Umræða fréttir

Hinir gleymdu sjúkdómar. Loftfélagið, áhugafólk um öndun

Loftfélagið, áhugafólk um öndun, nefnist samstarfsverkefni sem vinnuhópur á vegum landlæknisembættisins, tóbaksvarnarnefndar, Félags lungnahjúkrunarfræðinga og GlaxoSmithKline hefur hrundið af stað. Meðal þess sem samstarfsverkefnið beinist að er endurnýjun blástursmælitækja (spirometry) á heilsugæslustöðvum um land allt. Ört vaxandi tíðni lungnasjúkdóma, sér í lagi langvinnrar lungnateppu, kallar að mati samstarfsaðilanna á víðtækt samstarf innan heilbrigðiskerfisins. Talið er að 16.000 til 18.000 manns þjáist af völdum langvinnrar lungnateppu hér á landi.

Orsökin fyrir því að tíðni langvinnrar lungnateppu hefur aukist, er aðallega sú að fjölmennir árgangar áranna 1930 til 1965 eru að færast upp aldursstigann, en reykingar hafa verið nokkuð útbreiddar meðal þeirra. Um 90% þeirra sem þjást af völdum sjúkdómanna eru reykingamenn.

Haldi fram sem horfir er talið að langvinnir lungnateppusjúkdómar verði þriðja algengasta dánarorsökin hér á landi á næstu 20 árum. Jafnframt má gera ráð fyrir því að öryrkjum af völdum þeirra fjölgi. Í dag eru þeir 12. algengasta orsök örorku hér á landi en að öllu óbreyttu mun langvinn lungnateppa verða fimmta algengasta orsök örorku.

Þessir illvígu sjukdómar eru í sókn víðast hvar í heiminum um þessar mundir. Af þeim sökum var ýtt úr vör í apríl síðastliðnum alþjóðlega átakinu COPD-GOLD, sem miðar að því að auka vitund jafnt heilbrigðisyfirvalda sem almennings á þessum vaxandi vanda. Langvinnir lungnateppusjúkdómar hafa meðal annars verið nefndir "hinir gleymdu sjúkdómar" sökum þess hversu mjög þeir hafa orðið útundan í vitund almennings.

Fyrir tilstuðlan Loftfélagsins munu alls 26 heilsugæslustöðvar, eða um þriðjungur allra heilsugæslustöðva, fá ný blástursmælitæki af gerðinni Spiro 2000 til eignar. Straum af kostnaði við kaup á tækjunum stendur GlaxoSmithKline, en fyrirtækið mun ásamt öðrum aðilum vinnuhópsins fylgja afhendingunni eftir meðal annars með útgáfu fræðsluefnis og með kynningarfundum, þar sem starfsfólki heilsugæslustöðvanna gefst kostur á að kynna sér tækin. Heilsugæslustöðvarnar voru valdar í samráði við landlækni, að lokinni athugun á tækjakosti heilsugæslustöðva á landinu til blástursmælinga.

Vonir standa til að hin nýju tæki muni, ásamt fræðslu- og upplýsingastarfi Loftfélagsins, verða til þess að lungnaeftirlit með blástursmælingum verði að föstum lið innan heilsugæslunnar. Helsti vandinn sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir samfara aukinni tíðni langvinnra lungnateppusjúkdóma er, hversu seint á sjúkdómsferlinu þeir greinast, með þeim afleiðingum að fáum úrræðum er til að dreifa.

Jafnframt bendir Loftfélagið á að með reglubundnum blástursmælingum megi auka til muna tiltækar upplýsingar um ástand lungnaheilbrigðis hverju sinni, sem aftur mun gera ákvarðanir innan heilbrigðiskerfisins á þessu sviði markvissari en ella.

Úr fréttatilkynningu

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica