivitis verði vortárubólga á íslensku. Ofnæmistárubólga kemur einnig til greina, en þá tapast tilvísunin í árstíðina, sem gæti verið nytsamleg til þess að gera heitið eftirminnilegt. Gaman væri að heyra af öðrum hugmyndum.Percentile

Á minnismiða frá í febrúar er beiðni um að skoða hugtakið percentile. Orðabók Stedmans lýsir þannig (í þýðingu undirritaðs): Staða einstaklings í sérstakri röð, gefin upp með því að tilgreina ofan við hvaða hundraðshlutfall af hópnum hann (eða hún) lendir. Íðorðasafn lækna tilgreinir þýðinguna hundraðsmark og sér undirritaður enga ástæðu til að betrumbæta það. Dæmi: einstaklingur, sem er hærri vexti eða þyngri en níutíu af hundraði (90%) viðmiðunarhópsins, lendir ofan við nítugasta hundraðsmark.Hreyfni

Þorkell Jóhannesson, prófessor, sendi tölvupóst og vildi koma á framfæri hugmynd. Ýmis heiti sem lýsa hreyfitruflunum enda á -kinesia, en gríska nafnorðið kinesis merkir hreyfing. Þorkell segist hafa tekið það upp fyrir 14 árum að nota orðhlutann -hreyfni til að tákna tegund eða eðli hreyfinga þegar hann var að þýða heiti sem enda á -kinesia. Hann segir hreyfni myndað með hliðsjón af bægni, svo sem í meinbægni, og tilgreinir nokkur dæmi. Af þeim skulu hér einungis nefnd seinhreyfni fyrir bradykinesia og ofhreyfni fyrir hyperkinesia. Þetta er athygli verð hugmynd sem verður rædd síðar.

Lbl 1998; 84: 505

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica