Ritstjórnargreinar

Hlutverk innúðastera í meðferð langvinnra lungnateppusjúkdóma er að skýrast

Langvinnir lungnateppusjúkdómar, á ensku chronic obstructive pulmonary diseases (COPD), eru sjúkdómaflokkur með vaxandi tíðni í heiminum (1). Þeir einkennast af skerðingu á loftflæði sem er lítt viðsnúanlegt og versnar oftast með tímanum. Tengd loftflæðisskerðingunni er viðvarandi bólgusvörun í lungunum.

Þessum sjúkdómum má skipta í þrjá hópa sem eru langvinn berkjubólga, lungnaþemba og langvinnur astmi. Allir hafa þeir mismunandi meingerð og geta verið til staðar samtímis eða staðið einir sér (2). Lítið er til af meðferð sem stöðvar framþróun langvinnra lungnateppusjúkdóma. Í rauninni hefur einungis reykleysi sýnt sig að stöðva framþróunina (3). Önnur meðferð, svo sem berkjuvíkkandi lyf, eru aðeins til að draga úr einkennum, til dæmis mæði og uppgangi (3). Súrefnisgjöf lengir þó líf sjúklinga með sjúkdóminn á háu stigi og lág súrefnisgildi í blóði.

Ljóst hefur verið í nokkurn tíma að reglubundin meðferð astmasjúklinga með innúðasterum dregur úr einkennum, fækkar versnunum og bætir lungnastarfsemi (4). Vegna þessa hefur verið mikill áhugi á að meðhöndla sjúklinga með langvinna lungnateppusjúkdóma með innúðasterum í þeim tilgangi að ná fram sömu áhrifum. Notkun þeirra er því mjög mikil þar sem þessi sjúklingahópur er stór og mun fara enn stækkandi á næstu árum og áratugum (1). Skiptir því miklu máli að þessi lyf séu notuð á réttan hátt því þetta eru dýr lyf og ekki án aukaverkana. Á undanförnum árum hafa verið gerðar rannsóknir á stórum hópum sjúklinga með langvinna lungnateppusjúkdóma. Niðurstöður þessara rannsókna munu hjálpa okkur við að nota innúðastera á réttan hátt hjá þessum sjúklingahópi. Fjórar stórar rannsóknir hafa þannig sýnt fram á, að innúðasterar stöðva ekki framþróun sjúkdómsins, það er loftflæðisskerðing eykst þrátt fyrir meðferðina (5-8). Þannig stendur það áfram að reykleysi er eina meðferðin sem stöðvar framþróun sjúkdómsins. Hins vegar hafa þessar rannsóknir sýnt fram á innúðasterar geta dregið úr lungnaeinkennum, fækkað versnunum og hægt á versnun á heilsutengdum lífsgæðum. Þetta á þó ekki við um alla með langvinna lungnateppusjúkdóma heldur kom þetta aðeins fram hjá þeim sem voru með sjúkdóminn á háu stigi (5-8).

Nýlega voru birtar ráðleggingar vinnuhóps á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Bandarísku hjarta-, lungna- og blóðstofnunarinnar (NHLBI) um meðferð og greiningu langvinnra lungnateppusjúkdóma (9). Í þeim ráðleggingum kemur fram að það eru einkum tveir hópar sjúklinga með langvinna lungnateppusjúkdóma sem geta haft gagn af innúðasterum. Í fyrsta lagi eru það þeir sem bæta blástursgildi (FEV1) um 15% eða meira (þó að minnsta kosti 200 ml) eftir sex til 12 vikna meðferð með innúðasterum. Átt er við að FEV1 aukist um 15% frá gildi sem mælt er eftir að berkjuvíkkandi lyf eru gefin, svo ekki er verið að mæla áhrif berkjuvíkkandi lyfja heldur steralyfjanna (10). Í öðru lagi geta innúðasterar gagnast sjúklingum með langvinna lungnateppusjúkdóma á háu stigi, það er FEV1 lægra en 50% af spáðu gildi og tíðar versnanir sem þarfnast meðferðar með sterum í æð eða töfluformi og sýklalyfjum. Svo virðist sem búdesóníð og flútíkasón séu jafnvirk og hafi svipaðar aukaverkanir en tríamcínólón hafi meiri aukaverkanir, sérstaklega á bein. Ekki virðist vel ljóst hvaða steraskammtar séu nauðsynlegir til að ná fram tilskildum áhrifum. Til að hægt sé að nota innúðastera á réttan hátt í sjúklingum með langvinna lungnateppusjúkdóma er nauðsynlegt að framkvæma öndunarpróf (spirometry), bæði til að velja sjúklingana og einnig til að meta árangur meðferðarinnar. Að auki eru öndunarmælingar nauðsynlegar til að greina langvinna lungnateppusjúkdóma og til að stiga sjúkdóminn. Það er því brýnt fyrir alla sem greina og meðhöndla sjúklinga með langvinna lungnateppusjúkdóma að hafa aðgang að öndunarmælingum. Talsverður misbrestur hefur verið á því á heilsugæslustöðvum á Íslandi. Brýnt er að bæta úr þessu og bæta þjálfun starfsfólks heilsugæslustöðva í að framkvæma öndunarmælingar. Á þann hátt og með því að fylgja alþjóðlegum leiðbeiningum um meðferð langvinnra lungnateppusjúkdóma er hægt að bæta meðferð sjúklinga með sjúkdómana, spara peninga og draga úr aukaverkunum (11).





Heimildir

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica