Umræða fréttir

Aðalfundur Læknafélags Íslands. Stríðsöxin grafin formlega í friði og spekt

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn í aðalstöðvum félagsins í Hlíðasmára í Kópavogi dagana 12. og 13. október. Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði og hans verður tæpast minnst fyrir nein stórtíðindi. Það væri þá helst að þar var formlegur endir bundinn á deilu félagsins við Íslenska erfðagreiningu ehf. vegna fyrirhugaðs gagnagrunns á heilbrigðissviði.

Nýr heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson úr Framsóknarflokki, ávarpaði aðalfundargesti í upphafi fundar og gafst fundarmönnum kostur á að leggja fyrir hann nokkrar fyrirspurnir að ávarpinu loknu. Meginefni ávarps ráðherra var helgað frumvarpi til laga um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar sem nefnt hefur verið Samninganefndarfrumvarpið. Þetta frumvarp lék nokkurt hlutverk á fundinum þótt það hefði enn ekki verið lagt formlega fram á Alþingi. Ráðherra gerði það að umtalsefni og á málþingi sem haldið var morguninn eftir kynntu fulltrúar hans úr ráðuneytinu efni þess en þá án þess að því væri dreift. Fundarmenn áttu því í nokkrum erfiðleikum að tjá sig um efni þess og bar umræðan keim af því.

Auk þess að ræða um þetta frumvarp fagnaði ráðherra því að LÍ og Íslensk erfðagreining skyldu hafa "grafið stríðsöxina" í samskiptum sínum vegna gagnagrunns á heilbrigðissviði. Einnig fór ráðherra nokkrum orðum um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og þá umræðu sem á sér stað um þau. Þar tíundaði hann ýmsar röksemdir sem hann sagði að vildu oft gleymast í hita leiksins en sagði svo:

"Nú má alls ekki skilja orð mín svo að ég sé einhver andstæðingur einkarekstrar í sjálfu sér. Það er ég alls ekki, enda stuðningsmaður þess að mörgu leyti ágæta fyrirkomulags sem er nú ríkjandi hjá okkur í heilbrigðisþjónustunni. Þar er að finna umfangsmikinn einkastofurekstur sem þrífst ágætlega sýnist mér við hlið heilsugæslunnar og sjúkrahúsanna, en ég er með orðum mínum að árétta að ég er andsnúinn einkarekstri þar sem hætta er á að hagsmunum tiltekinna þjóðfélagshópa sé fórnað á altari sérhagsmuna.

Að mínum dómi verður að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna þannig að fyrst og síðast sé gengið út frá hagsmunum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég fullyrði að það er enginn pólitískur vilji fyrir því að breyta íslenskri heilbrigðisþjónustu þannig, að sá meirihluti skjólstæðinga ykkar sem ég nefndi hér að framan
[það er, börn, aldraðir og öryrkjar, Lbl.] þurfi að fara að kaupa sér einkatryggingar til að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það gagnast mér hins vegar prýðilega pólitískt að þessi mál skuli nú vera í brennipunkti því ég finn vel hvaða hljómgrunn sjónarmiðin sem ég hef gert hér að umræðuefni eiga meðal almennings."Blómlegt bú

Að ávarpi heilbrigðisráðherra loknu var gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa. Fluttar voru skýrslur um hag og starfsemi félagsins, Læknablaðsins og hinna ýmsu sjóða. Allt var þar með mesta blóma, hagnaður af rekstri félagsins og blaðsins, auk þess sem sjóðir félagsins standa vel. Það var einna helst að Lífeyrissjóður lækna hefði orðið fyrir nokkrum hremmingum vegna sviptinga á verðbréfamörkuðum en þó ekki svo að þær ógnuðu sjóðnum. Á móti verðfalli innlendra hlutabréfa vóg gengislækkun krónunnar sem leiddi til þess að tekjur af erlendum verðbréfum jukust.

Að afloknum skýrsluflutningi og umræðum um hann skiptu fundarmenn sér í hópa sem ræddu framkomnar tillögur til ályktana og lagabreytinga. Um kvöldið var svo farið í heimsókn í Nesstofu þar sem fundarmenn nutu veitinga í boði félagsins.

Á laugardagsmorgni hófust fundarhöld á málþingi sem nánari grein er gerð fyrir á öðrum stað í blaðinu. Umræður voru reyndar svo líflegar að málþingið stóð hálfri annarri klukkustund lengur en áætlað var. Eftir hádegi tóku menn til við að afgreiða lagabreytingar en undir þeim dagskrárlið voru þrjú mál á dagskrá. Eitt þeirra snerist um að staðfesta aðild Læknafélags Vestmannaeyja að LÍ, annað um breytingu á nafni Orlofsheimilasjóðs í Orlofssjóð LÍ en sú þriðja um að fella brott ákvæði um Gerðardóm LÍ en til hans hefur verið hægt að áfrýja niðurstöðum Siðanefndar LÍ. Einnig voru samþykktar nýjar reglur um Siðanefnd. Þessi breyting var kynnt á formannaráðstefnu LÍ síðastliðið vor en hún felur í sér að reglur og verklag Siðanefndar er fært til samræmis við þróun sem orðið hefur á stjórnsýslulöggjöf í landinu. Voru allar þessar lagabreytingar samþykktar án mikillar umræðu.

Var þá komið að ályktunum og voru menn hinir spökustu í umræðum um þær. Það sem sætir kannski mestum tíðindum er eins og áður segir að endir var bundinn með formlegum hætti á deilur LÍ og Íslenskrar erfðagreiningar ehf. Það gerðist þannig að fundurinn samþykkti með samhljóða atkvæðum að staðfesta samkomulag það sem stjórn félagsins gerði við Íslenska erfðagreiningu og undirritað var með fyrirvara 27. ágúst síðastliðinn og birt var í septemberhefti Læknablaðsins (Læknablaðið 2001; 87: 731).Tveir nýir stjórnarmenn

Loks var gengið til stjórnarkjörs en tveir stjórnarmanna, Eyþór Björgvinsson gjaldkeri og Helgi H. Sigurðsson meðstjórnandi, óskuðu ekki eftir endurkjöri. Í þeirra stað voru kjörin þau Birna Jónsdóttir gjaldkeri og Páll H. Möller meðstjórnandi. Stjórn félagsins er því þannig skipuð starfsárið 2001-2002:Sigurbjörn Sveinsson formaður

Jón G. Snædal varaformaður

Hulda Hjartardóttir ritari

Birna Jónsdóttir gjaldkeri

Páll Helgi Möller

Sigurður Kr. Pétursson

Þórir Björn Kolbeinsson
fulltrúi FÍH

Sigurður Björnsson fulltrúi SÍL

Jón M. Kristjánsson fulltrúi FULEndurskoðandi félagsins er eftir sem áður Einar H. Jónmundsson en til vara Þengill Oddsson.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica