Umræða fréttir

Erlendir læknar á Íslandi

Hvaða skilyrði þurfa erlendir læknar að uppfylla til að fá að stunda lækningar hér á landi? Þegar læknadeildin setti reglur fyrir um 15-20 árum um það hvaða skilyrði erlendir læknar þyrftu að uppfylla til að fá íslenskt lækningaleyfi giltu sömu reglur um alla lækna án tillits til ríkisfangs. Læknadeildin tók hins vegar mið af læknisfræðimenntun í þeim löndum sem umsækjandi um lækningaleyfi hafði menntast í. Eftir að Íslendingar gerðust aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði (EES) breyttist þetta og ríkisfang ræður nú mestu um hvaða ákvæði gilda um lækningaleyfi umsækjenda. Ekki er víst að allir viti hvaða reglur gilda um lækningaleyfi erlendra lækna á Íslandi. Til að leita svara við því hvaða reglur gilda nú hafði Læknablaðið samband við lögfræðinga Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, þá prófessora í læknadeild sem mest fjalla um málið, og skoðaði umfjöllun erlendra læknablaða um hliðstæðar reglur.



Sólveig Guðmundsdóttir lögfræðingur í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu tók saman svör við nokkrum spurningum Læknablaðsins um réttindi erlendra lækna á Íslandi. Einnig hefur Sveinn Magnússon læknir og skrifstofustjóri í ráðuneytinu fjallað um efnið í Læknablaðinu í nokkrum greinum á undanförnum árum og hefur verið stuðst við upplýsingar úr þeim og önnur gögn sem ráðuneytið vísar til.

Hvaða reglur gilda á Íslandi um lækningaleyfi lækna sem hafa ríkisfang innan EES-svæðisins (frá Noregi, Lichtenstein og Evrópsambandslöndunum)?

Þær reglur sem gilda um þá koma fram í 1. grein læknalaga. Í 2. tölulið 1. málsgreinar laganna segir að leyfi til að stunda lækningar á Íslandi hafi: ,, ... sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði".

Reglurnar byggja á þeim grunni að þegar samningurinn um Evrópska efnahgssvæðið var samþykktur hafði farið fram víðtækur og ítarlegur samanburður á námi lækna og fleiri heilbrigðisstétta og komist að samkomulagi eftir mikla vinnu að námið í ákveðnum greinum: læknisfræði, hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræðum, tannlækningum og lyfjafræði, væri það líkt að ekki þyrfti að skoða innihald prófa milli þessara landa eftir að tilskipanir um lækna og fleira hefðu verið samþykktar. Ástæðan er sú að tilskipanirnar sjálfar kveða á um lágmarksmenntun í faginu sem samkomulag var um að þjóðirnar uppfylltu. Þetta fyrirkomulag auðveldar bæði umsækjendum og stjórnvöldum landanna að afgreiða umsóknir um starfsleyfi þeirra heilbrigðisstétta sem falla undir sértilskipanir ESB.

Hver er venjulegur gangur mála ef læknir frá landi innan EES leita eftir lækningaleyfi á Íslandi?

Ef læknirinn á ríkisborgararétt í landi innan Evrópska efnahagsvæðisins og hefur gilt lækningaleyfi í heimalandi sínu eða einhverju öðru EES-landi, þá hefur hann leyfi til að stunda lækningar á Íslandi samanber framanskráðar upplýsingar. Hann þarf að sækja um íslenskt lækningaleyfi og það getur hann gert með því að snúa sér til afgreiðslu Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fá umsóknareyðublað. Með umsókninni þarf hann að leggja fram eftirtalin gögn:

1. Staðfestingu á ríkisborgararétti í EES-landi.

2. Yfirlýsingu frá réttum yfirvöldum heimalands umsækjanda um að hann uppfylli kröfur þær sem settar eru innan Evrópusambandslandanna um lágmarksmenntun (tilskipun 93/16/EB, grein 23).

3. Staðfest afrit af prófskírteini/lækningaleyfi (diploma) sem sýnir að læknirinn hafi almennt lækningaleyfi í heimalandi sínu.

4. Staðfest afrit af sérfræðileyfi (ef sótt er um sérfræðileyfi).

5. Vottorð eða staðfestingu þess efnis að læknirinn hafi ekki verið sviptur lækningaleyfi eða það takmarkað (certificate of good standing). Þetta vottorð má ekki vera eldra en þriggja mánaða.

6. Enska þýðingu á öllum framlögðum gögnum, annað hvort staðfesta af þar til bærum yfirvöldum eða þýðingu löggilts skjalaþýðanda.

7. Æviágrip (ekki skylda).

Yfirvöldum þess lands sem sótt er um lækningaleyfi í ber skylda til að veita leyfið innan þriggja mánaða sé öllum þessum skilyrðum fullnægt.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, sem sér um leyfisveitinguna, hefur ekki heimild til að gera kröfur um þekkingu á heilbrigðislöggjöf og reglum eða íslenskukunnáttu. Hins vegar er ráðuneytinu skylt að veita umsækjanda upplýsingar um lög og reglur og möguleika til að afla sér nauðsynlegrar íslenskukunnáttu. Þetta hefur verið útfært þannig að ekki megi gera formlega kröfu um íslenskukunnáttu, því það telst tæknileg hindrun, en hins vegar geti vinnuveitandi gert slíka kröfu. Ennfremur er varnagli í tilskipunum þeim sem styðjast má við ef þörf krefur. Hann er sá að ef léleg tungumálakunnátta hefur áhrif á starf læknis, þá getur læknirinn átt von á formlegum aðfinnslum í gistiríkinu eða í alvarlegri tilvikum misst leyfisbréf sitt.

Hvaða reglur gilda um lækna utan EES?

Samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á heimasíðu ráðuneytisins og ætlaðar eru erlendum læknum gilda eftirfarandi reglur: Í fyrsta lagi þarf læknirinn að framvísa sambærilegum gögnum og læknar innan EES, en frá heimalandi sínu. Hæfni umsækjanda er auk þess metin af sérstakri nefnd á vegum læknadeildar Háskóla Íslands, sem hefur yfirumsjón með mati á læknanámi á Íslandi. Nefndin hefur samband við háskóla umsækjanda og því er nauðsynlegt að umsókninni fylgi fullt heimilisfang og síma- og símbréfanúmer. Í sumum tilvikum er beðið um fleiri gögn.

Þegar staðfesting umsækjanda liggur fyrir verður hann að standast próf deildarinnar, eins og rakið er í samtali við prófessora Háskólans aftar í greininni. Að afloknum prófum læknadeildar getur deildin mælt með veitingu lækningaleyfis til Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eða hafnað umsókninni að svo stöddu.

Ákvæðin sem farið er eftir í þessum tilvikum er að finna í 3. grein læknalaganna en þar segir meðal annars: ,,...skal leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands sem getur sett sem skilyrði að viðkomandi gangi undir próf í lögum og reglum er varða störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Læknadeild Háskóla Íslands getur krafist þess að umsækjandi sanni kunnáttu sína í læknisfræði með því að gangast undir próf."

Talsvert af fyrirspurnum og formlegum umsóknum berast ráðuneytinu á ári hverju. Ekki er til yfirlit yfir hversu margar þær eru eða hvernig þeim hefur lyktað. Þær verklagsreglur sem að framan greinir gefa góða mynd af venjulegu ferli og þeim mun sem er á umsóknum lækna sem hafa ríkisfang innan EES-svæðisins og utan þess. Læknar með ríkisfang utan EES sem hafa stundað nám í EES-landi geta búist við að njóta einhvers góðs af því að hafa próf þaðan, meðal annars vegna þess að kröfur um læknanám hafa verið samræmdar innan svæðisins, en þeirra málum er vísað til læknadeildar eins og öðrum sem varða umsækjendur með ríkisfang utan EES.

aób

Ítarefni

Sveinn Magnússon: Áhrif EES-samningsins á starf íslenskra lækna. Læknablaðið/Fréttabréf lækna 8/1992;

Sveinn Magnússon: EES-samningurinn genginn í gildi. Hvernig snertir það íslenska lækna, menntun þeirra og störf. Læknablaðið/Fréttabréf lækna 12/1994;

Læknar og EES. Upplýsingar um réttindi íslenskra lækna. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið/Læknafélag Íslands; 1997.

General information for doctors about working conditions in Iceland. Vefsíða Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. http://brunnur.stjr.is/interpro/htr/htr.nsf/pages/docicel

Háskólinn sér um próf erlendra lækna

Læknablaðið leitaði til Hrafns Tuliniusar og Gunnlaugs Geirssonar prófessora við læknadeild Háskóla Íslands og fékk upplýsingar um hvernig læknadeildin tekur á þeim málum erlendra lækna sem til hennar er vísað. Læknadeild setti sér fyrir 15-20 árum ákveðnar vinnureglur varðandi lækningaleyfi erlendra lækna. Tekið var mið af því í hvaða löndum væri boðið upp á læknisfræðinám sem teldist hliðstætt námi í læknadeild HÍ. Meðal þeirra landa sem uppfylla þær kröfur eru nágrannalöndin, til dæmis Norðurlönd og Bandaríkin. Þeir læknar sem koma frá þessum löndum þurfa aðeins að taka próf í heilbrigðisfræði og réttarlæknisfræði. Prófið í réttarlæknisfræði er munnlegt. Meðal þess sem prófdómarar taka tillit til við mat á frammistöðu er hæfni til að tjá sig á íslensku.

Læknar frá öðrum löndum en þeim sem deildin viðurkennir taka þessi tvö próf og auk þess verkleg og munnleg próf í lyflæknisfræði og handlæknisfræði. Í þeim er fyrst og fremst könnuð þekking og færni í læknisfræði en tungumálakunnátta hefur einnig nokkurt vægi. Prófin þykja gefa góða mynd af því hve vel viðkomandi ræður við mælt og ritað íslenskt mál. Það er vitaskuld nauðsynlegt til að geta meðtekið og gefið frá sér eðlileg skilaboð í starfi sínu. Þeir sem standast prófin fá íslenskt lækningaleyfi. Þeim sem ekki standast prófin, gefst kostur á að þreyta þau aftur eftir ár. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um hvort viðkomandi stenst próf, hæfni og þekking í læknisfræði og tungumálakunnátta. Í sumum löndum uppfyllir læknisfræðimenntun ekki þær kröfur sem gerðar eru hér á landi. Dæmi eru einnig um það frá fyrri árum að læknar frá löndum sem bjóða upp á menntun sem talin er sambærileg læknisfræðimenntun á Íslandi standist ekki próf.

Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu koma umsóknir lækna innan svæðisins ekki til kasta læknadeildarinnar lengur, eins og fram kemur í svörum ráðuneytisins við spurningum Læknablaðsins.

aób

Háskólinn sér um próf erlendra lækna

TalsverÐ umræða hefur verið að undanförnu í nágrannalöndunum um réttindi lækna sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. EES samningurinn kveður á um að allir innan EES eigi að hafa fullgild starfsréttindi óháð þjóðerni og öll frávik frá því eru talin brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins um frjálst flæði vinnuafls. Öðru máli gegnir um lækna sem koma frá löndum utan svæðisins.



Danmörk

Í Danmörku eru margir læknar af erlendu bergi brotnir, sumir þeirra landflótta. Til að fá danskt lækningaleyfi þurfa þeir að standast dönskuprófið Dansk Pröve 2. Sama námsefni er fyrir þá sem bíða í ofvæni eftir að komast á vinnumarkaðinn og fólk sem hefur lítinn sem engan áhuga á að læra dönsku og er skyldugt til að sækja námskeiðin. Hraðinn markast af þeim áhugalausu. Þeim læknum sem sækja námskeiðið svíður sárt að þurfa að eyða tíma sínum á gagnslitlum dönskunámskeiðum á meðan þeir þurfa að draga fram lífið og brauðfæða fjölskyldur sínar á félagslegum bótum. Afganski læknirinn Said Amin Hashemi er landflótta vegna stjórnmálaástandsins heima fyrir. Á meðan á tungumálanámi stendur verður hann að neita syni sínum um jafn sjálfsagðan hlut og reiðhjól með ómældum sorgum sem það veldur ungri sál. Afgönskum fjölskyldum þykir niðurlæging í því að þiggja bætur. ,,Ætla mætti að ... læknismenntaðir flóttamenn þyrftu í mesta lagi að taka hraðnámskeið í dönsku til að fá starf í dönsku heilbrigðiskerfi, þar sem bráðvantar lækna," segir blaðamaðurinn Jesper Haller í danska læknablaðinu Ugeskrift for læger þann 2. október síðastliðinn. Sú er þó ekki raunin, því það tekur að minnsta kosti þrjú ár fyrir flesta þeirra að afla sér læknisréttinda í Danmörku.

Lýtaskurðlæknirinn Mohammed Faraooq Nasseri talar ágæta dönsku eftir eins og hálfs árs dönskunám en hann telur sig ekki tilbúinn í tilskilið próf. Hann er að falla á tíma, því skurðlæknisstörf krefjast stöðugrar þjálfunar. Við blasir að dönskunám hans taki að minnsta kosti þrjú ár.

Ekki skal gert lítið úr mikilvægi góðrar tungumálakunnáttu þar sem reynir á samskipti, eins og oft er í læknisstarfinu. Hins vegar fer því fjarri að löggjöf landanna innan Evróska efnahagssvæðisins sé sjálfri sér samkvæm í þessum efnum. Læknar frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa sums staðar ekki að uppfylla nein þeirra skilyrða sem krafist er að læknar utan svæðisins uppfylli.

Kröfurnar sem gerðar eru til lækna frá svæðum utan EES eru eftirfarandi í Danmörku:

1. Menntun sem er sambærileg við danska læknaprófið.

2. Staðfesting á að hafa staðist staðlað dönskupróf (Dansk Pröve 2).

3. Að hafa staðist hæfnispróf í tryggingalöggjöf, læknalöggjöf og lyfseðlaútgáfu við danskan háskóla.

4. Í flestum tilvikum er þess einnig krafist að farið sé í hæfnispróf í klínískri læknisfræði og skurðlækningum við danskan háskóla.

Læknar frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir þessum skyldum. Þeir þurfa ekki að læra dönsku, ekki að sanna að þeir hafi sambærileg próf á við danskt læknapróf og ekki að kynna sér danska læknalöggjöf eða útgáfu lyfseðla. Litið er á slíkar kröfur sem samkeppnishindranir og þar með brot á reglum um frjálst flæði vinnuafls. Í tilskipun nr. 16 frá 1993 eru talin upp þau próf sem teljast jafngild á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nokkrar þversagnir eru í gildandi reglum. Þannig getur franskur læknir með franskt læknapróf gengið óhikað í starf í Danmörku en hins vegar getur íranskur læknir með nákvæmlega sama franska læknaprófið ekki gert það. Hann þarf að fara próf í lækningum og stunda dönskunám í allt að þrjú ár og uppfylla öll þau skilyrði sem læknar með ríkisfang utan EES eiga að uppfylla. Franski starfsbróðirinn, með sömu menntunina, sleppur við allt þetta.



Svíþjóð

Í Svíþjóð eru tvær leiðir færar fyrir lækna utan EES að öðlast læknisréttindi. Allir þurfa að standast sérstakt sænskupróf í læknisfræðilegum hugtökum. Þeir sem hafa sérfræðingspróf fara að því loknu á sex mánaða reynslutíma og fá læknisréttindi ef þeir þykja standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra á þeim tíma. Þeir sem ekki hafa lokið sérfræðinámi þurfa á hinn bóginn að standast hæfnispróf til að sanna að þeir standi jafnfætis sænskum læknum að þekkingu. Að því loknu geta þeir sótt um almennt lækningaleyfi.

Læknar innan EES þurfa ekki að ganga í gegnum þetta ferli í Svíþjóð, frekar en í Danmörku.

Reynsla lækna utan EES er þó ekki alltaf jákvæð þótt þeir standist allar kröfur sem til þeirra eru gerðar. Thekra Hadi er frá Bagdad. Hún lauk læknisfræðinámi í Póllandi og fluttist til Svíþjóðar um 1990. Hún hóf þegar tungumálanám og lauk tilskyldu sænskuprófi í læknisfræðihugtökum. En þegar hún sótti um stöðu við sjúkrahús var henni hafnað. Þess í stað bauðst henni starf sem sjúkraliði og þáði það þótt henni þættu það léleg býti. Það leið næstum áratugur frá því hún lauk námi og kom til Svíþjóðar uns hún loks fékk leyfi til að hefja störf til reynslu og hún hefur væntanlega fengið full læknaréttindi í lok ársins 2000.

Í Svíþjóð hefur verið reynt að létta erlendum læknum utan EES leiðina að fullum læknisréttindum þar í landi. Stofnun sú sem fer með vinnumarkaðsmál í Svíþjóð hefur fengið umtalsverðan fjárstuðning (um þrjá milljarða íslenskra króna) til að nota á árunum 2001-2003 til að afla upplýsinga um sérmenntun innflytjenda og greiða fyrir því að þeir komi til starfa á sænska vinnumarkaðinum. Læknafélögin sænsku eru með átak í gangi sem þau nefna: ,,Læknar í hópi nýbúa - mannauður í sænsku heilbrigðiskerfi."



Bretland

Breska læknablaðið, British Medical Journal hefur einnig verið með umfjöllun um þetta mál nýverið. Flóttamenn úr hópi lækna hafa í auknum mæli sóst eftir hæli í Bretlandi. Dæmi eru um að læknar hafi flúið heimaland sitt eftir að hafa verið krafðir um að hylma yfir með glæpum sem framdir eru af stjórnvöldum. Engin skráning er til um hve margir læknar hafa flúið til Bretlands en þó er talið að þeir séu einhvers staðar á bilinu 200-1000.

Til að fá lækningaleyfi í Bretlandi þarf læknir frá svæðum utan EES að standast próf í enskri tungu (IELTS - International English Language Testing System test) auk hæfnisprófs í faginu þar sem einnig eru gerðar kröfur um tungmálakunnáttu, einkum orðaforða í læknisfræði (PLAB - Professional and Linguistic Assessment Board test). Læknar frá EES-löndunum og læknar með próf frá samveldislöndunum: Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Vestur-Indíum, Suður Afríku, Hong Kong eða Singapore þurfa að taka enskupróf IELTS.

Það getur verið nokkuð torsótt að byggja upp þekkingu í læknisfræðiheitum til að standast PLAB-prófið. Undirbúningsnámskeið standa til boða en þau eru yfirleitt mjög dýr og standast gæðakröfur misjafnlega. Nokkrir læknar hafa komið á fót námshópum fyrir erlenda lækna á Lundúnasvæðinu og eru þeir ókeypis. Aðgangur að bókasöfnum sjúkrahúsa er víðast hvar takmarkaður við starfsfólk sjúkrahúsanna og það setur námi erlendu læknanna nokkrar skorður en þar er þó glufur að finna, einkum þegar starfandi læknar eða vinsamlegir bókaverðir hleypa erlendum læknum á söfnin á eigin ábyrgð. Hluti af undirbúningnum undir hæfnisprófið PLAB er að fylgjast með klínískri vinnu á einhverri sjúkrastofnun í einn til þrjá mánuði, einkum með það í huga að áherslur í heilsugæslu og sjúkrahússtörfum eru mjög misjafnar eftir löndum. Eftir það er undirbúningnum beint að sérgrein viðkomandi læknis eftir atvikum. Engar sérstakar vinnureglur gilda um hvernig læknar geta fengið aðgang að sjúkrastofnunum á meðan á undirbúningi stendur, heldur þarf að treysta á þolinmæði og heppni.

Breska læknafélagið, BMA, hélt nýverið námskeið fyrir lækna sem vilja taka að sér leiðsögn lækna úr hópi flóttamanna. Læknaskortur hefur ýtt á að stjórnvöld og félagið leiti leiða til að greiða götu læknanna. Meðal þess sem nú er til umræðu í Bretlandi er að hvetja yfirvöld til að leyfa erlendum læknum að halda þeim bótum sem þeir njóta á meðan þeir undirbúa sig undir að öðlast lækningaleyfi.

aób



Heimildir

Ákvæði Læknalaga um lækningaleyfi erlendra lækna



Læknalög 1988 nr. 53 19. maí með síðari tíma breytingum (innan hornklofa).



I. kafli.

Lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

1. gr.

[Rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni hefur:



1. sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.,

2. sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.





Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega lækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.](1)



1. L. 116/1993, 1. gr.





2. gr.

[Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og viðbótarnámi í heilbrigðisstofnunum hér á landi eftir reglum(1) sem ráðherra setur að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.

Viðbótarnámi skv. 1. mgr. má ljúka erlendis við heilbrigðisstofnanir sem fullnægja skilyrðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, læknadeildar Háskóla Íslands og landlæknis.

Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari grein skal leita umsagnar landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands.

Óheimilt er að veita manni lækningaleyfi ef 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans eða ef landlæknir eða læknadeild telja hann óhæfan vegna heilsubrests, t.d. vegna áfengis- eða eiturlyfjaneyslu, eða vegna þess að hann hafi kynnt sig af alvarlegu hirðuleysi eða ódugnaði í störfum.](2)



1. Rg. 305/1997, sbr. 340/1999.

2. L. 116/1993, 1. gr.





3. gr.

[Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. 2. gr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. uppfylli hann skilyrði 2. gr. að öðru leyti. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands sem getur sett sem skilyrði að viðkomandi gangi undir próf í lögum og reglum er varða störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Læknadeild Háskóla Íslands getur krafist þess að umsækjandi sanni kunnáttu sína í læknisfræði með því að gangast undir próf.](1)



1. L. 116/1993, 1. gr.

Ugeskrift for læger 2000; 161; 5317-464.

Läkartidningen 2000; 97: 4102-3.

BMJ 2000; 321: S2-7267.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica