Íðorðapistlar 1-130

108-Íhlutun, spennuleysir

Ásmundur Brekkan hafði samband vegna texta sem hann var að vinna við og þar sem fyrir kom hugtakið "interventional radiology". Enska nafnorðið intervention er komið út latínu þar sem sögnin intervenire merkir að komast á milli. Í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs er enska sögnin intervene: 1. koma á milli, vera á milli. 2. blanda sér í mál, skerast í leikinn, ganga á milli, reyna að koma á sættum. Í texta Ásmundar virtist þýðingin á sögninni intervene að skerast í leikinn eiga best við, en í Íslensku orðtakasafni Halldórs Halldórssonar er eingöngu gefin merkingin: hlutast til um mál í því skyni að binda endi á það. Í Íslenskum orðatiltækjum Jóns G. Friðjónssonar eru hins vegar tvær merkingar: taka í taumana, hafa afskipti af e-u með afgerandi hætti. Blæbrigðin eru því allt frá því að stöðva alveg, eins og þegar hestur er stöðvaður með því að grípa ákveðið í taumana, yfir í það að grípa afgerandi inn í einhverja atburðarás, án þess endilega að stöðva hana.

Ný tækni og nýjar aðferðir í röntgenfræði hafa gert það að verkum að ekki er lengur eingöngu um "hlutlausar rannsóknir" að ræða, röntgenlæknirinn er einnig farinn að grípa beint inn í atburðarás og hlutast til um meðferð sjúkdómsbreytinga með aðgerðum sínum. Það er þessi tegund röntgenfræði sem nefna má interventional radiology. Íðorðasafn lækna tilgreinir þýðinguna inngrip fyrir intervention, en Orðanefndin hefur síðan einnig lagt fram heitið íhlutun, sem bæta þarf inn í viðkomandi hefti (H-K). Íhlutunarröntgenfræði er ekki beinlínis lipurt heiti, en það er þó ekki lengra en hið erlenda, hvort heldur er í stöfum eða atkvæðum talið.Surfactant

Á gömlum og snjáðum minnismiða fann undirritaður hugmynd að íslensku heiti á því efni eða þeim efnaflokki sem surfactant nefnist. Hugmyndin er sennilega frá Sigurði V. Sigurjónssyni, röntgenlækni, komin og vildi hann bæta um betur vegna þeirra þýðinga sem er að finna í Íðorðasafni lækna: 1. yfirborðsvirkt efni, 2. lungnablöðruseyti.

Í Orðabók Arnar og Örlygs finnst orðasambandið surface-active agent. Íslensk þýðing er ekki gefin heldur lýsing: yfirborðsvirkt efnasamband sem minnkar yfirborðsspennu vatnslausnar eða spennu í snertifleti lausnar við annan vökvafasa. Eitt helsta efnið af þessu tagi er framleitt í lungnablöðrum mannsins, myndar þar einfalt lag (monolayer) á yfirborði lungnablöðruþekjunnar og dregur úr yfirborðsspennu lungnablöðruvökvans. Þegar þetta efni er til staðar opnast blöðrurnar auðveldlega við innöndun, þó þær falli saman eftir útöndun. Skortur á þessu náttúrulega efni kemur fyrir hjá fyrirburum, en tilbúin yfirborðsvirk efnasambönd eru nú komin í notkun við öndunarmeðferð og hafa ætíð verið nefnd "sörfaktant" á slangurmálinu. Hugmynd Sigurðar er sáraeinföld, að tekið verði upp heitið spennuleysir. Engin ástæða er til þess að reyna að betrumbæta það, en lýst er eftir athugasemdum eða öðrum hugmyndum.Perfusionist

Viktor Magnússon hafði samband fyrir nokkru síðan og óskaði eftir aðstoð við að finna heiti á starfsgrein sína. Á ensku er notað starfsheitið perfusionist, en íslenskt heiti hefur ekki fengist. Viktor hefur grunnmenntun í rafeindafræði og vinnur við daglegan rekstur hjarta- og lungnavélar, ósæðardælu og við blóðflæðimælingar í tengslum við hjartaskurðlækningar. Samstarfsmaður hans hefur hins vegar grunnmentun í meinatækni.

Perfusion er skilgreind sem heilbrigðistengd starfsgrein á þann veg að hún fáist við notkun tækjabúnaðar til að leiða blóð og súrefnismetta það utan líkama sjúklings. Perfusionist er síðan starfsmaður sem hefur fræðilega, tæknilega eða klíníska undirstöðu og þjálfun til þess að stjórna þeim búnaði, sem tímabundið viðheldur blóðflæði utan líkama sjúklings meðan á læknisfræðilegri aðgerð stendur. Í uppkasti því að starfslýsingu, sem Viktor afhenti undirrituðum, er gert ráð fyrir grunnnámi í meinatækni, tæknifræði, verkfræði, hjúkrunarfræði, eða læknisfræði og síðan tveggja ára bóklegu og verklegu sérnámi. (Framhald í næsta blaði.)Lbl 1999; 85: 179
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica