Ritstjórnargreinar
  • Hannes

Að vera eða vera ekki í sumarfríi

Það er fátt betra en að hverfa frá erli vinnudagsins og vakna í fríi. Frí og sérstaklega sumarfrí er öllum kærkomið, læknum sem öðrum, þó svo hið síðarnefnda eigi sér ekki langa sögu í vinnusiðfræðilegu samhengi. Talið er að sumarfrí hafi komið til með flutningi fólks úr sveitum á öndverðri síðustu öld. Sumarfríin voru þá sumpart hugsuð sem tækifæri til að létta undir með ættingjum í sumarönnum sveita og þannig var það eitt að skipta um starfsvettvang nægjanleg hvíld frá venjubundnum störfum. Svo sterkt er þetta greipt í tilveru og vinnuvitund okkar að enn er starfsári Háskóla Íslands skipað eftir burðarmáli sauðkindarinnar og önnum til sveita. Hvort það sé sumarvinnu í sveitum eða smitbólu frá nágrannalöndunum að kenna þá hafa Íslendingar áttað sig á því að það er hægt að taka sér frí á öðrum tímum en á sumrin, þó svo sumarfríið sé enn hornsteinn fría.

En hvenær er læknir í fríi og hvenær ekki?

Í fyrsta lagi er eðli læknisstarfsins þannig að oftar en ekki er læknirinn truflaður í sínu fríi og það talið eðlilegur hluti þess að starfa sem læknir að sinna sjúklingum sínum hvenær sem er. Þannig er oft áreynsluminna að leysa strax úr vanda sjúklinganna en að heyra eftir á af stórfelldum vandræðum, sem unnt hefði verið að leysa á einfaldan hátt.

Í öðru lagi er vert að athuga það að yfir sumarmánuðina dregur verulega úr framleiðni fyrirtækja og á það einnig við um framleiðni í heilbrigðiskerfinu. Það væri svo sem í lagi ef fólk tæki sér frí í að veikjast, en svo gott er það nú ekki þó svo verulega dragi úr umgangspestum yfir sumartímann. Hin síðari ár hefur hins vegar skorið í augu að á þessum sama tíma fjölgar slysum gríðalega, allt frá smáum áverkum er hljótast af ærslafullum leikjum til stórslysa er valda fjörtjóni eða stórskaða ásamt meðfylgjandi örkumli. Síðasta sumar var eitt slíkt og engum þeim er veitti heilbrigðisþjónustu var það sumar sælutími.

Í þriðja lagi eru þeir læknar sem reka eigin læknastofur, en þeir leyfa sér ekki að hverfa frá í frí í langan tíma í senn, bæði vegna efnahagslegra krafna um stöðugan rekstur og einnig til að tryggja samfellu í þjónustu, en óhætt er að segja að þjónustustig þessa hluta heilbrigðiskerfisins sé fádæma gott.

Í fjórða lagi eru það stórmálin er varða læknastéttina, vandamál ýmissa heilbrigðisstofnana eða sameining sjúkrahúsanna, en eitt einkenni stórmála er að þau taka ekkert tillit til árstíða. Enn eitt slíkt mál er skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi lækna. Látum kjurt að amast við því að möppufólk fjalli af vanþekkingu um lækna og störf þeirra en að þurfa að lesa og sitja undir ávirðingum hjúkrunarfræðinga, okkar helstu samstarfsmanna, í niðurlagi skýrslunnar er alls óþolandi. Þar er veist að hópum lækna á órökstuddan hátt með rógi sem hvergi á sinn líkan. Skrifað er þar meðal annars að háls-, nef- og eyrnarlæknar setji rör í hljóðhimnur að ástæðulausu! Sá er þetta skrifar er háls-, nef- og eyrnalæknir og verður honum óljúft að koma til vinnu að loknu sumarleyfi og þurfa að heyra, ef til vill, pískrað: "Þarna er háls-, nef- og eyrnalæknirinn sem setur rör í eyru barna að óþörfu ..." Atvinnurógur af þessu tagi ber merki hugleysis sem er það alhliða að hvergi ber skugga á, svo stuðst sé við snilli skáldsins.

Vegna alls þessa geta frílok að hausti verið læknum fyrirkvíðanleg, skammdegið að færast yfir, biðlistar lengri og erill sumarsins enn sitjandi í sinni og sinum. En einfaldar athafnir eins og að snúa krananum á gasgrillinu, snúa tappanum á tónikflöskunni, snúa úrlausum úlnliðnum eða snúa sér við og veifa bless í Leifsstöð og halda af stað í frí kæta okkur og hvíla. Gleðilegt sumar!

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica