Umræða fréttir

Íðorð 130: Bioavailability

Íslensk málstöð framsendi tölvuskeyti sem þangað hafði borist. Spurt var um hugtakið bioavailability og íslenskun þess. Íðorðasafn lækna veitti ekki úrlausn. Frá enska nafnorðinu bioavailability er aðeins vísað í physiological availability, en þar er heldur ekki íslenskt heiti að finna, aðeins spurningarmerki (?). Fyrirspyrjandi hafði sjálfur nokkrar lausnir á takteinum, aðgengi, líffræðilegt aðgengi, lífaðgengi, lífgengi og ígengi, en líkaði misvel og vildi fá umræðu um þær.

Orðhlutaskýringar gefa til kynna að fyrsti hlutinn bio- merki líf- eða líffræðilegur. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs gefur þýðingar á availability: fáanleiki, það að vera fyrir hendi, tiltækileiki, og Ensk-íslensk tölvuorðabók Máls og menningar einnig: auðfáanleiki. Hin mikla alfræðiorðabók Websters rekur uppruna til latnesku sagnarinnar valeo (valere) sem getur haft ýmsar merkingar: koma að gagni, vera einhvers virði, vera sterkur, hafa áhrif, vera virkur, vera hraustur, vera fær og að sigra. Enska lýsingarorðið available merkir: til reiðu, fyrir hendi, laus, fáanlegur eða tiltækur. Auðvelt er því að setja saman þá orðskýringu að bioavailability tákni það ástand eða þann eiginleika að vera líffræðilega tiltækur eða fyrir hendi. Orðskýringarnar gefa hins vegar ekki til kynna hvaða hugtak liggur að baki.

Leit í læknisfræðiorðabókum leiðir í ljós að heitið bioavailability er notað um það magn eða hlutfall lyfs eða efnis sem tiltækt verður á verkunarstað, og er þannig markvef (target tissue) eða markfrumum (target cells) lífeðlisfræðilega (andstætt við efnafræðilega) til reiðu. Oft er þó eingöngu verið að vísa í það hundraðshlutfall af gefnum lyfjaskammti sem kemst inn í blóðið og berst með blóðrás til vefja. Spyrja má þá hvort forskeytið bio- sé nauðsynlegt í hinu erlenda heiti? Er ekki nóg að tala um availabilty? Væri ekki heppilegra og nákvæmara að nota orðin blood availability, tissue availability eða cellular availability um það af lyfinu sem er til reiðu á viðkomandi stað?Aðgengi

Nafnorðið aðgengi finnst ekki í Íslenskri orðabók Máls og menningar frá 1992, en birtist í tölvuorðabókinni frá 1999 og í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem þýðing á accessibility. Leit í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans gaf til kynna að orðið hefði komið fram á síðari hluta tuttugustu aldarinnar og fyrst verið notað um aðgengi fatlaðra að byggingum. Litlu eldra er orðið aðgengileiki. Lýsingarorðið aðgengilegur er mun eldra, eða frá miðri nítjándu öld, og má nota um það sem gott er að komast að. Undirritaður fékk að bragði þá hugmynd að viss endaskipti hefðu orðið á hlutunum þegar aðgengi var valið í lyfja- og læknisfræðilegu samhengi sem þýðing á availability. Samkvæmt upprunalegu merkingunni ætti aðgengi lyfs að tákna hversu vel (eða illa) lyfið kemst inn í líkamann eða tiltekna vefi, en ekki hversu mikið af lyfinu er til reiðu.

Aðgengi er lipurt orð og sér undirritaður ekki ástæðu til að amast við því. Það er komið í notkun og hefur eignast formlegan sess í lyfjalýsingum sem undirfyrirsögn í köflum um lyfjahvörf. Vera má að þetta heiti geti haft víðari merkingu en að var stefnt, en það misskilst varla í þessu samhengi. Hin heitin lífaðgengi og lífgengi eru síst gegnsærri. Vera má þó að heitið ígengi geti orðið til skilningsauka. Þannig mætti búa til heitið blóðígengi eða vefjaígengi, og jafnvel blóðgengi. Öll eru þau styttri og liprari en bioavailability, sem er átta atkvæði. Hugmyndir lesenda eru vel þegnar.Procedure

Snemma á síðasta ári barst fyrirspurn frá Shreekrishna Datye, skurðlækni á FSA, um íslenskt heiti á procedure. Íðorðasafn lækna tilgreinir tvö heiti, aðferð, lag, og Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs gefur þrjár merkingar, 1. aðferð, framgangur, framgangsmáti. 2. réttarfar. 3. viðteknir starfshættir, viðskiptahættir. Ekkert af þessu virtist duga fyrir það sem Shree hafði í huga. Hann var að leita að íslensku heiti til að tákna mismunandi aðgerðir (procedures) sem gerðar væru við sömu skurðaðgerð (operation). Þarna virtist um að ræða flokkunarheiti á skurðstofuverkum, fremur en lýsandi aðgerðarheiti, því ekki virtist skipta máli hvort aðgerðirnar væru gerðar með einum skurði eða fleirum. Undirritaður leitaði mikið í tiltækum orðabókum, þar á meðal Samheitaorðabókinni, en fann ekki lausn sem líkaði og hefur síðan enga hugljómun fengið. Hafa aðrir læknar fundið lausn fyrir Shree?Dægradvölin

Dægradvölin í síðasta pistli fjallaði um klæðnað manna og var úr Heilsufræði, Alþýðubók og skólabók, eftir Steingrím Matthíasson, héraðslækni á Akureyri. Bókin var gefin út árið 1914 og fylgdi höfundur henni úr hlaði með þessum orðum: "Það er ósk mín og von, að bók mín opni augu margra landa minna fyrir verðmæti heilsunnar og megi verða alþýðu manna til fróðleiks og jafnvel skemmtunar."Dægradvöl V er tekin upp úr Læknablaðinu. Spurt er um höfund og útgáfuár.Dægradvöl V

"Af þessu verður ljóst, að þegar læknir hefur lokið sérnámi, hefur hann nær helming ævi sinnar mestmegnis fengizt við erlent ritmál og fimmta hluta ævinnar haft lítil skipti af íslenzkri tungu, heldur hugsað, talað og ritað á erlendu máli."

"Liggur því nærri að ætla, að íslenzk tunga sé í nokkru meiri hættu stödd af völdum lækna en annara menntamanna, einnig má gera ráð fyrir, að þessi hætta hljóti að vaxa, eftir því sem læknar leggja meiri rækt við fræðigrein sína."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica