Umræða fréttir

Athugasemd vegna greinar um lyfjakostnað landsmanna í nóvemberhefti Læknablaðsins

Ég vil fyrir hönd Farmasíu ehf og MSD andmæla ummælum í ofangreindri grein um Vioxx (rófekoxíb, MSD) (Lyfjamál 98. Læknablaðið 2001; 87: 947). Þar er því haldið fram að Vioxx hafi reynst hrein viðbót við fyrri meðferðarúrræði, án þess að sýnilegur, betri árangur náist. Því miður eru svona fullyrðingar, það er að ný lyf hafi ekkert fram að færa umfram eldri lyf, að verða algengar hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Þekkt er að stærsti kosturinn við Vioxx er lægri tíðni aukaverkana heldur en af ósértækum bólgueyðandi lyfjum, sérstaklega með tilliti til klínískra aukaverkana frá efri hluta meltingarvegar (1) og hefur það verið staðfest í fjölda klínískra rannsókna. Í Vigor rannsókninni (1), þar sem bornar voru saman aukaverkanir af tvöföldum hámarksskammti (50 mg) af Vioxx og venjulegum skammti af naproxen (1000 mg) hjá 8076 liðagigtarsjúklingum, að meðaltali í níu mánuði, var marktækt lægri tíðni klínískra aukaverkana og alvarlegra aukaverkana frá efri hluta meltingarvegar (rof, sár og blæðingar) í Vioxx-hópnum.

Þá vil ég gera athugasemd við áætlaðan kostnað almannatrygginga í ár af Vioxx, það er 150 milljónir af 210 milljónum. Þess má geta að virðisaukaskatturinn er um það bil 41 milljón, sem ríkið fær til baka og sjúklingar borga einnig stóran hluta af verði lyfsins, þannig að þessi upphæð er fjarri lagi.

Að lokum finnst mér það einkennileg vinnubrögð að enginn starfsmaður er skrifaður fyrir greininni.



Heimild

1. Bombardier C, Laine L, Reicin A, Shapiro D, Burgos-Vargas R, Davis B, et al. Comparison of upper gastrointestinal toxicity of rofecoxib and naproxen in patients with rheumatoid arthritis. VIGOR Study Group. N Eng J Med 2000; 343: 1520-8.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica