Umræða fréttir

Íðorð 137. Sjúkraskrá

Runólfur Pálsson, lyflæknir, hafði samband og sendi síðan greinargott tölvubréf með nokkrum erindum. Fyrst segir hann: "Mig langar að koma af stað umræðu um íslensk heiti fyrir skráningu klínískra upplýsinga af ýmsu tagi en þó einkum af hálfu lækna. Við höfum aðeins rætt þetta áður á förnum vegi. Orðið "journall", sem notað hefur verið yfir upplýsingar sem læknir skráir með kerfisbundnum hætti við innlögn, gengur alls ekki í okkar tungumáli. Enn fremur hefur íslenska orðið "sjúkraskrá" verið notað yfir þetta, en gengur að sjálfsögðu ekki þar sem það hugtak hefur mun víðtækari merkingu, þ.e. öll sjúkragögn viðkomandi sjúklings."



Journal

Áður en lengra er haldið er rétt að vekja athygli á nafnorðinu journal, sem birtist í íslensku læknaslangi sem "sjúrnall". Þetta orð finnst ekki í Íðorðasafni lækna né í neinni af þeim ensk-amerísku læknisfræðiorðabókum sem undirritaður notar venjulega við íðorðavinnu sína. Í almennri franskri orðabók er orðið þýtt sem dagblað, dagbók, enda merkir franska nafnorðið jour dagur. Það hefur einnig verið tekið upp í dönsku og Dönsk-íslensk orðabók Freysteins Gunnarssonar birtir merkingarnar dagbók, tímarit. Hin mikla alfræðilega orðabók Websters tilgreinir merkingar orðsins journal, eins og það er notað í ensku. Ekki er þar einu orði minnst á sjúkraskrá, heldur tilgreindar merkingarnar dagbók (manns) gerðabók (lögaðila), fundabók (félags), leiðarbók (skips), dagblað og tímarit. Undirritaður minnist þess heldur ekki frá sérnámsárum sínum í Bandaríkjunum að orðið journal hafi verið notað sem heiti á sjúkraskrá. Þegar það orð kom fyrir í daglegu tali lækna eða á fundum var ávallt verið að vísa í fræðilegt tímarit. Sjúkraskráin var nefnd medical eða clinical record.

Hvaðan er slanguryrðið sjúrnall komið inn í íslenskt læknamál? Undirritaður hefur þá tilgátu að upphaflega hafi orðið journal verið notað um dagbók sem færð var vegna sjúklinga á sjúkrastofnun eða hjá lækni, en síðan hafi merkingin færst yfir á allar þær upplýsingar sem geymdar voru um hvern sjúkling, sjúkraskrárnar. Rétt er að benda á að Runólfur virðist nota heitið í enn þrengri merkingu, það er að segja einungis um þann hluta sjúkraskrárupplýsinganna sem safnað er af lækni við innlögn sjúklings. Sé þörf á slíkri afmörkun er sjálfsagt að reyna að finna lipurt íslenskt heiti.

Undirrituðum finnst þó ekkert því til fyrirstöðu að heitið sjúkraskrá geti haft tvær skyldar merkingar: 1. heildarsafn sjúkragagna ákveðins sjúklings hjá heilbrigðisstofnun eða -starfsmanni; 2. þær sjúkdóms- og heilbrigðisupplýsingar sem safnað er við innlögn eða við komu á heilbrigðisstofnun.

Að taka sjúrnal!

Þessi samsetning "að taka sjúrnal" hefur lengi verið notuð um þá athöfn læknis að ræða við sjúkling um veikindi hans og heilsufar, yfirheyra hann og skoða til að geta safnað fyrrgreindum fyrstu upplýsingum í sjúkraskrársafnið. Þarna þarf einnig að finna íslenskt orðalag til að kasta megi slanguryrðinu "sjúrnall" út í hafsauga.

Gaman væri nú að heyra frá læknum sem telja að þessi fyrsti hluti sjúkraskrárinnar þarfnist heitis.



Dagáll

Ekki er hægt að skilja við þessa umræðu án þess að nefna heitið dagáll. Samkvæmt Orðabók háskólans kemur það fyrst fyrir í ritsafni Vilmundar Jónssonar, Lækningar og saga: "Meira varðaði, sem sjá má af dagálum (journölum) Borgarspítalans, að þar hafði þegar um haustið verið borið við að nota karbólsýru við sár, en auðsjáanlega fyrst í stað með hangandi hendi, -" Undirrituðum finnst líklegra að Vilmundur sé þarna að vísa í "journala" í hinni upprunalegu merkingu, dagbækur spítalans, en að hann sé að vísa í sjúkraskrár einstakra sjúklinga. Dagáll kemur fyrir á einum stað í Íðorðasafni lækna og virðist samheiti á sjúkraskrá, clinical record. Undirrituðum finnst þetta óheppilegt og leggur til að horfið sé aftur til upprunans og að dagáll og fleirtalan dagálar vísi í dagsettar færslur í sjúkraskrá sjúklings, hvort sem þær eru færðar daglega eða sjaldnar.



Nóta

Runólfur hafði fleira fram að færa: "Á lyflækningadeildum LSH höfum við notað orðið "nóta" í ýmsum samsetningum eftir því hvað við á hverju sinni. Innlagnarnóta kemur þannig fyrir journal. Aðrar nótur eru m.a. dagnóta, aðgerðarnóta, útskriftarnóta og göngudeildarnóta."

Undirritaður tjáði Runólfi strax að hann væri ekki sáttur við heitið "nóta". Fyrir því voru þau rök helst að hér væri um danska slettu að ræða, samanber danska sagnorðið notere, að skrifa sér til minnis, og nafnorðin notering, minnisgrein, og noterbog, minnisbók. Upphaflega er orðið þó komið úr miðaldalatínu þar sem nota þýðir merki eða tákn, og vera má að nótan sé komin þá leiðina inn í íslenskuna. Mörg dæmi eru til í ritmálssafni Orðabókar háskólans um notkun orðsins í gömlum textum, þau fyrstu frá sextándu öld. Oftast er verið að vísa í tóntákn eða söngmerki, en einnig í merki, athugasemd eða neðanmálsgrein. Þetta dugir þó ekki til að sætta undirritaðan við orðið "nóta" í þeim samsetningum sem Runólfur tilgreinir. Lausnir undirritaðs eru: sjúkraskrá, dagáll, aðgerðarlýsing, útskriftarlýsing og göngudeildarfærsla.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica