Umræða fréttir
Íðorð 135. Tíðahvörf, tíðalok
Tölvupóstur barst með fyrirspurn um þýðingu á samsetningunni early menopause. Sérstakt heiti er ekki að finna í Íðorðasafni lækna, en enska orðið menopause er þýtt sem tíðahvörf, tíðalok. Meðal margra merkinga hvorugkynsnafnorðsins hvarf, ft. hvörf, eru umskipti, skil, mörk, mót. Meno- vísar í tíðir, tíðablæðingar og er dregið af gríska orðinu mens sem merkir mánuður. Enska nafnorðið pause merkir hvíld, hlé, hik, töf eða bið og er einnig komið úr grísku, pausis er endalok, stöðvun. Fræðiheitið menopausis er notað um endalok tíða hjá konum. Íslenska heitið tíðalok er því nákvæmara (gegnsærra) en tíðahvörf, sem fremur vísar í ótilgreind umskipti tíða en í endalok. Early kemur fyrir í ýmsum samsetningum í Íðorðasafninu og hefur þá ýmist verið notað snemmkominn, snemmbær eða fyrirmáls-.
Fyrirspyrjandi sagðist sjálfur hafa notað samsetninguna ótímabær tíðahvörf, en undirritaður stakk upp á heitinu fyrirmálstíðalok og hafði þá til hliðsjónar heitið fyrirmálstíðir, menstruatio praecox, tíðir sem byrja of snemma. Snemmkomin tíðalok, snemmbær tíðalok eða snemmtíðalok koma einnig til greina. Gaman væri nú að fá skoðanir annarra lækna.
Fjölsetra
Í 129. pistli (Lbl 2001;87:77) voru settar fram hugmyndir til þýðingar á þeirri tegund rannsóknasamstarfs sem fengið hefur heitið multicenter study á ensku. Stungið var upp á fjölstofnanarannsókn eða -athugun og beðið um fleiri tillögur. Jóhann M. Lenharðsson, lyfjafræðingur hjá Pharmaco, sendi tölvupóst og gat þess að til væri þýðingin fjölsetra. Þannig væri hægt að nefna fyrirbærið fjölsetra rannsókn. Þetta er að sjálfsögðu lipurt heiti og góð viðbót við fyrri tillögur.
Íslensk orðabók Máls og menningar útskýrir hvorugkynsnafnorðið setur með tilvísunum: 1. aðsetur. 2. sólsetur. Íslenska orðsifjabókin er öllu ítarlegri þar sem vísað er í íslensku orðin dvalarstaður, dvöl, vist, sólarlag, endalok. Þá er einnig tilgreint að sama orð finnist í færeysku og geti merkt: dvöl, aðsetursstaður, varphilla í bjargi, sæti, endalok, athvarf, skjól (fjarri byggð). Loks má finna nafnorðið setr í Lexicon poeticum og þar er það sagt merkja sæti, heimili, bústaður. Í Orðabók Háskólans eru til dæmi um þessa notkun frá miðri 16. öld. Heitið setur hefur á síðustu árum verið endurvakið til notkunar í samsetningunum fræðasetur og menningarsetur. Því fer vel á því að tala um rannsóknasetur.
Nebulator
Guðrún Baldursdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfjastofnun, var að fást við íslenska þýðingu á heiti áhalds eða tækis sem nebulator nefnist. Undirritaður fann heitið ekki í læknisfræðiorðabókum sínum, en bækurnar birta allar skylt heiti sem virðist sömu merkingar: nebulizer. Tækinu er lýst þannig: áhald til að breyta vökva í úða eða ský (Wiley 1986), áhald til að breyta lyfi í vökvaformi í afar fíngerðar þokudropaagnir (Stedman 1995) og áhald til að mynda og dreifa vökvaúða (Dorland 2000). Íðorðasafn lækna nefnir það úðara og birtir samheitin atomizer, nebulizer og vaporizer.
Uppflettingar leiddu í ljós að nebula er latneskt orð sem merkir gufa, mistur, ský eða þoka. Það er nú einkum notað um geimþoku eða stjörnuþoku. Löng hefð er fyrir því að vökvi sem dreifist í formi fingerðra dropa nefnist úði. Undirritaður sá því ekki ástæðu til breytinga og afgreiddi fyrirspurn Guðrúnar með stuðningi Íðorðasafnsins á eftirfarandi hátt: nebulization er úðamyndun eða úðun, nebulizer er úðari, nebulizer emulsion er úðadropalausn eða úðafleyti, nebulizer solution er úðalausn og nebulizer suspension er úðasviflausn.
Fyrstu viðbrögð Guðrúnar voru þau að úði væri þýðing á spray. Rétt er það, en lýsingin á spray í læknisfræðiorðabók Dorlands er þessi: a liquid minutely divided or nebulized as by a jet of air or steam. Þá hefur það gerst á enskunni að vökvinn sem notaður er til að mynda úðann, úðinn sjálfur og úðunaráhaldið hafa öll fengið stutta heitið spray. Þar mundi undirritaður vilja aðgreina ótvírætt með íslensku heitunum úðunarvökvi, úði og úðari. Fleiri heiti þarf að hafa tiltæk, svo sem úðabrúsi, úðatæki, úðadæla, þrýstiúðari og svo framvegis.
Aðstoð óskast
Hólmfríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Kristinn Tómasson, læknir hjá Vinnueftirliti ríkisins eru að fást við fyrirbærið exposure, það að verða fyrir ytri áhrifum, oftast skaðvænlegum. Íðorðasafn lækna gefur þrjár merkingar: 1. afhjúpun. 2. berskjöldun. 3. geislastraumur. Þrátt fyrir nokkuð grúsk og talsverða umhugsun er undirritaður ekki kominn með frambærilega tillögu.
Dægradvöl
Síðasta dægradvöl var sjúkdómslýsing í bundnu máli og spurt var um sjúkling og sjúkdómsgreiningu. Í bókinni Ljóð af tvennum toga, sem kom út í Kópavogi 1987, lýsti skáldið Böðvar Guðlaugsson sjúkdómseinkennum sínum á fyrrgreindan hátt í ljóði sem hann nefndi Haustkvefið.Dægradvöl X
"Stundum lá ég í báli, svo ég tók andköst, svo mér fannst ekki betur en logi og báleldur léki um allan líkamann og sérdeilis brjóstið, og blossinn fannst mér fram af fingrunum líða, ... Stundum lá ég í nístingskulda. ... Stundum leið sá kuldinn frá fótunum upp eftir líkamanum, svo sem þegar skýfar líður á lofti með vexti og slotum."
Fyrirspyrjandi sagðist sjálfur hafa notað samsetninguna ótímabær tíðahvörf, en undirritaður stakk upp á heitinu fyrirmálstíðalok og hafði þá til hliðsjónar heitið fyrirmálstíðir, menstruatio praecox, tíðir sem byrja of snemma. Snemmkomin tíðalok, snemmbær tíðalok eða snemmtíðalok koma einnig til greina. Gaman væri nú að fá skoðanir annarra lækna.
Fjölsetra
Í 129. pistli (Lbl 2001;87:77) voru settar fram hugmyndir til þýðingar á þeirri tegund rannsóknasamstarfs sem fengið hefur heitið multicenter study á ensku. Stungið var upp á fjölstofnanarannsókn eða -athugun og beðið um fleiri tillögur. Jóhann M. Lenharðsson, lyfjafræðingur hjá Pharmaco, sendi tölvupóst og gat þess að til væri þýðingin fjölsetra. Þannig væri hægt að nefna fyrirbærið fjölsetra rannsókn. Þetta er að sjálfsögðu lipurt heiti og góð viðbót við fyrri tillögur.Íslensk orðabók Máls og menningar útskýrir hvorugkynsnafnorðið setur með tilvísunum: 1. aðsetur. 2. sólsetur. Íslenska orðsifjabókin er öllu ítarlegri þar sem vísað er í íslensku orðin dvalarstaður, dvöl, vist, sólarlag, endalok. Þá er einnig tilgreint að sama orð finnist í færeysku og geti merkt: dvöl, aðsetursstaður, varphilla í bjargi, sæti, endalok, athvarf, skjól (fjarri byggð). Loks má finna nafnorðið setr í Lexicon poeticum og þar er það sagt merkja sæti, heimili, bústaður. Í Orðabók Háskólans eru til dæmi um þessa notkun frá miðri 16. öld. Heitið setur hefur á síðustu árum verið endurvakið til notkunar í samsetningunum fræðasetur og menningarsetur. Því fer vel á því að tala um rannsóknasetur.
Nebulator
Guðrún Baldursdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfjastofnun, var að fást við íslenska þýðingu á heiti áhalds eða tækis sem nebulator nefnist. Undirritaður fann heitið ekki í læknisfræðiorðabókum sínum, en bækurnar birta allar skylt heiti sem virðist sömu merkingar: nebulizer. Tækinu er lýst þannig: áhald til að breyta vökva í úða eða ský (Wiley 1986), áhald til að breyta lyfi í vökvaformi í afar fíngerðar þokudropaagnir (Stedman 1995) og áhald til að mynda og dreifa vökvaúða (Dorland 2000). Íðorðasafn lækna nefnir það úðara og birtir samheitin atomizer, nebulizer og vaporizer. Uppflettingar leiddu í ljós að nebula er latneskt orð sem merkir gufa, mistur, ský eða þoka. Það er nú einkum notað um geimþoku eða stjörnuþoku. Löng hefð er fyrir því að vökvi sem dreifist í formi fingerðra dropa nefnist úði. Undirritaður sá því ekki ástæðu til breytinga og afgreiddi fyrirspurn Guðrúnar með stuðningi Íðorðasafnsins á eftirfarandi hátt: nebulization er úðamyndun eða úðun, nebulizer er úðari, nebulizer emulsion er úðadropalausn eða úðafleyti, nebulizer solution er úðalausn og nebulizer suspension er úðasviflausn.
Fyrstu viðbrögð Guðrúnar voru þau að úði væri þýðing á spray. Rétt er það, en lýsingin á spray í læknisfræðiorðabók Dorlands er þessi: a liquid minutely divided or nebulized as by a jet of air or steam. Þá hefur það gerst á enskunni að vökvinn sem notaður er til að mynda úðann, úðinn sjálfur og úðunaráhaldið hafa öll fengið stutta heitið spray. Þar mundi undirritaður vilja aðgreina ótvírætt með íslensku heitunum úðunarvökvi, úði og úðari. Fleiri heiti þarf að hafa tiltæk, svo sem úðabrúsi, úðatæki, úðadæla, þrýstiúðari og svo framvegis.