Fræðigreinar
  • Tafla I
  • Tafla II
  • Tafla III
  • Tafla IV
  • Tafla V

Menntun, störf og tekjur þeirra sem urðu öryrkjar á Íslandi árið 1997

Ágrip

Inngangur: Umtalsverðar upplýsingar eru til um heilsufar öryrkja á Íslandi, en minni um félagslegar aðstæður þeirra. Félagslegar aðstæður voru því kannaðar og er hér lýst menntunarstigi, störfum og tekjum einstaklinga sem nýlega voru metnir til örorku. Þegar könnunin var gerð var örorka ennþá metin á grundvelli heilsufarslegra, félagslegra og fjárhagslegra forsendna. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna í hve miklum mæli félagslegar aðstæður nýskráðra öryrkja eru frábrugðnar aðstæðum þjóðarinnar almennt.

Efniviður og aðferðir: Í símtali var lagður fyrir listi með spurningum um félagslegar aðstæður. Í úrtaki voru allir sem fengu á árinu 1997 í fyrsta sinn örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri. Svör öryrkjanna voru borin saman við svör við þjóðmálakönnunum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, þar sem svarendahópurinn endurspeglaði vel þjóðina eftir kyni, aldri og búsetu. Aflað var upplýsinga um meðaltekjur öryrkja og þær bornar saman við meðaltekjur vinnandi fólks.

Niðurstöður: Menntunarstig öryrkjanna reyndist lægra og þeir höfðu í meiri mæli unnið við ófaglærð störf en gengur og gerist hjá þjóðinni. Minna var um að öryrkjarnir hefðu einungis unnið heima en þjóðin almennt. Nokkuð var um að öryrkjarnir væru enn í launaðri vinnu, einkum örorkustyrkþegar. Meðaltekjur Íslendinga sem virkir eru á vinnumarkaði virðast vera nær tvöfalt hærri en meðaltekjur öryrkja.

Ályktanir: Þar eð saman fara lægra menntunarstig og þrengri atvinnutækifæri hjá öryrkjum en hjá þjóðinni almennt, má álykta að aukin starfsendurhæfing og fjölbreyttari námstækifæri kynnu að geta bætt stöðu þeirra sem eru að detta út af vinnumarkaði vegna heilsubrests, lágs menntunarstigs og erfiðra starfa.



English Summary

Thorlacius S, Stefánsson SB, Ólafsson S

Educational level, occupation and income of those who became disability pensioners in Iceland in the year 1997



Læknablaðið 2001; 87: 981-5



Introduction: All claims for disability benefits in Iceland are managed by the State Social Security Institute of Iceland. The decision to grant a claimant disability benefits was until September 1999 mainly based on medical certificates but social and economic factors were also taken into consideration. As information on social and economic conditions in medical certificates is limited it was decided to investigate these factors particularly. In this paper a comparison of educational level, employment, and income is made between new recipients of disability benefits and a random sample of the Icelandic nation.

Material and methods: All new recipients of disability benefits (full disability pension, partial disability pension and rehabilitation pension) in 1997 were contacted by phone and asked to answer a questionnaire. Their answers were compared with those obtained in a national survey carried out by the Institute of Social Sciences at the University of Iceland in 1996 and 1997 with a sample representing accurately the Icelandic population in terms of gender, age and place of residence. Information about average income of disability pensioners was obtained and compared to that of people in employment.

Results: Educational level of those receiving disability benefits was considerably lower than expected in comparison with the population and unskilled workers were overrepresented. Contrary to what might be expected a larger proportion of the recently disabled have been employed at some time than is the case for the national sample, even though 63.6% of the new disability pensioners were women. Considerable number of those receiving disability benefits were still in employment, particularly those with partial disability pension. Mean monthly income of Icelanders participating in the labour market was almost twice that received by those on disability benefits.

Conclusions: Since lower educational level and more restricted employment opportunities characterize disability pensioners as compared to the nation, it seems likely that more varied occupational rehabilitation and educational opportunities could improve the situation of those who have had to leave the labour market because of ill health, lack of education and poor working conditions.



Key words: disability, disability pension, social circumstances, education level, occupation, work participation, social security.



Correspondence: Sigurður Thorlacius. E-mail: sigurdur.thorlacius@tr.is




Inngangur

Langvarandi óvinnufærni á rætur að rekja til heilsufarslegra, félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna (1-4). Á Íslandi var örorka metin á grundvelli heilsufarslegra, félagslegra og fjárhagslegra forsendna allt til 1. september 1999 (5-6). Örorkulífeyrir var metinn samkvæmt 12. grein almannatryggingalaganna (7), en samkvæmt henni áttu þeir rétt til örorkulífeyris sem voru "öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa". Samkvæmt 13. grein sömu laga er Tryggingastofnun ríkisins (TR) heimilt að veita örorkustyrk þeim sem skortir að minnsta kosti helming starfsorku sinnar eða sem stundar fullt starf, en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Samkvæmt 8. grein laga um félagslega aðstoð (8) er tímabundið heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri, þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Endurhæfingarlífeyrir svarar fjárhagslega til örorkulífeyris, að því undanskildu að sjúkrahúsvist skerðir ekki endurhæfingarlífeyri. Þessar bætur eru allar bundnar við aldurinn 16 til 66 ára.

Í gagnasafni TR eru umfangsmiklar upplýsingar um heilsufar öryrkja á Íslandi og eru algengustu heilsufarslegar forsendur örorku geðraskanir og stoðkerfisraskanir (5,9). Ekki var hins vegar vitað hvaða félagslegu þættir hefðu mest samband við örorku. Upplýsingar um þessa þætti eru forsenda þess að unnt sé að bæta stöðu öryrkja eða fyrirbyggja örorku, til dæmis með markvissri starfsendurhæfingu. Í gagnasafni TR eru ekki heildstæðar upplýsingar um félagslegar aðstæður öryrkja. Voru þær því kannaðar sérstaklega. Voru niðurstöðurnar bornar saman við þjóðina þar sem hægt var. Reyndist vera mestur munur á milli hópanna í menntunarstigi og starfsreynslu. Í þessari grein er fjallað um þessa félagslegu þætti. Auk þess eru meðaltekjur öryrkjanna bornar saman við meðaltekjur þeirra sem virkir eru á vinnumarkaði. Meginmarkmið rannsóknarinnar var þannig að meta í hve miklum mæli félagslegar aðstæður öryrkja annars vegar og þjóðarinnar í heild hins vegar eru frábrugðnar.



Efniviður og aðferðir

Þessi könnun var unnin í samvinnu TR og Háskóla Íslands (læknadeildar og Félagsvísindastofnunar). Um var að ræða spurningakönnun á félagslegum aðstæðum, með fyrirmynd í norrænum lífskjarakönnunum (10). Starfsmenn TR lögðu símleiðis fyrir lista með spurningum varðandi félagslegar aðstæður. Félagsvísindastofnun annaðist úrvinnslu gagnanna. Úrtakið var fengið úr skrá TR yfir öryrkja og í því voru allir sem fengu á árinu 1997 í fyrsta sinn örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri (hér eftir nefndir öryrkjar). Alls var um að ræða 1196 manns, en þegar spurningalistinn var lagður fyrir reyndust sumir vera látnir, fallnir af örorkuskrá eða vera ófærir um að svara. Alls náði könnunin þannig til 967 nýskráðra öryrkja. Spyrlar tóku skýrt fram að könnunin væri vísindalegs eðlis, að heimilt væri að neita að svara einstökum spurningum eða þátttöku í könnuninni í heild og að svör viðmælanda myndu ekki hafa nein áhrif á afgreiðslu mála hans í TR. Símakönnunin hófst í janúar 1997 og henni lauk í mars 1998. Listinn samanstóð af 51 spurningu. Hér er einungis fjallað um niðurstöður úr svörum við þriðjungi spurninganna.

Í þeim tilvikum sem upplýsingar um öryrkja eru bornar saman við upplýsingar um þjóðina á aldrinum 18-75 ára er um tölfræðilega lýsandi samanburð að ræða sem segir í hvaða mæli svarendahópur öryrkjanna er svipaður eða frábrugðinn þjóðinni allri með tilliti til viðkomandi atriða. Í þessum tilvikum voru spurningarnar sem lagðar voru fyrir öryrkjana samhljóða spurningum sem lagðar voru fyrir úrtak af þjóðinni. Ekki er með þessu verið að gera tilraun til að skýra mun milli þessara ólíku hópa, heldur einungis að lýsa dreifingu viðkomandi efnisþátta milli hópanna. Það er gagnlegt til að lýsa aðstæðum og einkennum öryrkja að gera slíkan samanburð við þjóðina í heild, en þar sem ekki eru um að ræða tilraun til að skýra muninn og því síður að meta vægi einstakra skýringarþátta, þá telst ekki ástæða til að staðla samanburðinn eftir aldri, búsetu, kyni, stétt og því um líku.

Upplýsingarnar um þjóðina sem notaðar eru koma úr þjóðmálakönnunum Félagsvísindastofnunar á árunum 1996 og 1997 og er byggt á svarendahópum úr tveimur 1500 manna úrtökum samanlögðum, þar sem gild svör eru yfirleitt á þriðja þúsund. Þjóðmálakannanir Félagsvísindastofnunar eru viðtalskannanir í síma þar sem dæmigert úrtak þjóðarinnar er spurt um ýmis þjóðmálaatriði sem nýtast bæði í hagnýtum og fræðilegum tilgangi (11). Svörun í þessum könnunum var á bilinu 65-70% og svarendahópurinn endurspeglaði þjóðina eftir kyni, aldri og búsetu með ágætum.

Svör um atvinnu voru flokkuð inn í alþjóðlegt flokkunarkerfi ISOC (ILO) eftir á af starfsfólki Félagsvísindastofnunar. Byggt var á staðfærslu Hagstofu Íslands og Félagsvísindastofnunar á ISOC kerfinu (12).

Við tölfræðilega úrvinnslu var notað kí-kvaðrats marktæknipróf (13).

Félagsvísindastofnun hefur starfsleyfi frá tölvunefnd sem felur í sér að stofnunin hefur tilkynningarskyldu um einstakar kannanir, en sérstaks leyfis var aflað frá nefndinni vegna þessarar könnunar á félagslegum aðstæðum öryrkja. Rannsóknin þótti ekki þess eðlis að ástæða væri til að óska eftir samþykki vísindasiðanefndar.



Niðurstöður

Alls náði könnunin til 967 öryrkja. Fullnægjandi svör fengust frá 671 eða 69,4%, sem telst góð svörun. Það var öryrkinn sjálfur sem svaraði spurningalistanum í 94,5% tilvika, en aðstandandi í 5,5% tilvika. Svarendur voru á aldrinum 17 til 67 ára. Meðalaldur þeirra var 49 ár (staðalfrávik 13,6). Skipting milli kynja var þannig að konur voru 63,6% og karlar 36,4% og voru konur því mun stærri hluti öryrkjahópsins en var meðal þjóðarinnar almennt, þar sem hlutfall kvenna var nálægt helmingi. Þá var meðalaldur þjóðarinnar árið 1997 tæplega 35 ár, þannig að öryrkjarnir voru að meðaltali 14 árum eldri (skriflegar upplýsingar til Stefáns Ólafssonar frá Hagstofu Íslands). Örorkulífeyrisþegar voru 330, örorkustyrkþegar 119 og endurhæfingarlífeyrisþegar 222. Um 80% svarenda voru jákvæðir í viðtalinu og um 4% neikvæðir, en 16% voru hvorki jákvæðir né neikvæðir, að mati spyrla. Tveir af hverjum þremur sögðu að þeir hefðu átt mjög auðvelt með að svara spurningunum og 26% til viðbótar sögðu það hafa verið frekar auðvelt. Einungis um 3% sögðu það hafa verið erfitt að svara spurningunum. Um 97% sögðust fúsir að taka þátt í sams konar könnun síðar meir. Þessi svör sýna að ástand öryrkjanna var almennt ekki þannig að það hamlaði framkvæmd könnunarinnar.

Í töflum I til III eru svör nýskráðu öryrkjanna borin saman við svör slembiúrtaks af Íslendingum á aldrinum 18 til 75 ára. Tölfræðilega marktækur munur (öryggismörk 0,0001) er á dreifingu hópanna í þessum töflum.

Í töflu I er borið saman menntunarstig nýskráðra öryrkja og þjóðarinnar. Samanburður á tölunum fyrir öryrkjana og þjóðina sýnir að menntunarstig öryrkjanna er mun lægra en gengur og gerist hjá þjóðinni. Stór hluti öryrkjanna hefur horfið frá námi eftir grunnskóla og tiltölulega fáir hafa lokið framhaldsnámi.

Í töflu II eru borin saman störf öryrkja og þjóðarinnar. Í fyrsta dálki töflunnar eru sýnd aðalstörf öryrkjanna eftir að skólagöngu lauk, en í öðrum dálki hvert síðasta starf var. Þriðji dálkurinn sýnir svo hvernig starfandi hluti þjóðarinnar á könnunartímanum skiptist. Nærtækast er að bera saman dálka tvö og þrjú, en með því að líta einnig til fyrsta dálksins má fá traustari mynd af starfsreynslu öryrkjanna almennt. Nýskráðu öryrkjarnir hafa mun oftar en þjóðin almennt starfað sem ófaglært verkafólk eða við sjómennsku.

Í töflu III kemur fram í hvaða atvinnugrein öryrkjarnir starfa eða störfuðu síðast. Þar má sjá athygliverðan mun á öryrkjum og þjóðinni. Öryrkjar koma í meiri mæli úr fiskveiðum og fiskvinnslu en þjóðin almennt og í minni mæli úr opinberri þjónustu og byggingariðnaði. Heldur stærri hluti öryrkja starfaði við verslun, samgöngur og þjónustu en þjóðin á árinu 1996 (14).

Tafla IV sýnir svör öryrkjanna um atvinnuþátttöku undanfarna sex mánuði og hvort þeir hafi verið í launaðri vinnu þegar spurt var. Tölfræðilega marktækur munur (öryggismörk 0,001) var á svörunum við báðum spurningunum eftir örorkubótaflokkum, en ekki eftir kyni, aldri, menntun eða fyrri störfum. Af þeim 122 sem sögðust vera í vinnu, sögðu 32 (26,2%) vinnuviku sína undanfarinn mánuð hafa verið 15 klukkustundir eða minna, 41 (33,6%) sagði vinnuvikuna hafa verið á bilinu 16-25 klukkustundir, 35 (28,7%) sögðu hana lengri en 25 klukkustundir, en 14 (11,5%) svöruðu ekki.

Spurt var hvort öryrkinn treysti sér til að vinna einhver störf nú. Þessu svöruðu 223 (33,2%) játandi, 425 (63,3%) neitandi, en 23 (3,4%) svöruðu ekki (sjá töflu V). Hér var marktækur munur á svörum eftir bótaflokkum (öryggismörk 0,001), menntun (öryggismörk 0,01) og fyrri störfum (öryggismörk 0,05), en ekki eftir aldri eða kyni.

Spurt var hvort viðkomandi hefði í síðasta starfi verið eða væri launþegi eða með sjálfstæðan atvinnurekstur. Launþegar voru 83,9%, en með sjálfstæðan rekstur 16,1%. Tölfræðilega marktækur munur var á svörum eftir kyni (öryggismörk 0,001), aldri (öryggismörk 0,01), bótaflokki (öryggismörk 0,01), menntun (öryggismörk 0,001) og fyrri störfum (öryggismörk 0,001). Hlutfall þeirra sem voru með sjálfstæðan rekstur fór vaxandi með aldri og hlutfallslega meira var um slíkan rekstur hjá körlum en konum, hjá þeim sem lokið höfðu iðnnámi miðað við annað nám og hjá iðnaðarmönnum og bændum miðað við aðrar stéttir.

Á TR lágu fyrir upplýsingar um tekjur allra skráðra öryrkja á árinu 1997. Þær höfðu verið unnar úr skattframtölum eða tekjuyfirlýsingum öryrkjanna vegna tekjutengingar örorkubótanna. Tekjur öryrkjanna voru bornar saman við upplýsingar um tekjur þjóðarinnar árið á undan. Meðaltekjur öryrkjanna voru 920.879 krónur á árinu, eða 76.740 krónur á mánuði. Meðaltekjur þjóðarinnar, það er þeirra sem voru virkir á vinnumarkaði árið 1996, voru um 137.000 krónur á mánuði (14). Ef tekið er tillit til þess að laun á vinnumarkaði hækkuðu um að jafnaði 5,4% milli áranna 1996 og 1997 (15), má áætla að meðaltekjur vinnandi Íslendinga hafi verið um 88% hærri en meðaltekjur öryrkja á þessum tíma.



Umræða

Þessi rannsókn gefur innsýn í félagslegar aðstæður nýskráðra öryrkja á Íslandi árið 1997, einkum þætti er varða atvinnu og menntun, en einnig eru settar fram vísbendingar um tekjur. Nýskráðir öryrkjar á þessu ári eru ekki dæmigerðir fyrir þýði öryrkja í landinu og því takmarkast ályktanir af rannsókninni við nýskráða öryrkja. Í þýði öryrkja er meðalaldur öryrkja væntanlega hærri en meðalaldur nýskráðra öryrkja og samsetning að öðru leyti hugsanlega önnur. Þá er ekki hægt að fullyrða að þau um það bil 30% nýskráðra öryrkja sem ekki tóku þátt í könnuninni séu eins samsett og þeir öryrkjar sem svör fengust frá. Fyrirvara verður því að setja um ályktanir gagnvart þeim hópi, en hluti þess hóps gat ekki svarað listanum af heilsufarsástæðum. Því má ætla að félagslegar aðstæður þeirra geti verið lakari en hinna sem tóku þátt í könnuninni. Líklegra er því að niðurstöður rannsóknarinnar vanmeti frávik félagslegra aðstæðna öryrkja frá aðstæðum þjóðarinnar en hið gagnstæða.

Þegar rannsóknin fór fram voru forsendur örorkumats læknisfræðilegar, félagslegar og fjárhagslegar (5,6). Áður hefur verið sýnt fram á að algengustu heilsufarslegar forsendur örorku á Íslandi eru geðraskanir og stoðkerfisraskanir (5,9). Þessi rannsókn sýnir að öryrkjar koma einkum úr hópi þeirra sem hafa litla menntun og eiga því fyrst og fremst kost á tiltölulega einhæfum og erfiðum störfum. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöðu breskra rannsókna (1,2). Þær hömlur sem öryrkjar búa við koma hér án efa oft við sögu og takmarka tækifæri og kjör, en í öðrum tilvikum verða menn öryrkjar vegna þess að þeir hafa unnið erfiðari og áhættumeiri störfin í þjóðfélaginu.

Mun minna er um að öryrkjarnir hafi aðeins unnið heima en gengur og gerist um þjóðina (sjá töflu II), þrátt fyrir að 63,6% þátttakenda úr hópi öryrkja hafi verið konur. Hugsanlegt er að rekja megi þetta til þess að heimavinnandi konur búi síður við langvarandi heilsubrest en aðrir. Ekki hefur verið gerð nein úttekt á heilsufari þessa hóps, en störf þeirra eru þess eðlis að búast má við að þær séu síður útsettar fyrir sumum af þeim sjúkdómum og slysum sem oftast leiða til örorku. Hugsanleg skýring er einnig að heimavinnandi konur sæki síður um örorkubætur en aðrir. Loks gæti þessi niðurstaða rannsóknarinnar endurspeglað tregðu tryggingalækna til að meta heimavinnandi konum örorku samkvæmt fyrirkomulagi örorkumats árið 1997. Forsendur matsins voru þá fremur óskýrar og ómarkvissar og tryggingalæknum var falið frjálst mat hvað varðar hina félagslegu þætti örorkunnar (16). Árið 1999 var forsendum örorkumatsins breytt, þannig að örorkan er nú einungis metin á læknisfræðilegum forsendum á grundvelli sérstaks örorkumatsstaðals. Eftir breytinguna varð marktæk aukning á meira en 75% örorku hjá konum (9), sem styður það að fyrra verklag við örorkumat hafi verið heimavinnandi konum óhagstætt.

Í síðasta eða núverandi starfi voru 83,9% öryrkjanna launþegar, en 16,1% með sjálfstæðan rekstur. Þetta er svipað og var meðal þjóðarinnar árið 1990 (17), en þá sögðust um 81% þeirra sem stunduðu launaða atvinnu vera launþegar. Hlutfall öryrkja sem voru með sjálfstæðan rekstur fór vaxandi með aldri og hlutfallslega meira var um slíkan rekstur hjá körlum en konum, hjá þeim sem lokið höfðu iðnnámi samanborið við annað nám og hjá iðnaðarmönnum og bændum miðað við aðrar stéttir. Þetta er áþekkt því sem var hjá þjóðinni árið 1990 (17).

Rúmlega helmingur örorkustyrkþeganna reyndist hafa verið í launaðri vinnu á síðustu sex mánuðum og 40% voru í vinnu þegar spurningalistinn var lagður fyrir. Marktækt færri örokulífeyris- og endurhæfingarlífeyrisþegar en örorkustyrkþegar voru í vinnu. Þriðjungur öryrkjanna kvaðst enn treysta sér til að vinna eitthvað, einkum ýmis létt störf. Örorkustyrkþegar treystu sér fremur til að vinna en örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Þessi munur á örorkustyrkþegum og örokulífeyris- og endurhæfingarlífeyrisþegum kemur ekki á óvart, því gera má ráð fyrir að heilsufarslegur vandi örorkustyrkþeganna sé almennt minni og skerðingarmörk örorkustyrksins vegna tekna eru hærri. Þeir sem vegna menntunar eða starfsreynslu voru líklegir til að fá léttari og sérhæfðari störf treystu sér í meira mæli til að vinna, en þeir sem einungis voru líklegir til að fá ósérhæfð og erfið störf. Meðaltekjur Íslendinga sem virkir eru á vinnumarkaði virðast vera nær tvöfalt hærri en meðaltekjur öryrkja. Laun fyrir þau störf sem helst má búast við að öryrkjum bjóðist eru hins vegar mun lægri (11). Það að laun fyrir þau störf sem öryrkjum helst bjóðast eru jafnvel lítið hærri en örorkubætur, ýtir ekki undir viljann til að halda áfram að vinna ef heilsan brestur. Því er mikilvægt að í boði sé starfsendurhæfing sem getur orðið til að auka líkurnar á því að viðkomandi fái störf sem eru hærra launuð og ekki erfiðari en svo að hann ráði við þau.

Þessi rannsókn fjallar um félagslegar aðstæður þeirra sem metnir voru til örorku skömmu fyrir gildistöku sérstaks örorkumatsstaðals 1. september 1999. Forvitnilegt væri að skoða félagslegu aðstæðurnar að nýju hjá þeim sem metnir hafa verið eftir gildistöku örorkumatsstaðalsins og bera niðurstöðurnar saman við niðurstöður þessarar rannsóknar, til að skoða vægi félagslegra þátta fyrir og eftir gildistöku staðalsins.



Heimildir



1. Bartley M, Owen C. Relation between socioeconomic status, employment, and health during economic change, 1973-93. BMJ 1996; 313: 445-9.

2. North F, Syme SL, Feeney A, Head J, Shipley MJ, Marmot MG. Explaining socioeconomic differences in sickness absence: the Whitehall II study. BMJ 1993; 306: 361-6.

3. Kaiser PO, Mattsson B, Marklund S, Wimo A. The impact of psychosocial "markers" on the outcome of rehabilitation. Disability and Rehabilitation 2001; 23: 430-5.

4. Selander S. Unemployed sick-leavers and vocational rehabilitation - a person-level study based on a national social insurance material [dissertation]. Stockholm: Karolinska institutet; 1999.

5. Thorlacius S, Stefánsson S, Ólafsson S. Umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996. Læknablaðið 1998; 84: 629-35.

6. Thorlacius S, Stefánsson S, Ólafsson S, Rafnsson V. Breytingar á algengi örorku á Íslandi 1976-1996. Læknablaðið 2001; 87: 205-9.

7. Lög um almannatryggingar nr. 117/1993.

8. Lög um félagslega aðstoð nr. 118/1993.

9. Thorlacius S, Stefánsson S, Jóhannsson H. Örorkumat fyrir og eftir gildistöku örorkumatsstaðals. Læknablaðið 2001; 87: 721-3.

10. Ólafsson S. Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum. Reykjavík: Iðunn; 1990.

11. Kjör Íslendinga: Efnahagur einstaklinga og fjölskyldna 1996. Reykjavík: Félagsvísindastofnun; 1997.

12. Íslensk starfaflokkun (ÍSTARF 95). Reykjavík: Hagstofa Íslands; 1995.

13. Bland M. An Introduction to Medical Statistics. Oxford: Oxford University Press; 1995.

14. Bls. 16 í (11).

15. Þjóðarbúskapurinn: Framvindan 1997 og horfur 1998. Reykjavík: Þjóðhagsstofnun; 1997: 26.

16. Ríkisendurskoðun. Læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins. Stjórnsýsluendurskoðun. Reykjavík: Ríkisendurskoðun; 1997: 30.

17. Ólafsson S. Lífskjör og lífshættir á Íslandi: Reykjavík: Félagsvísindastofnun og Hagstofa Íslands; 1990: 67.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica