Umræða fréttir

Faraldsfræði í dag 11. Sjúklingasamanburðarrannsóknir IV

Söfnun gagna

Áður en nokkur gagnasöfnun hefst er nauðsynlegt að skilgreina nákvæmlega sjúkdómstilfellin (cases) og samanburðarhópinn (controls) eins og fjallað hefur verið um í fyrri pistlum um sjúklingasamanburðarrannsóknir (SSR). Síðan er safnað upplýsingum um áreitið, áhættuþáttinn eða hugsanlega orsök sjúkdómsins annars vegar en um útkomuna eða sjúkdóminn og birtingarform hans hins vegar. Einnig þarf yfirleitt að safna gögnum um raskandi þætti (confounders) og þætti sem geta valdið milliverkunum (effect modification, interaction). Meginniðurstöður sjúklingasamanburðarrannsókna felast síðan í samanburði á tíðni áreitisins meðal þeirra sem hafa sjúkdóminn og hinna sem hafa hann ekki.

Upplýsingum um sjúkdómsástand er oft safnað úr fyrirliggjandi skrám, svo sem um krabbamein og atvinnusjúkdóma. Í slíkum skrám er yfirleitt að finna nokkuð greinargóð gögn um sjúkdóminn, svo sem sjúkdómsgreiningu, útbreiðslu eða stig sjúkdóms, og jafnvel meðferð og árangur eða afdrif sjúklingsins. Hins vegar innihalda skrárnar almennt ekki upplýsingar um áreiti eða orsakir sjúkdómsins eða um aðra þætti sem geta haft áhrif á tilurð og framgang sjúkdómsins.

Ef ekki eru til sérstakar skrár um þann sjúkdóm sem rannsóknin beinist að þarf að leita annarra ráða. Þannig má nota dánarvottorð, vottorð til Tryggingastofnunar, og fleiri skjöl af svipuðum toga til að bera kennsl á einstaklinga sem hafa sjúkdóminn og afla nauðsynlegra gagna um hann. Hið sama gildir þó hér eins og um upplýsingar úr sjúkdómaskrám að alla jafna er þar aðeins að finna upplýsingar um sjúkdóminn eða útkomuna en ekki upplýsingar um áreiti eða hugsanlega áhættuþætti.

Í sumum tilvikum er nauðsynlegt að skoða sjúklingana sérstaklega eða gera ákveðnar rannsóknir eða mælingar til að afla upplýsinga um sjúkdóminn sem tiltekin sjúklingasamanburðarrannsókn beinist að.

Söfnun upplýsinga um áreiti eða orsakir sjúkdómsins krefst yfirleitt sérstakrar gagnaöflunar þar sem slíkar upplýsingar eru að jafnaði ekki skráðar í sjúkraskýrslur eða sérstakar sjúkdómaskrár. Þó eru undantekningar á því, svo sem ef áhættuþátturinn eða áreitið er algengt og þekkt að því að hafa áhrif á heilsufar eða ef áreitið tengist heilsu eða heilbrigðisþjónustu. Upplýsingar um slík áreiti eða áhættuþætti, til dæmis reykingar, blóðflokk eða tiltekna lyfjameðferð, er gjarnan að finna í sjúkraskrám. Eins má finna upplýsingar um suma starfstengda áhættuþætti í sérstökum skrám. Sem dæmi má nefna mælingar á geislun starfsmanna á röntgendeildum.

Þó áreitið sé ekki beinlínis tengt heilsufari eða heilbrigðisþjónustu getur verið mögulegt að finna um það upplýsingar í skrám eða skjölum, svo sem skýrslum atvinnurekenda um vinnutíma starfsmanna (til dæmis flugtímar hjá flugmönnum) eða skýrslum fyrirtækja (til dæmis farsímanotkun einstaklinga).

Þegar engar slíkar skrár eru fyrir hendi þarf að afla upplýsinga sérstaklega um áreitið bæði meðal sjúkdómstilfella og samanburðareinstaklinga. Slíkt má gera með ýmsum hætti, til dæmis með því að nota spurningalista eða viðtöl. Ekki er alltaf mögulegt eða æskilegt að safna upplýsingunum beint frá þátttakendum sjálfum, stundum er þeim aflað frá staðgenglum (proxies), sem oftast eru aðstandendur þátttakenda, eða frá læknum og öðru heilbrigðisstarfsólki sem annast hafa þátttakendur.

Grundvallaratriði við gagnasöfnun í sjúklingasamanburðarrannsóknum, óháð því hvaða aðferð er beitt, er að safna gögnunum með sama hætti meðal beggja hópanna. Ef þessa er ekki gætt getur það valdið skekkju í upplýsingunum (information bias) og þar með skekkju í niðurstöðunum.

Upplýsingaskekkja getur átt sér margar rætur og er nokkuð misjafnt eftir eðli hverrar sjúklingasamanburðarrannsóknar hver þeirra er mikilvægust. Skekkjan getur átt rót sína að rekja til þess hvernig spurningar eru lagðar fyrir þátttakendur, hvernig spyrjendur eða aðrir sem safna gögnum eru þjálfaðir og hve mikið þeir vita um sjúkdóminn, einnig getur skekkjan stafað af upplifun og hugmyndum þátttakenda um sjúkdóminn. Nokkur dæmi eru rakin hér á eftir.

Minnisskekkja (recall bias) vísar til þess að sjúkdómur getur haft áhrif á hve vel einstaklingar muna eftir áreitinu. Fyrir því geta verið líffræðilegar orsakir, svo sem ef um minnistap eða elliglöp er að ræða, eða aðrar orsakir, til dæmis verður sjúkdómur stundum til þess að fólk reynir eftir mætti að rifja upp alla atburði sem það telur geta tengst sjúkdómnum. Frásagnarskekkja (reporting bias) er svipað fyrirbæri en á við þegar fólk kýs að segja frá reynslu sinni af áreitinu á annan hátt ef það hefur sjúkdóminn en ef það hefur hann ekki. Einkum er hætt við þessu ef áreitið er tengt hegðun sem álitin er óæskileg eða jafnvel ólögleg, svo sem neysla fíkniefna.

Spyrilskekkja (interviewer bias) verður til ef sá sem aflar upplýsinga um áreitið gerir það á mismunandi vegu eftir því hvort um sjúkdómstilfelli eða samanburðareinstakling er að ræða. Slík skekkja getur komið fram hvort sem notaður er spurningalisti, viðtal, eða leit í sjúkraskrám til að afla upplýsinga. Því er jafnan lögð áhersla á að þeir sem safna gögnum um áreiti viti ekki hvort viðkomandi þátttakandi hefur sjúkdóminn eða ekki (talað er um að blinda rannsakendur).

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica