Umræða fréttir

Bréf stjórnar LÍ vegna úttektar Ríkisendurskoðunar á launagreiðslum til lækna

Vegna úttektar Ríkisendurskoðunar á launagreiðslum til lækna bað Guðmundur Ingi Eyjólfsson stjórn Læknafélags Íslands að athuga lögmæti þess að stofnunin færi fram á upplýsingar um greiðslur til lækna sem unnu fyrir Læknasetrið og Rannsóknastofuna í Mjódd. Stjórn LÍ fjallaði um málið 18. september og sendi síðan eftirfarandi bréf til Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Halldórs Blöndal forseta Alþingis og Sigurðar Þórðarsonar ríkisendurskoðanda:



"Í inngangi að skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í júlí í sumar um greiðslur opinberra aðila til lækna á árinu 2000 kemur fram að tilefni hennar hafi verið ósk heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um að stofnunin gerði sérstaka úttekt á heildarfyrirkomulagi launagreiðslna til lækna. Ríkisendurskoðun hafi orðið við þessu erindi ráðuneytisins en stofnunin gerði samskonar úttekt árið 1993 að ósk ráðuneytisins.

Tekjur lækna koma að langmestu leyti úr ríkissjóði, sem launagreiðslur á sjúkrastofnunum og heilsugæslustöðvum og samkvæmt reikningum til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli samninga sérfræðilækna við stofnunina. Heildarkostnaður ríkis-sjóðs að þessu leyti er þekktur og áætlaður í fjárlögum hvers árs.

Úttekt Ríkisendurskoðunar á heildarfyrirkomulagi launagreiðslna til lækna var vinnsla persónuupplýsinga um einkamálefni einstakra lækna, þar sem tekjur lækna voru sundurliðaðar á kennitölu þeirra, eftir sérgreinum, milli sjúkrastofnana og hvernig laun lækna skiptast eftir starfstöðvum þeirra. Vafasamt er að það standist lög að læknar ein starfstétta í landinu sæti þannig sérstakri persónugreinanlegri skoðun og eftirliti Ríkisendurskoðunar eftir hentisemi framkvæmdavaldsins.

Verkefni Ríkisendurskoðunar eru skilgreind í lögum. Þar sem Ríkisendurskoðun upplýsir að umrædd úttekt hafi verið unnin að beiðni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins vakna efasemdir um að hún hafi verið unnin vegna verkefna sem Ríkisendurskoðun eru falin í lögum.

Persónuvernd hefur tekið þá afstöðu til erindis, sem félagsmaður í Læknafélagi Íslands vísaði til Persónuverndar vegna þessarar úttektar, að falli umrædd úttekt á tekjum lækna utan þeirra verkefna sem Ríkisendurskoðun eru falin með lögum um Ríkisendurskoðun, þá sé rökstuðningur Ríkisendurskoðunar fyrir vinnslunni ófullnægjandi með vísan til laga um Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Því er nauðsynlegt að vafa um lögmæti úttektar á tekjum einstakra lækna verði aflétt með því að Ríkisendurskoðun leiti úrskurðar héraðsdóms skv. lögum um Ríkisendurskoðun, um ágreining sem uppi er við fyrrgreindan félagsmann í Læknafélagi Íslands varðandi skoðunarheimild stofnunarinnar skv. lögum.

Stjórn Læknafélags Íslands leggur áherslu á það gagnvart heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun, sem starfar á vegum Alþingis, að vafa um lögmæti hinnar sérstöku úttektar á heildarfyrirkomulagi launagreiðslna til einstakra lækna að beiðni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verði eytt.



Kópavogi 18. september, 2001.

Virðingarfyllst f.h. stjórnar Læknafélags Íslands



Sigurbjörn Sveinsson formaður"

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica