Ritstjórnargreinar

Kerfisbundin leit að fósturgöllum snemma í meðgöngu Vísindaleg þekking og mannleg viðhorf

Gestaritstjóri þessa heftis

Jóhann Ág. Sigurðsson prófessor, Heimilislæknisfræði Háskóla Íslands



Gestaritstjórn þessa heftis:

Ástríður Stefánsdóttir læknir, MA í heimspeki

Ástþóra Kristinsdóttir ljósmóðir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands

Linn Getz læknir, í doktorsnámi

Sigríður Sía Jónsdóttir yfirljósmóðir, Miðstöð mæðraverndar, Heilsugæslunni í Reykjavík

Vilhjálmur Árnason prófessor, heimspekideild Háskóla Íslands

Þórir Kolbeinsson yfirlæknir, formaður Félags íslenskra heimilislækna



Forsíðumynd: Vitneskjan. © Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir.

Þverfagleg þekking

Á tímum hraðra samfélagsbreytinga, þar sem gömul og ný siðferðisgildi blandast saman við örar og ófyrirséðar tækniuppgötvanir, er nauðsynlegt að staldra við og ræða málin frá sem flestum sjónarhornum. Snemmómskoðun í meðgöngu byggist í grundvallaratriðum á því að meta og túlka hnakkaþykkt fóstursins. Ákvörðun um að hefja svo þýðingarmikla rannsókn á landsvísu verður ekki tekin á grundvelli þess að tæknin sem gerir slíkt mögulegt sé til, heldur eingöngu eftir að þverfagleg umræða um kosti hennar og galla hefur átt sér stað meðal allra þeirra aðila sem að málinu koma. Aðeins þannig gætum við hagsmuna samfélagsins og einstaklinganna sem mynda það.

Félag íslenskra heimilislækna og Ljósmæðrafélag Íslands fagna því að tekist hefur að koma á framfæri þeirri þverfaglegu þekkingu sem endurspeglast í þessu riti.



Þórir B. Kolbeinsson

formaður Félags íslenskra heimilislækna

Ástþóra Kristinsdóttir

formaður Ljósmæðrafélags Íslands

Ábyrgð ljósmæðra og lækna við ákvarðanatöku um hnakkarþykktarmælingar og rannsóknir á meðgöngu



Kona hringdi á Miðstöð mæðraverndar til að panta tíma í meðgönguvernd og ráðfæra sig við ljósmóður. Hún var komin rúmar 10 vikur á leið og sagðist vera búin að fá tíma í sónar eftir viku í hnakkaþykktarmælingu. Hún hafði farið á stofu til kvensjúkdómalæknis og sagði: "Hann vill að ég fari."

Hér komum við að einu mikilvægasta atriðinu sem blasir við okkur þegar upplýsa þarf verðandi foreldra um þær rannsóknir/skimanir sem í boði eru á meðgöngu. Hvernig fara ljósmóðir/læknir að því að koma þessum upplýsingum til foreldra þannig að það sé tryggt að þau, ekki við, taki upplýsta ákvörðun? Ákvörðun sem byggir á þeirra lífssýn og við virðum sem þá einu réttu. Okkur er lagður mikill vandi á herðar því öll höfum við okkar sýn á hvað sé eftirsóknarvert í lífinu og er það hugsanlegt að það hafi áhrif á hvernig við stöndum að upplýsingagjöf?

Hér á landi er okkur jafnvel enn meiri vandi á höndum en kollegum okkar víða annars staðar. Staðreyndin er að hér er enginn starfandi erfðaráðgjafi, sem hægt er að leita til. Mjög brýnt er að bætt verði úr því hið fyrsta og stöðu erfðaráðgjafa komið á fót. Hver á annars að liðsinna fólki til dæmis þegar niðurstaða úr "óhagstæðu" líkindamati í snemmskimun liggur fyrir? Einnig er ekki hægt að horfa fram hjá því að í grunnnámi ljósmæðra og lækna vantar námskeið um ráðgjöf. Verði hnakkarþykktarmæling og lífefnavísar tekin upp sem valkostur fyrir alla verðandi foreldra verður að mennta ljósmæður og lækna í ráðgjöf þannig að það heyri sögunni til að verðandi móðir segi að ljósmóðirin eða læknirinn vilji að hún fari í snemmskimun eða einhverjar aðrar rannsóknir á meðgöngu.



Sigríður Sía Jónsdóttir

yfirljósmóðir á Miðstöð mæðraverndar

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica