Fræðigreinar

Þú hefur ofið mig í móðurlífi

Inngangur

Hér verður fjallað um guðfræðilegrar og siðfræðilegar vangaveltur um líf fyrir fæðingu. Fyrst langar mig til að hafa örlítinn inngang um það hvernig guðfræðileg afstaða er tekin gagnvart einstökum málum og í öðru lagi hvernig við tökum siðferðislega afstöðu, sem byggð er á kristinni trú, en það er sá grunnur sem ég byggi á. Síðan mun ég leitast við að taka bæði guðfræðilega og siðfræðilega afstöðu gagnvart snemmgreiningu á Downs heilkennum.


Guðfræðileg afstaða

Þegar taka á guðfræðilega afstöðu er fyrst skoðað hvort Biblían hafi eitthvað ákveðið um ákveðinn málaflokk að segja. Ef rannsóknin leiðir það í ljós að ekkert er nákvæmlega sagt um eitthvert þröngt efni, eins og mörg þau sem nútíma tækni er að glíma við, þá er skoðuð afstaða Biblíunnar til skyldra málaflokka eða til efnis sem hægt er að draga guðfræðilega niðurstöðu af. Nú er það nokkuð ljóst bæði hjá þeim sem eru guðfræðimenntaðir og öðrum sem eitthvað þekkja til trúarbókar okkar að Biblían er gömul bók. Hún er skrifuð á mjög löngum tíma og af mjög mörgu fólki með nokkuð mismunandi afstöðu til lífsins. Samt sem áður getum við ekki litið framhjá því að Biblían hefur lifað með tugum kynslóða og mótað menningu okkar og lífsafstöðu miklu meira en okkur grunar. Þrátt fyrir það að Biblían sé skrifuð af fólki með mismunandi lífsafstöðu má draga nokkurn rauðan þráð í gegnum þessar 66 bækur sem Biblían er samansafn af.

Það sem gengur eins og þráður í gegnum Gamla testamentið, sem er bókasafn 39 bóka, er sköpunartrúin, það er trúin á einn Guð sem skapað hefur himin og jörð og manneskjuna (karl og konu) í sinni mynd. Að Guð hafi skapað manneskjuna í sinni mynd þýðir ekki að manneskjan beri útlitslega mynd Guðs, heldur þýðir það að manneskjan sé sköpuð til samfélags við Guð og hafi þannig sérstöðu í sköpunarverkinu umfram önnur dýr og jurtir. Þráðurinn heldur áfram í trú á handleiðslu Guðs með hverju mannsbarni kynslóð fram af kynslóð. Þannig er það skoðun sköpunarguðfræðinga að vitrænn hugur, Guð, standi að baki þróunar heimsins frá frumstæðum örverum til hinnar viti bornu manneskju. Þetta má segja að sé sameiginleg lífsafstaða allra bóka Biblíunnar.

Þegar þessi fræði eru skoðuð eru þær bækur Biblíunnar skoðaðar, sem hafa að geyma ljóð eða frásagnir af sköpun heimsins. Eitt kunnasta ljóð um sköpun heimsins er sköpunarsagan í fyrstu Mósebók, en Biblían hefur að geyma mörg önnur sköpunarljóð, eins og áttunda Davíðssálm og 139. Davíðssálm, sem báðir eru ritaðir fyrir um það bil 3000 árum. Við lítum nánar á þessi ljóð hér á eftir.



Siðferðisleg afstaða

Þegar kristnir guðfræðingar og siðfræðingar taka afstöðu gagnvart einhverjum málum á grunni fræða sinna er gengið út frá þeirri grundvallarheimsmynd, sem birtist í sköpunartrú Gamla testamentisins, það er trúnni á einn Guð, sem hefur skapað okkur og vill leiða okkur gegnum lífið. Við þetta bætist sú trú sem fram kemur í kenningum Jesú Krists, sem kristið fólk játar sem Guðs son í þeirri merkingu að Jesús birti okkur Guð sjálfan eins og hann er, vilja hans og afstöðu gagnvart okkur mannfólkinu.

Hér bætist við tilfinningaleg afstaða vegna þess að boðskapur Jesú Krists snertir við tilfinningum okkar og okkar innri manni. Siðferðisleg afstaða er því skoðuð í ljósi orða Krists. Þeir guðfræðingar sem hvað mesta áherslu vilja leggja á mismun bóka Biblíunnar hvað trúverðugleika varðar, leggja mesta áherslu á orð Jesú eins og þau birtast í guðspjöllunum. Þegar við tökum því siðferðislega afstöðu gagnvart einhverjum ákveðnum málum sem byggð er á kristinni trú verðum við að skoða hvort eitthvað er að finna í guðspjöllunum þar sem Jesús lýsir afstöðu sinni beint gagnvart málinu. Ef svo er ekki verður að skoða þá texta sem hægt er að draga þá ályktun af að leiða megi að því líkur hvaða afstöðu Jesús sjálfur hefði tekið í málinu.



Snemmgreining Downs heilkenna

Hið siðferðislega viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir í dag er snemmgreining Downs heilkenna hjá öllum þunguðum konum. Vandamálið virðist ekki vera sú greining sem farið hefur fram hjá ákveðnum hópi kvenna tiltölulega seint á meðgöngunni hingað til og hefur viðgengist um árabil. Því mun ég láta það vandamál liggja milli hluta og snúa mér eingöngu að hinu boðna viðfangsefni.

Áður en við skoðum það guðfræðilega og siðferðislega þurfum við fyrst að skoða hver tilgangur slíkrar snemmgreiningar er. Ef tilgangurinn er fyrst og fremst sá að eyða fóstrinu, sé það greint með viðkomandi heilkenni, er tekið allt öðruvísi á málinu en ef tilgangurinn er að undirbúa fjölskylduna undir móttöku barns með Downs heilkenni inn í fjölskylduna. Hér liggja tvær gjörólíkar tegundir af lífsafstöðu að baki. Því munu bæði guðfræðilegar og siðfræðilegar vangaveltur taka gerólíka stefnu allt eftir því hvor tilgangurinn liggur að baki greiningunni.



Guðfræði lífsins

Í inngangorðum hér að framan vísaði ég til þriggja ritningarstaða í Gamla testamentinu sem sýna hver afstaða hins rauða þráðar sköpunarguðfræðinnar er í hnotskurn. Þar segir í lok Sköpunarsögu fyrstu Mósebókar: "Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau og Guð sagði við þau: "Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina." Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott." (1. Mós.1: 27-28a....31a.)

Þessi orð segja okkur að Guð skapar allt líf og hann telur það harla gott. Þetta er mjög jákvæð lífsafstaða gagnvart öllu lífi alveg sama hversu fullkomið lífið virðist vera. Þetta er líka jákvæð lífsafstaða gagnvart því sem virðist "gallað" í sköpunarverkinu og þegar ég segi "gallað" þá á ég við þann mælikvarða sem við mannfólkið notum á heiminn og sköpunarverkið. Guð leit allt og sá að það var harla gott. Vangaveltur um að litningaslys í náttúrunni hafi ekki verið til í árdaga vegna hreinleika jarðarinnar eru að mínu mati tímasóun þar sem sköpunartrú Biblíunnar leggur áherslu á að Guð er sífellt að skapa í hverri einustu frumuskiptingu og í hverjum einasta hjartslætti. Guð setti ekki klukkuverk í gang í árdaga, sem gengur af sjálfu sér, heldur er hinn virki hugur sífellt að skapa.

Í öðru sköpunarljóði Biblíunnar áttunda Davíðssálmi standa þessi orð: "Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefur skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann. Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum allt lagðir þú að fótum hans."(Ps. 8: 4-7.)

Þessi orð segja okkur að manneskjan og börn hennar eru kóróna sköpunarverksins og Guð hefur falið henni dýpra hlutverk í þessum heimi en öðrum sköpuðum verum. Þetta segir okkur líka að Guð sem er svo stór og mikill að hann hefur skapað tungl og stjörnur himinsins getur líka verið svo smár og honum er umhugað um hvert barn mannsins.

En hvað er þá sagt í þessari miklu bók um börn í móðurkviði? Við skulum líta á 139. Davíðssálm. Þar segir: "Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar." (v. 1-2.) "Því að þú hefur myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn." (v. 13-16.)

Samkvæmt þessum orðum er lífið skapað af Guði. Ekki aðeins þegar lífsandinn er dreginn hið fyrsta sinn eftir fæðingu, heldur hefur Guð ofið okkur í móðurlífi og jafnvel gengur sálmaskáldið svo langt að segja að Guð hafi þekkt okkur löngu áður en við urðum skapað efni. Samkvæmt þessum orðum verður manneskjan ekki aðeins til þegar egg og sæðisfruma renna saman heldur löngu áður varð manneskjan til í huga Guðs. Því er hægt af þessum orðum að draga þá guðfræðilegu niðurstöðu og líf manneskjunnar sé heilagt allt frá getnaði til grafar eins og stendur einhvers staðar í fornum læknaeiði.



Siðfræði lífsins

Öll saga Jesú frá Nasaret einkennist af sigri lífsins yfir dauðanum. Hann sjálfur lifir af líf í móðurkviði, sem til varð við óæskilegar aðstæður út frá siðfræði þess tíma og hann lifir af ofsóknir í barnæsku, sem voru af stjórnmálalegum toga. Til að kóróna boðskap lífsins sigrar hann sjálfan dauðann með því að rísa upp frá dauðum á páskadagsmorgni. Þetta er guðfræði Nýja testamentisins í hnotskurn. En skoðum nú aðeins afstöðu þessa merka manns til lífsins. Við höfum engin dæmi um að Jesús hafi tekið afstöðu til lífs í móðurkviði, en við höfum ótal dæmi um það hver afstaða hans var gagnvart fötluðum, þroskaheftum, geðfötluðum, holdsveikum og svo framvegis.

Um sjálfan sig sagði hann þegar hann var spurður að því hver hann væri: "Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins." (Lúk. 4: 18-9.) Og siðfræði hans náði lengra en til hans sjálfs því þegar hann sendi postula sína í hina miklu sendiför með boðskap sinn sagði hann við þá: "Farið og predikið: "Himnaríki er í nánd." Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þið fengið, gefins skuluð þið láta í té." (Matt. 10: 7-8.)

Annars kristallast siðfræði Krists í orðum hans í Matteusarguðspjalli þegar hann talar um hina síðustu tíma. Þar segir hann: "Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín." (Matt. 25: 35-6.) "...Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér."(v. 40.)

Þetta er afar beinskeitt siðfræði þeirra sem trúa á Jesú Krist sem lifandi upprisinn frelsara sinn. Í þessum orðum felst sá sannleikur að öll breytni okkar gagnvart náunga okkar sé breytni okkar gagnvart Kristi sjálfum. Það þýðir á einföldu daglegu máli að ef ég rétti einhverjum hjálparhönd, er ég að hjálpa Kristi og ef ég sýni náunga mínum fúllyndi er ég að sýna Kristi það um leið. Ef við skoðum lífsafstöðu Krists út frá þessum orðum má sjá að siðfræði hans er því líka siðfræði lífsins gagnvart öllu sem lifir í þessum heimi.



Afstaða guðfræði lífsins og siðfræði lífsins gagnvart snemmgreiningu á Downs heilkennum

Undir liðnum Snemmgreining Downs heilkenna gat ég um tvenns konar mismunandi tilgang greiningarinnar og þar af leiðandi tvenns konar mismunandi afstöðu út frá guðfræði og siðfræði.

Ef við tökum þann tilgang fyrst fyrir sem væri að undirbúa fjölskyldur undir það mikla hlutverk sem aðhlynning barns með Dows heilkenni þarf og undirbúa þannig huga okkar mannfólksins sem virðumst alltaf búast við hinu "eðlilega" í lífinu. Þetta yrði gert í þeim tilgangi að útkoman yrði betri líðan fyrir móður strax eftir fæðingu barnsins, þar sem dregið yrði úr því andlega áfalli sem kæmi eftir fæðingu. Þannig getur skapast "eðlilegra" samband móður og barns allt frá fæðingarstundinni. Einnig þyrfti að rannsaka mjög til hlítar áhrif hins andlega áfalls móðurinnar á þroska fóstursins og búa því þannig í haginn að hún og fjölskylda hennar fái allan þann andlega stuðning sem hún þarf meðan á meðgöngunni stendur.

Afstaða mín gagnvart þeim tilgangi snemmgreiningarinnar að eyða fóstrinu ef litningagalli finnst er algerlega mótuð af þeim guðfræðilegu og siðferðislegu rökum sem nefnd hafa verið hér að framan. En að sjálfsögðu mótast afstaða mín líka af tilfinningalegum rökum sem byggja á áralangri reynslu minni af því að starfa sem prestur, bæði í borginni og nú í sveitinni. Eins og ég gat um í upphafi fléttast tilfinningar ævinlega inn í afstöðu okkar þegar við þurfum að taka afstöðu út frá orðum Jesú Krists. En þessar tilfinningar tengjast starfi mínu fyrst og fremst sem sálusorgari, en það er einn stærsti hluti af starfi prestsins samkvæmt ofangreindri lýsingu á hinu kristna hlutverki. Í sálgæslustarfi koma ævinlega upp á yfirborðið andleg áföll sem fólk hefur orðið fyrir snemma eða seint á ævinni og fóstureyðingar hafa miklu meiri sálræn og tilfinningaleg áhrif á alla fjölskylduna, ekki aðeins móðurina, en viðurkennt er í samfélagi okkar.



Lokaorð

Ég hef ég leitast við að skýra frá þeim grundvelli sem liggur að baki því að taka afstöðu út frá guðfræði og siðfræði Biblíunnar, sem er trúarbók okkar sem teljumst kristin hér á jörðu. Ég vona að þessi samantekt geti hjálpað öðrum til skoða málið út frá þeirri afstöðu og taka síðan eigin afstöðu í ljósi hennar.


English Summary

Guðmundsdóttir SL

Thou hast covered me in my mother´s womb. A theological-ethical analysis of prenatal screening for Down´s syndrome in early pregnancy



Læknablaðið 2001; 87/Fylgirit 42: 68-70



Theological stand in relation to life: Throughout the Bible is to be found a faith in God the creator of heaven and earth and the creator of mankind. That thread continues in the faith in God's providence over every human child. It is the opinion of theologians that a wise mind, God, is behind the evolution of the world from primitive cells to the human being. This theology holds a very positive attitude towards life as well as a positive attitude towards both "perfect" and "defect" creatures. The Bible says that God has created us in our mother's womb and has known us long before we became created material. Human life is thus to be regarded as holy from conception to grave.

Ethical stand in relation to life: To the theological stand we now add the words of Jesus Christ as they have come to us in the gospels. This also introduces an emotional stand because the message of Jesus moves our emotions. The theology of the New Testament is a theology of life. There are no direct examples of Jesus taking a stand in relation to life before birth, but there are many examples of how he takes a stand on people with handicaps, mental retardation, lepra, etc. Matt. 25:35-36 concludes: "Verily I say unto you, inasmuch as ye have done it unto one of the least of these bretheren, ye have done it unto me."

A stand of theology and ethics of life in relation to early ultrasound screening for Down´s syndrome: If the purpose of prenatal testing is to prepare the family for the birth of a child with Down´s syndrome, testing might be positive, as early diagnosis may diminish the shock after birth. On the other hand, we do not know how a mother's knowledge that her baby will have Down´s syndrome might affect the development of the unborn child. If the purpose of testing is to offer termination of affected pregnancies, the theological as well as ethical stand would reject it. My long experience as a pastor has revealed to me that abortions may severely affect the life of the mother and her family both psychologically and emotionally.



Key words: prenatal diagnosis, fetal medicine, early ultrasound, ethics, theology.



Correspondence: Solveig Lára Guðmundsdóttir, Parish pastor. E-mail: srslara@ismennt.is

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica