Umræða fréttir

Íðorð 132. Hand-, foot- and mouth disease

Katrín Davíðsdóttir og Þórólfur Guðnason, barnalæknar, komu að máli við undirritaðan og spurðu hvort til væri gott íslenskt heiti á þeim barnasjúkdómi sem á ensku nefnist hand-foot-and-mouth disease. Þau töldu ástæðu til að ræða þetta núna þar sem umfjöllun um annan og óskyldan dýrasjúkdóm, foot-and-mouth disease, gin- og klaufaveiki, væri mjög áberandi í fjölmiðlum um þessar mundir. Þau vildu reyna að koma í veg fyrir þá smekkleysu að heiti dýrasjúkdómsins færðist yfir á barnasjúkdóminn.

Í Íðorðasafni lækna er ekki lausn að finna, en þar er þó stutt lýsing: Smitnæmur kvilli sem venjulega leggst á börn og einkennist af blöðruútþotum á höndum, fótum, munni og koki; fyrir koma særindi í hálsi og munni og vægur hiti. Hin nýja læknisfræðiorðabók Dorlands birtir heldur ítarlegri lýsingu: Venjulega væg og tímabundin útbrot, sem oftast stafa af coxsackie-veiru A16, finnast helst hjá forskólabörnum og einkennast af blöðrum á kinnarslímhúð, tungu, mjúka gómi, tannholdi, höndum og fótum, þar meðtöldum lófum og iljum.

Hvað á að kalla þennan sjúkdóm? Við þýðingu á alþjóðlegu sjúkdómaheitunum, ICD-10, fór Orðanefndin þá leið að nefna fyrirbærið hand-, fót- og munnsjúkdóm. Þegar litið er til nálægra þjóða sést að sama leið hefur verið farin víðar, að þýða enska heitið orðrétt: hånd, fot og munnsykdom (norska), hand-fot-mun sjukdom (sænska), hånd-fod-mund sygdom (danska) og Hand-Fuss-Mund Krankheit (þýska). Ef nauðsynlegt er að útbreiðsla útbrotanna komi fram í heitinu sýnist ekki annar kostur betri. Til fróðleiks má bæta því við að sjúkdómnum var fyrst lýst í Ástralíu á árinu 1956 og var hann orðinn vel þekktur á sjöunda áratugnum.



Barnablöðrungar

Undirritaður hugleiddi þó ýmsar aðrar leiðir og rifjaði af því tilefni upp íslensk og latnesk heiti nokkurra barnasjúkdóma: barnaveiki (diphteria), hettusótt (parotitis epidemica), hlaupabóla (varicella), kíghósti (pertussis), mislingar (morbilli), rauðir hundar (rubeola) og skarlatssótt (scarlatina). Gætu þau gefið einhverjar hugmyndir? Sjúkdómurinn einkennist af blöðrum og finnst hjá börnum. Heitin bólusótt (variola) og blöðrusótt (pemphigus) eru þegar frátekin og heitið barnablöðrukvilli (bullous dermatosis of childhood) sömuleiðis. Þá má nefna að heitið blöðrubóla er komið í notkun í samsetningunni meðgöngublöðrubóla (herpes gestationis).

Spyrja má hvort barnablöðrusótt komi til greina eða munnblöðrusótt? Með hliðsjón af heitinu mislingar má einnig búa til fleirtöluorðið barnablöðrungar, en eintalan blöðrungur merkir vesicula. Enn einn möguleikinn er blöðrungasótt eða blöðrungaveiki. Lengra komst undirritaður ekki að sinni og biður nú um aðstoð hugmyndaríkra manna.



Metabolic syndrome

Ófeigur Ófeigsson, lyflæknir á Selfossi, sendi tölvupóst og spurði um íslenska þýðingu á nýstárlegu ensku heiti, metabolic syndrome. Ófeigur sagði þetta heilkenni hafa mörg önnur heiti, svo sem metabolic syndrome X, cardiovascular metabolic syndrome, multiple metabolic syndrome, pre-diabetes og the deadly quartet. Leit í tiltækum gagnasöfnum bætti við samheitunum insulin resistance syndrome og pluri-metabolic syndrome.

Heilkennið markast af kviðlægri fitusöfnun, skertu sykurþoli með ónæmi fyrir insúlíni, hækkaðri blóðfitu og hækkuðum blóðþrýstingi (háþrýstingi). Að auki má bæta við blóðstorkutruflun, þvagsýruhækkun í blóði og vægri prótínmigu. Heilkennið er mjög algengt hjá vestrænum allsnægtaþjóðum, einkum hjá miðaldra karlmönnum, og því fylgir verulega aukin hætta á slagæðasjúkdómi. Í einni greininni var hættan á kransæðasjúkdómi talin tuttuguföld. Til grundvallar liggur blanda af erfðaþáttum, ofnæringu, óheppilegu fæðuvali, hreyfingarleysi, streitu og hugsanlega geðrænum þáttum.



Kviðfituheilkenni

Fyrstu viðbrögð undirritaðs voru þau að þýða ensku orðin beint og tala um efnaskiptaheilkenni eða heilkenni efnaskipta. Þessi heiti eru þó ekki gegnsæ, þau lýsa ekki ástandinu sem að baki liggur og gætu eins átt við um önnur heilkenni sem fela í sér efnaskiptatruflun. Beinar þýðingar á framangreindum samheitum, til dæmis X-efnaskiptaheilkennið, fjölefnaskiptaheilkennið, dauðakvartettinn eða forsykursýki, vekja heldur engan sérstakan fögnuð. Því gæti verið freistandi að reyna að leita að fyrri orðhluta, sem vísaði í einhvern af aðal markþáttunum, og tengja hann við "heilkenni" sem síðari orðhluta. Spyrja má því hvort kviðfituheilkennið eða insúlínheilkennið geta dugað.



Complex

Þorgeir Þorgeirsson, yfirlæknir á F.S.A., sendi stutt bréf til að minna á að Þórbergur Þórðarson hefði kallað fyrirbærið meinloku í bók sinni Bréf til Láru.

Dægradvöl VII

Tilvitnunin er tekin úr íslenskri bók sem gefin var út árið 1975. Hvaða sjúkdómi er þar verið að lýsa og hver er sá sem upphaflega gaf þessa tilþrifamiklu lýsingu?



"Um lokastig sjúkdómsins segir XXXX, að fáir sjúkdómar séu jafnhræðilegir á því stigi. Gömul, gróin sár og beinbrot geta þá rifnað upp, húðin á fótleggjum springur, sérstaklega yfir hnútunum og úr sprungunum verða ljót sár. Margir sjúklinganna látast úr stórblæðingum frá þvagfærum, þörmum, lungum, nefholi, maga, gylliniæðum eða öðrum líffærum."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica