Umræða fréttir
  • Tafla I
  • Tafla II
  • Tafla III

Sérfræðinám í Svíþjóð - Vænn kostur -

Markmið okkar með þessum skrifum er að kynna unglæknum og læknanemum framhaldsnám í Svíþjóð en um leið veita þeim sem eru á leið þangað í sérnám hagnýtar upplýsingar varðandi umsóknir og flutninga. Þessi grein er að hluta til byggð á eldri grein sem annar höfunda (TG) skrifaði í Læknablaðið árið 1994 (1). Upplýsingar í þeirri grein eru margar hverjar úreltar í dag og því ástæða að skrifa nýja grein um sama efni.



Inngangur

Íslenskir læknar hafa í áratugi sótt framhaldsmenntun í læknisfræði til Svíþjóðar, fleiri en til nokkurs annars lands. Í byrjun níunda áratugarins dró úr straumi íslenskra lækna samfara versnandi efnahagsástandi og atvinnuleysi meðal sænskra lækna. Síðustu tvö árin hefur íslenskum læknum aftur fjölgað í Svíþjóð, enda hefur efnahagsástand batnað til muna og skortur er á læknum í flestum sérgreinum. Sérnámið hefur einnig verið endurskipulagt og er nú á flestum stöðum betur skipulagt og markvissara en áður. Sérnám í Svíþjóð verður því að teljast góður kostur.



Stærst Norðurlanda

Svíþjóð er stærst Norðurlanda eða 450 þúsund km2 og þar búa 8,9 milljónir manna, þar af 1,5 milljónir af erlendu bergi brotnir. Til samanburðar eru íbúar í Danmörku og Finnlandi í kringum 5 milljónir í hvoru landi fyrir sig og rúmar 4 milljónir í Noregi. Þéttbýlustu svæði Svíþjóðar eru Skánn í suðri og svæðið umhverfis höfuðborgina Stokkhólm, en hún er jafnframt stærsta borg landsins með 663 þúsund íbúa. Næst kemur Gautaborg með tæplega 430 þúsund íbúa en Málmey (230 þúsund) og Uppsalir (158 þúsund) koma þar á eftir.

Svíþjóð er háþróað iðnríki og þjóðarframleiðsla á íbúa er með því hæsta sem gerist. Járngrýti og víðáttumiklir skógar eru mikilvægar náttúruauðlindir en aðalatvinnuvegir eru málm- og vélaiðnaður auk þjónustugreina. Svíþjóð er lýðræðisríki með þingbundinni konungsstjórn og 1. janúar 1995 gengu Svíar í Evrópusambandið. Þegar þetta er ritað eru jafnaðarmenn við stjórn en þeir hafa setið lengst í stjórn frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Sænskt þjóðfélag er að mörgu leyti svipað því íslenska en flestum ber saman um að hugsanaháttur Svía sé nokkuð frábrugðinn þeim íslenska. Mikið er gert fyrir börn og fjölskyldufólk og skólakerfið er mjög vel skipulagt. Verðlag er heldur lægra en á Íslandi en þó munar ekki miklu. Laun eru að jafnaði hærri en á Íslandi fyrir sambærileg störf og afkoman því síst lakari. Á móti kemur að þjónusta er dýrari.



Uppbygging sænska heilbrigðiskerfisins

Í Svíþjóð er mjög virkt en jafnframt eitt dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi. Undanfarin 10 ár hefur verið reynt að stemma stigu við sívaxandi kostnaði með niðurskurði fjárveitinga en Svíar vörðu 8,8% af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála árið 1997, sem er heldur meira en hér á landi og á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið er í kringum 8%. Í meginatriðum er uppbygging sænska heilbrigðiskerfisins svipuð og á Íslandi, það er að segja heilbrigðisþjónusta er rekin fyrir opinbert fé og allir þegnar eiga sama rétt til hennar, óháð tekjum.

Í stórum dráttum er um ferns konar sjúkrahús að ræða í Svíþjóð. Í fyrsta lagi eru svokölluð svæðissjúkrahús (regionssjukhus) en landinu er skipt upp í svæði (region) og þjóna þessi sjúkrahús hvert sínu svæði. Þar er að finna flest allar sérgreinar. Dæmi um svæðissjúkrahús eru sjúkrahúsin í Örebro og Lundi. Í öðru lagi eru háskólasjúkrahús (universitetssjukhus), sem tengjast háskólunum sex; í Stokkhólmi, Gautaborg, Lundi, Linköping, Uppsölum og Umeå. Háskólasjúkrahúsin sinna bæði kennslu og rannsóknum. Sjúkrahús geta þannig verið bæði háskóla- og svæðissjúkrahús, til dæmis sjúkrahúsið í Lundi. Í þriðja lagi má nefna svokölluð Central lasarett eða Länssjukhus en þau eru deildaskipt með flestum sérgreinum og upptökusvæði sem oftast er í kringum 250 þúsund manns. Sjúkrahúsin í Helsingjaborg og Kristianstadt eru dæmi um Länssjukhus. Loks má nefna Länsdelsjukhus (Regional lasarett) en þau eru yfirleitt tiltölulega lítil sjúkrahús með bæði hand- og lyflækningadeild auk móttökudeilda fyrir aðrar sérgreinar, svo sem HNE og krabbameinslækningar. Í Landskrona og Ängelholm eru Länsdelsjukhus.



Uppbygging sérfræðinámsins.

Hægt er að leggja stund á flestar sérgreinar læknisfræðinnar í Svíþjóð en samkvæmt sænskum reglum er lengd sérnáms minnst fimm ár. Uppbygging sérnámsins er oftast innan blokkarkerfis þannig að hægt er að ljúka náminu á sömu stofnun eða innan sama svæðis, þó stundum séu undantekningar á þessu. Námið fer að mestu fram á sjúkradeildum /heilsugæslustöðvum og mikil áhersla er lögð á göngudeildarvinnu.

Síðustu ár hefur sérnám í læknisfræði tekið töluverðum breytingum í Svíþjóð þannig að námið hefur verið gert skipulagðara. Þess er krafist að allir hafi leiðbeinanda (handledare) sem hefur yfirumsjón með sérnámi læknisins. Þannig er ekki nægjanlegt að ljúka ákveðnum tíma í ákveðinni sérgrein heldur verður viðkomandi læknir einnig að geta sýnt yfirlækni og leiðbeinanda fram á vissa kunnáttu til þess að geta fengið sérfræðiréttindi. Flest sérgreinafélögin bjóða auk þess upp á sérfræðipróf sem hægt er að þreyja hafi maður áhuga á en sum háskólasjúkrahús gera að skilyrði að ljúka slíku prófi. Í sumum sérgreinum kemur einnig til greina að ljúka evrópskum sérfræðiprófum.

Jafnhliða klínísku námi er boðið upp á sérstök námskeið í hverri sérgrein fyrir sig og geta þau verið mjög gagnleg og vel skipulögð. Námskeiðin eru auglýst í sænska Læknablaðinu (Läkartidningen) og tekur hvert námskeið yfirleitt fjóra til fimm daga. Ekki er skylda að sækja ákveðinn fjölda námskeiða en leiðbeinendur eru yfirleitt hafðir með í ráðum hvaða og hversu mörg námskeið eru sótt. Námskeiðin eru lækninum að kostnaðarlausu og oftast er greitt fyrir ferðakostnað og uppihald. Læknirinn heldur auk þess launum sínum á meðan hann sækir námskeiðið.

Námstíma frá Íslandi er hægt að fá metinn en viðkomandi yfirlæknir og nefnd á vegum hins opinbera (Socialstyrelsen) ákveða hversu mikið fæst metið þar sem farið er yfir hvern umsækjanda fyrir sig. Yfirleitt er ekki hægt að fá meira en tvö ár metin frá námstíma á Íslandi. Í Svíþjóð er hægt að fá viðurkennda fleiri en eina sérgrein. Ekki er talið ráðlegt að hefja sérnám án þess að hafa fengið ótakmarkað lækningaleyfi á Íslandi. Þó er leyfilegt í Svíþjóð í vissum tilvikum að nota sex mánuði til sérnáms áður en viðkomandi hefur hlotið ótakmarkað lækningaleyfi.



Réttindi íslenskra lækna í Svíþjóð

Samkvæmt norrænum samningum geta íslenskir læknar sótt um lækningaleyfi í Svíþjóð án þess að gangast undir próf. Ekki er skylda að vera í sænska Læknafélaginu en aðild er að mörgu leyti æskileg og kostar tæplega 20 þúsund krónur á ári. Um leið fæst aðgangur að lánum en sænska Læknafélagið tengist bæði banka og tryggingafélagi.



Námsstöður í Svíþjóð

Námsstöður í Svíþjóð eru aðallega tvenns konar, annars vegar svokallaðar ST-blokkir (specialist tjänstgöring) og hins vegar svokallaðar afleysingastöður (vikariat). Fyrrnefndu stöðurnar eru auglýstar í sænska Læknablaðinu. Sé læknir ráðinn í ST-blokk skuldbindur viðkomandi stofnun sig til þess að veita honum menntun til sérfræðiviðurkenningar. Jafnframt verður stofnunin (að minnsta kosti í langflestum tilvikum) að veita lækninum stöðu að loknu sérfræðinámi óski hann þess. Hið síðarnefnda á þó ekki við um háskólasjúkrahúsin.

Af ofanskráðu er ljóst að ST-staða veitir lækninum meira öryggi á námstímanum og er sjálfsagt að stefna að því að komast í slíka stöðu. Stofnanir og yfirmenn vilja oft fremur ráða lækna í afleysingastöður til nokkurra mánaða í senn, að minnsta kosti þangað til viðkomandi hefur náð að sýna sig og sanna. Því getur verið erfitt að komast beint í ST stöðu frá Íslandi. Í staðinn fæst afleysingastaða oft til sex mánaða. Þannig fær stofnunin tíma til að átta sig á viðkomandi og einnig er mikilvægt fyrir þann sem kemur út til sérnáms að finna hvort hann aðlagast áður en hann bindur sig til lengri tíma.

Áður var íslenskum læknum ráðlagt að geta þess í umsókn og viðtali að þeir stefndu heim til Íslands að námi loknu, þar sem slíkt yki líkur á því að þeir fengju námsstöðu í Svíþjóð. Þetta þarf ekki að eiga við í dag. Töluverður skortur er á læknum í mörgum sérgreinum og allt eins líklegt að yfirlækni þyki meiri fengur í umsækjanda sem geti hugsað sér að dvelja lengur.

Eins og áður sagði eru ST-blokkir auglýstar í sænska Læknablaðinu. Afleysingastöður eru á hinn bóginn ekki auglýstar sérstaklega en ráðið er í þær allan ársins hring, allt eftir samkomulagi. Best er að spyrjast fyrir um afleysingastöður með því að hringja á viðkomandi deild eða skrifa. Ágætt ráð er að leita til Íslendinga sem eru á svæðinu eða eru nýkomnir heim úr sérnámi. Þeir hafa oft persónuleg sambönd við yfirmenn en slík sambönd skipta miklu máli við ráðningar lækna í Svíþjóð.



Sótt um stöðu

Þegar sótt er um stöðu er algengast að skrifað sé bréf til viðkomandi stofnunar. Til eru stöðluð umsóknareyðublöð, sem fást í flestum bókabúðum í Svíþjóð, en slík eyðublöð þarf yfirleitt ekki. Umsóknirnar er best að stíla á yfirmenn (klinikchef) deilda eða heilsugæslustöðva en nöfn þeirra og heimilisföng er hægt að fá hjá sænska sendiráðinu í Reykjavík. Einnig er hægt að leita til Læknafélags Íslands eða lækna sem eru nýkomnir heim frá Svíþjóð til þess að fá gefin upp nöfn og heimilisföng. Oft vísar yfirlæknirinn umsóknunum til umsjónarlæknis deildarinnar (schemaläggare) en hann sér um að skipuleggja vaktir og halda utan um umsóknir.

Í umsókninni (bréfinu) er æskilegt að fram komi hvaða stöðu og sérnám umsækjandi hefur í huga, frá hvaða tíma og hversu lengi. Oft er getið stuttlega um menntun, fyrri störf og vísindavinnu. Að öðru leyti eru slíkar upplýsingar (ítarlegri) að finna í afrekaskrá (sjá síðar).

Til þess að minnka líkur á því að umsókninni sé hafnað er vænlegast að hafa upp á íslenskum læknum sem eru eða hafa verið í námi á viðkomandi stað og hafa sambönd og þekkja til yfirmanna. Einnig er gott að senda með umsókninni meðmælabréf frá yfirmanni/prófessor auk afrekaskrár, sérstaklega ef umsækjandi hefur lagt stund á rannsóknir. Oft eru fyrstu svörin "Tyvärr...." (=því miður) en sjálfsagt er að skrifa aftur ef umsækjandi hefur mikinn áhuga á viðkomandi stað. Til þess að sýna áhuga er hægt að bjóðast til þess að koma út í viðtöl, annars eru formleg viðtöl ekki skilyrði við ráðningar í Svíþjóð, gagnstætt því sem tíðkast í Bandaríkjunum og Englandi.

Fáist jákvætt svar (eða svar sem ekki er neikvætt!) er mikilvægt að svara fljótt. Oft er umsækjandi beðinn um frekari gögn, svo sem afrit af prófskírteini, einkunnum og lækningaleyfi auk afrekaskrár og meðmæla hafi þau ekki verið send áður. Afrit af latneska hluta prófskírteinisins er hægt að fá á skrifstofu læknadeildar í Læknagarði en einnig afrit af einkunnum á ensku auk útskýringa á einkunnagjöf. Vottorð af íslensku lækningaleyfi á sænsku (kopia av bevis om läkarlegitimation) eða ensku er hægt að fá í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og kostar um það bil 1000 kr. Einnig er oft beðið um vottorð frá Læknafélagi Íslands (intyg från Islands Läkarförening) til staðfestingar á því að umsækjandi hafi ótakmarkað lækningaleyfi á Íslandi og fæst það ókeypis á skrifstofu Læknafélaganna. Í sumum tilvikum getur þurft að sýna afrit af stúdentsprófsskírteini, til dæmis vegna vinnu í háskóla. Ef maki hyggur á nám í Svíþjóð er skynsamlegt fyrir hann eða hana að taka með sér afrit af einkunnum og prófskírteini á sænsku eða ensku.



Þegar komið er til fyrirheitna landsins

Eftir að komið er út er mikilvægt að leita strax á næstu skattaskrifstofu (skattemyndigheten) til að fá sænska kennitölu (personnummer), en það verður maður að hafa til þess að fá síma, barnabætur og fleira sem tengist félagslega kerfinu. Til þess að geta fengið kennitölu verður að framvísa samnorrænu flutningsvottorði (internordisk flytteattest). Stundum er einnig farið fram á hjúskapar- og fæðingarvottorð fyrir alla fjölskylduna en þessi vottorð fást á Hagstofunni. Yfirleitt þarf að bíða eftir að kennitalan fáist og því er skynsamlegt að leita sem allra fyrst á næstu skattaskrifstofu eftir að komið er út. Biðtíminn er mislangur, ein til fjórar vikur.

Eftir að kennitalan hefur borist er hægt að sækja um nafnskírteini/skilríki (legitimation) og síma. Skilríki fæst í næsta bankaútibúi og verður að fylgja með ein passamynd (stærri en hefbundin passamynd). Í sömu ferð er hægt að stofna bankareikning (launareikning) og sækja um greiðslukort.

Ef menn þiggja bætur frá sjúkrasamlaginu (försäkringskassan) eða eiga von á bótum er rétt að verða sér úti um flutningstilkynningu frá sjúkrasamlagi. Íslenskar konur hafa til dæmis fengið greidd mæðralaun í samræmi við fyrri tekjur á Íslandi. Fæðingarorlof í Svíþjóð er eitt ár og eiga foreldrar rétt á að taka það út smám saman þar til barnið er átta ára. Það reiknast út frá tekjum í Svíþjóð síðastliðna sex mánuði eða sem "dagpeningar" sem þá er mun lægri upphæð. Íslendingar ganga inn í almannatryggingakerfið um leið og þeir hafa skráð sig inn í Svíþjóð. Því gerist ekki þörf á sérstökum tryggingum fyrst eftir að komið er til Svíþjóðar.

Heimilis- og bílatryggingar eru ódýrari í Svíþjóð en heima og oft færst afsláttur ef allt er tryggt hjá sama tryggingafélagi. Hægt er að fá bónus af bílatryggingum yfirfærðan og þarf vottorð frá viðkomandi tryggingafélagi hér heima. Mikilvægt er að maka sé einnig getið á vottorðinu. Töluverðu getur munað á iðgjöldum ef bónus fæst yfirfærður en annars eru bifreiðatryggingar ódýrari í Svíþjóð en á Íslandi. Í flestum tilvikum dugar íslenskt ökuskírteini en þó eru dæmi þess að Íslendingar hafi þurft að verða sér úti um sænskt ökuleyfi. Hægt er að sækja um sænskt ökuleyfi á grundvelli þess íslenska ef það er gert innan árs frá því að komið er til landsins.

Í sumum tilvikum er krafist vottorðs frá sjúkrahúsi um framhaldsnám. Slík vottorð fást á skrifstofum spítalanna en þar kemur fram hversu lengi viðkomandi hefur unnið á stofnuninni og frá hvaða deild laun voru greidd. Á sömu skrifstofum er hægt að fá vottorð sem sýnir tekjur síðastliðins árs en slíkt vottorð getur komið að góðum notum ef sótt er um bætur úr félagslega kerfinu, til dæmis fæðingarorlof.

Ekki er lengur krafist sænskuvottorðs nema í algjörum undantekningartilvikum. Þá er staðfest af viðurkenndum sænskukennara að viðkomandi skilji bæði ritað og mælt mál og geti gert sig skiljanlegan á sænsku. Þó má benda á að tali fólk reiprennandi sænsku getur verið ávinningur í því að fá það staðfest, til dæmis af sænskukennara. Einnig er sjálfsagt að geta þess þegar sótt er um stöðu að umsækjandi tali góða sænsku.



Húsnæði

Yfirleitt er talið ráðlegt að byrja í leiguhúsnæði. Húsaleiga á almennum markaði er mismunandi eftir stöðum og oft dýrari í stórborg en á minni stöðum á landsbyggðinni. Í borgum er húsaleiga fyrir þriggja til fjögurra herbergja íbúð oftast á bilinu 30-50 þúsund íslenskar krónur á mánuði og er þá innifalið bæði hiti og vatn. Kallast það varm hyra þegar hiti er innifalinn en ef það er ekki er talað um kall hyra en mikilvægt er að hafa þessi hugtök á hreinu þegar samið er um verð á leiguhúsnæði. Fyrir raðhús hækkar leigan í 55-80 þúsund á mánuði. Leigusalar eru oftast sérstök fyrirtæki eða einkaaðilar. Í flestum tilvikum fylgja íbúðunum raftæki, svo sem ísskápur, eldavél, þvottavél og þurrkari. Ef svo er ekki má benda á að verð á rafmagnstækjum er umtalsvert lægra en hér á landi.

Oftast er ekki miklum vandkvæðum bundið að verða sér úti um húsnæði en best er að ganga frá þessum málum með nokkurra mánaða fyrirvara. Hægt er að leita til Íslendinga í nágrenninu og þeir geta síðan grennslast fyrir um húsnæði eða sent inn auglýsingu í dagblöð. Oft er árangursríkt að hengja upp húsnæðisauglýsingu á þeim spítala þar sem fyrirhugað er að stunda nám.

Þegar fólk hefur áttað sig betur á hlutunum kemur til greina að kaupa húsnæði. Verð á húsnæði er mjög breytilegt eftir stöðum. Hafa þarf í huga að erfitt getur verið að losna við húsnæði hafi fólk til dæmis í huga að færa sig um set innan Svíþjóðar eða til annarra landa. Ef kaupa á húsnæði er gott að fá vottorð frá stofnuninni sem maður er ráðinn á þess efnis að maður hafi ráðningu og þannig tekjur. Þetta hjálpar til ef farið er í banka og beðið um loforð til láns. Ekki er hægt að sækja formlega um lán fyrr en komið er með sænska kennitölu.



Laun og skattar

Á sjúkrahúsum eru byrjunarlaun aðstoðarlækna (underläkare) í kringum 210-250.000 íslenskar krónur (24-28.000 skr) á mánuði fyrir dagvinnu. Í sumum tilfellum er hægt að semja um laun, ef skortur er á læknum í viðkomandi sérgrein. Heildarlaun ráðast svo af vaktaálagi en flestir eru á fjórum til fimm vöktum á mánuði og geta þá bæst við 40- 50.000 íslenskar krónur við dagvinnulaunin. Oft er þó greitt fyrir vaktir í formi fría, að minnsta kosti að hluta (sjá betur síðar). Greiðslur fyrir vaktir eru því ekki jafn stór hluti af heildarlaununum eins og á Íslandi. Í þessu sambandi er rétt að árétta að samanburður á launum á milli landa er óviss mælikvarði á afkomu.

Sumarfrí er yfirleitt fimm vikur en að auki eru vaktavinnufrí sem eru þá hluti af greiðslu fyrir vaktir. Víða er þess krafist að læknar taki helming til tvo þriðju fyrir vaktir út í fríum en afganginn í peningum. Á sumum deildum er þó hægt að taka allt út í peningum. Vaktavinnufrí eru betri en hér á landi. Sé gert ráð fyrir að um það bil tveir þriðju hlutar af greiðslu fyrir vaktir séu teknir út í fríi og vaktir séu fjórar til fimm á mánuði þýðir þetta einnar viku frí á fimm til sex vikna fresti. Þetta frí er til dæmis hægt að nota til vísindarannsókna en oft er hægt að semja við yfirmenn um að safna upp vaktavinnufríum og vinna annars staðar um tíma.

Skattar hafa síðustu ár lækkað umtalsvert í Svíþjóð og eru nú í kringum 30% af fyrstu 200.000 SKR en 55% eftir það. Hjón eru ekki samsköttuð, heldur hver og einn sér. Ef byrjað er að vinna þegar liðið er á árið er hægt að sækja um skattajöfnun (eyðublað hjá skattemyndigheten). Er þá reiknað út hversu mikinn skatt viðkomandi á að borga miðað við laun og þannig jafnað út fyrir þá mánuði sem viðkomandi vinnur ekki. Eyðublaðinu er síðan skilað á launadeild spítalans.

Vinnuvika sérfræðinga er 43-48 klukkustundir á viku en læknar í sérnámi (underläkare) eiga yfirleitt að vinna 40-45 stundir á viku. Yfirleitt er ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Unnið er frá mánudegi til föstudags en sums staðar er hætt fyrr á föstudögum til þess að bæta upp fyrir vinnutíma sem er lengri en átta klukkustundir fyrr í vikunni. Á flestum stöðum er frí að minnsta kosti síðari hluta dags eftir vakt en vaktir eru yfirleitt mjög annasamar. Vinnutími er oftast frá kl. 07:30 til 17 með hálfri til einni klukkustund í mat sem ekki telst til vinnutímans.

Laun heilsugæslulækna eru yfirleitt sambærileg launum sjúkrahúslækna. Ekki er greitt sérstaklega fyrir afköst eins og í Noregi. Sumarfrí eru einnig sambærileg en víða er greitt að fullu fyrir vaktir í peningum og vaktavinnufrí því styttri.



Trygginga-, félags- og skólakerfi

Svíar búa við mjög öflugt trygginga- og félagskerfi, sennilega það besta á Norðurlöndum. Almenna tryggingakerfið veitir Íslendingum í Svíþjóð sömu réttindi og skyldur og Svíum á grundvelli gagnkvæmra milliríkjasamninga.

Barnabætur hafa lækkað á síðasta ári og eru nú um 7.300 íslenskar krónur á mánuði fyrir hvert barn og eru greiddar út mánaðarlega. Eftir að komið er út verður að snúa sér sem fyrst til sjúkrasamlagsins skrá sig þar og sækja um barnabætur. Fæðingarorlof og aðrar félagslegar bætur er einnig hægt að sækja um hjá sjúkrasamlaginu. Rétt er að ítreka það að best er að skrá sig hjá sjúkrasamlaginu sem fyrst eftir að komið er út því annars er hætt við að bætur tapist eða rýrni. Feður eiga rétt á tveggja vikna fríi á fullum launum við fæðingu barna sinna.

Leiti maki að vinnu getur hann leitað til atvinnumiðlunar í viðkomandi bæjarfélagi (arbetsförmedlingen) og skráð sig þar. Rétt er að kynna sér vel hvaða vottorð/gögn þarf að taka með sér áður en haldið er utan og þá sérstaklega með tilliti til gildandi milliríkjasamninga milli Íslands og Svíþjóðar. Í dag er hægt að fá fluttan rétt á atvinnuleysisbótum á milli Svíþjóðar og Íslands en eingöngu ef viðkomandi gengur í sænskt fagfélag innan fjögurra vikna frá því hann flytur til Svíþjóðar og yfirfærir síðan réttindi sín. Þannig er skynsamlegt fyrir maka að verða sér úti um vottorð frá fagfélögum á Íslandi og staðfestingu á tekjum síðastliðins árs áður en haldið er út.

Yfirleitt er meira framboð á barnaheimilisplássum en á Íslandi en það er þó mismunandi eftir stöðum. Greiðslur fyrir barnaheimilispláss eru oftast tekjubundnar og eru víða 5-7% af heildarlaunum. Best er að sækja um dagvistarpláss í tíma. Yfirleitt er nokkur bið í háskólabæjum. Valið stendur aðallega á milli tveggja kosta; barnaheimilis og dagmæðra. Dagmæður starfa innan kerfisins þannig að dagmæður eins og á Íslandi þekkjast varla, nema þá þær sem starfa "svart".

Skólar eru yfirleitt mjög góðir og uppbygging skólakerfisins svipuð og hér á landi. Börnin byrja þó einu ári síðar í skóla í Svíþjóð en skólaskylda er frá sjö til 16 ára aldurs. Nýverið var skólum veitt heimild til að taka börn inn í sex ára bekk en ekki er alls staðar boðið upp á slíkt. Skólaárið er lengra, sumarfrí er 10 vikur og jólafrí tvær vikur, en síðan bætist við vikufrí í febrúar annars vegar (sportlov) og nóvember hins vegar (höstlov). Skóladagurinn er samfelldur frá klukkan átta á morgnana og fram yfir hádegi og öll börn fá heita máltíð í skólanum. Áður en haldið er utan er skynsamlegt að grennslast fyrir um skóla í hverfinu og sækja síðan um skóla tímanlega. Yfirleitt er auðvelt að að fá skólapláss en ekki er skilyrði að sótt sé um þann skóla sem næstur er heimilinu því nú fylgir hverju barni ákveðin upphæð sem rennur til þess skóla sem barnið sækir.

Boðið er upp á íslenskukennslu í mörgum skólum, en skilyrði fyrir því er að þrjú börn séu frá sama landi í sama bæjarfélagi (kommun). Vert er að hafa þetta í huga ef stefnt er á flutning til minni bæjarfélaga.



Bifreiðakaup

Verð á nýjum bifreiðum hefur verið nokkuð lægra í Svíþjóð en á Íslandi og flestir eru þeirrar skoðunar að ekki borgi sig að taka bílinn með út frá peningalegu sjónarmiði. Þó má benda á að hafi maður átt bíl á Íslandi í eitt ár þarf ekki að greiða tolla af honum í Svíþjóð. Bíllinn verður að vera búinn hvarfakút, annars þarf að greiða sérstakan mengunarskatt.

Ef bíll er fluttur með til Svíþjóðar er betra að tolla hann strax úr skipinu en ekki taka hann inn í landið sem ferðamannabíl. Þetta sparar mikla vinnu því ef tolla á bílinn seinna þarf að sækja um það sérstaklega. Þegar bíllinn er tollaður strax eru allir nauðsynlegir pappírar fylltir út. Eins og fram hefur komið þarf ekki að borga af bílnum hafi maður átt hann í eitt ár. Borguð er bráðabirgðatrygging og númeraplötur. Eftir þetta er pantaður tími í skoðun og þá fyrst er óhætt að nota bílinn.

Ef kaupa á bíl í Svíþjóð er skynsamlegt að bera saman verð með því að fá sendar upplýsingar frá bifreiðaumboðum, bílasölum og netsíðum þeirra í Svíþjóð. Líkt og hér á landi hrapa bílar nokkuð hratt í verði fyrsta árið og því er yfirleitt hagstæðara að kaupa notaða bíla en nýja. Rétt er að benda á að í Svíþjóð er oft hægt að prútta niður verð á bílum ef greitt er út í hönd og eldri bíll er ekki tekinn upp í þann nýja (inbytesbil).



Atvinnuhorfur að loknu námi

Eins og áður kom fram hafa orðið miklar breytingar til hins betra á atvinnuhorfum lækna í Svíþjóð. Í Svíþjóð eru í kringum 26.000 læknar (þriðjungur konur), þar af rúmlega 1000 Danir og rúmlega 200 Íslendingar, en talið er að 20% Íslendinga hafi sest að í Svíþjóð til frambúðar. Þegar þetta er ritað er skortur á læknum í mörgum sérgreinum í Svíþjóð. Enn meiri skortur er fyrirsjáanlegur á næstu 10 árum og atvinnuhorfur að námi loknu verða því að teljast mjög góðar.



Lokaorð

Leiðbeiningar sem þessar eru engan veginn tæmandi og alltaf er best að leita ráða hjá þeim sem búa úti eða eru nýkomnir heim úr sérnámi frá Svíþjóð. Einnig er rétt að taka fram að ýmsar þeirra upplýsinga sem fram koma í þessari grein eru háðar breytingum, svo sem varðandi launakjör, verðlag og félagsleg réttindi. Þegar ákveðið hefur verið hvert halda á í sérnám er um að gera að undirbúa flutninginn með góðum fyrirvara. Að lokum skorum við á lækna og læknanema að koma með tillögur um breytingar ef þeim þykir þurfa að fenginni reynslu. Hægt er að koma ábendingum á framfæri til skrifstofu Læknafélaganna.



Heimildir

1. Guðbjartsson T, Jónsson Á, Ingvarsson Þ, Möller PH. Sérfræðinám í Svíþjóð. Læknablaðið 1994; 80: 410-5.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica