Umræða fréttir

Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir

Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FKB) voru stofnuð árið 1992. Fjölmargir aðilar stóðu að stofnun samtakanna, bæði einstaklingar og félög, svo sem Ljósmæðrafélagið, Kvenréttindafélagið, Heimili og skóli, Félag lyfjafræðinga og Kvensjúkdómalæknafélagið. Meðlimir eru nú komnir á fjórða tuginn. Fræðslusamtökin eru hluti af IPPF (International Planned Parenthood Federation) og fullgildir meðlimir frá árinu 1995 en samtökin eru næststærstu frjálsu félagasamtök í heiminum á eftir Rauða krossinum. Alþjóðasamtökin eru samtök fjölskyldufélaga alls staðar að úr heiminum og hafa starfað frá því á sjötta áratugnum. Læknar hafa verið framarlega í flokki þeirra sem eiga aðild að samtökunum og sama máli gegnir um aðrar heilbrigðisstéttir, einkum hjúkrunarfræðinga og ljósmæður. Til að fræðast um félagið og hlutverk lækna í starfsemi þess, heimsótti Læknablaðið Ósk Ingvarsdóttur fæðinga- og kvensjúkdómalækni á Heilsuverndarstöðina, en þar hefur félagið meðal annars fengið inni fyrir bókasafn sitt. Ósk er varaformaður Fæðslusamtakanna og hefur verið það frá stofnun. Núverandi formaður er Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi og alþingiskona en fyrsti formaður félagsins var Sóley Bender lektor í hjúkrunarfræði.

Það var ekki síst fyrir tilstilli og áhuga Sóleyjar Bender að Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir voru stofnuð hér á landi. Hún hafði kynnt sér starf alþjóðasamtakanna, IPPF um nokkurt skeið og sótt fundi Evrópudeildar samakanna í nokkur ár. Stofnfundur samtakanna var geysivel sóttur og ljóst að margir töldu að sinna þyrfti þessum málaflokki mun betur en gert hafði verið fram til þess tíma. Samtökin hafa allt frá stofnun haft einn eða tvo lækna í stjórn. Strax í upphafi komu þeir að stefnumótunarvinnu og hafa alla tíð sýnt fræðslu og kynningarþætti samtakanna áhuga. Frá árinu 1975 hafa verið í gildi Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemiaðgerðir. Mörgum hefur þótt fræðsluþáttur þessara laga hafa orðið nokkuð útundan. Með stofnun Fræðslusamtakanna hefur málaflokkurinn verið tekinn mun fastari tökum en fyrr.

Starfsemi FKB er fjármögnuð af styrkjum frá ríki og borg og að einhverjum hluta einnig af félagsgjöldum. Samtökin eru byggð upp af sjálfboðaliðunum og ekki rekið með hagnað í huga, heldur fara allir fjármunir í starfsemi sem tengist beint markmiðum samtakanna.

Margvísleg útgáfa

Hlutverk Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir er sem fyrr segir fyrst og fremst að standa fyrir fræðslu um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir. Því hlutverki hafa samtökin sinnt bæði með námskeiðum og fundum auk ráðgjafar og útgáfustarfsemi af ýmsu tagi. Samtökin gefa út fréttabréf sem kemur út tvisvar á ári þar sem fjallað er um margvísleg málefni. Meðal þess sem hefur verið tekið fyrir í fréttabréfunum eru neyðargetnaðarvarnir, kynsjúkdómar, kynlífsréttindi og kynheilbrigði en það hugtak vilja samtökin kynna sem víðast. Allir félagsmenn fá fréttabréfið auk þess sem því er dreift á allar heilsugæslustöðvar, félagsmiðstöðvar og til ýmissa ráðamanna og stofnana. Markmið með útgáfunni er meðal annars að kynna starf félagsins og nýja málaflokka og viðhorf sem tengjast kynlífi og barneignum. Auk þess hafa samtökin staðið fyrir útgáfu ýmissa bæklinga, til dæmis bæklings um neyðargetnaðarvörn. Mikilvægur þáttur í starfseminni er þátttaka í alþjóðastarfi og Evrópustarfi þar sem Íslendingar eru bæði þiggjendur og veitendur. Fjölmargir hafa sótt fundi erlendis á vegum þeirra, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, þar á meðal læknar. Sérstakir fundir hafa verið á vegum alþjóðasamtakanna fyrir ákveðna hópa, til dæmis ungt fólk og þingkonur og hafa Fræðslusamtökin séð um að senda fulltrúa úr þeim hópum.



Áhersla á unga fólkið

Fræðslusamtökin hafa á tiltölulega stuttum starfstíma komið mjög víða við. Frá upphafi hefur athyglinni verið beint mjög markvisst að því að fræða ungt fólk um kynlíf og getnaðarvarnir. Markmiðið er að ungt fólk sé vel upplýst og geti þannig tekið sjálfstæðar ákvarðanir um getnaðarvarnanotkun og barneignir. Í fyrsta fréttabréfi FKB (1995) voru birtar tölur sem meðal annars sýndu muninn milli Norðurlandanna á aldri mæðra. Þar kom fram að unglingsmæður, undir 20 ára aldri, voru 5,1% mæðra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum var hlutfallið miklu lægra eða frá 2,3% upp í 3,4% (1994). Enn er staðan mikið til sú sama. Fjöldi ungra mæðra undir 20 ára var um 240 árið 1994 og er um 250 árið 1999. Þunganir stúlkna í þessum aldurshópi voru um 500, helmingi þeirra lauk með fóstureyðingu. Nýleg rannsókn Sóleyjar Bender: Viðhorf íslenskra ungmenna til skipulegrar fræðslu og þjónustu vegna kynlífs og barneigna, sýnir að enn er verk að vinna varðandi fræðslu til ungs fólks um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir. Meðalaldur unglinga við fyrstu kynmök er 15,4 ár en aðeins 60% þeirra nota getnaðarvarnir þá. Í rannsókn Sóleyjar kom einnig fram að unglingar standa nokkuð misjafnlega að vígi eftir búsetu, þeir sem búa í strjálbýli eiga erfiðara með að nálgast getnaðarvarnir en unglingar í þéttbýli. Allir þekkja alla í smábæjum og unglingar veigra sér því við að útvega sér getnaðarvarnir. Það er helst að ungt fólk treysti sér til að leita til skólahjúkrunarfræðinganna, sem hafa verið geysilega áhugasamir í starfi félagsins. Unga fólkið sem mest þyrfti á fræðslu, ráðgjöf og getnaðarvörnum að halda er þó oft hætt í skóla og jafnvel byrjað að búa án þess að hafa nokkurn tímann fengið almennilega ráðgjöf.

Leiðirnar til að nálgast unga fólkið eru margvíslegar. Læknanemar á öðru ári, sem sérstaklega hafa menntað sig á þessu sviði, sinna kynfræðslu fyrir ungt fólk, bæði í skólum og félagsmiðstöðvum. Starf þeirra hefur gefið mjög góða raun. Þeir hafa sett upp heimasíðuna www.forvarnir.com og er þar margvíslegt fræðsluefni auk möguleika til að fá svör við innsendum spurningum. Fræðslusaamtökin eru einnig með heimasíðu, www.fkb.is og er hægt að finna þar áhugaverðar tengingar, ýmislegt um starfsemi félagsins auk umsóknareyðublaðs fyrir þá sem vilja ganga í samtökin.

Fleiri leiðir hafa verið nýttar til að koma fræðslu til ungs fólks. Meðal annars hefur fulltrúi frá Félagi framhaldsskólanema setið í stjórn FKB og mynduðust þá góð tengsl við þann aldurshóp.



Hitt húsið kemur til sögunnar

Í ágúst 1995 fengu Fræðslusamtökin aðstöðu í Hinu húsinu á horni Aðalstrætis og Vesturgötu í Reykjavík (gamla Geysishúsinu). Þar var opnuð ráðgjöf fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára. Þar er boðið upp á fræðslu og ráðgjöf fyrir ungt fólk um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir og hægt er að fá neyðargetnaðarvörn ef þörf er á. Í upphafi var þarna um að ræða móttöku með viðtölum, símaráðgjöf og sameiginlegri verkefnavinnu. Opið var einu sinni til tvisvar í viku, fjóra tíma í senn, en með breyttri starfsemi Hins hússins er ráðgjafi á vegum Fræðslusamtakanna alltaf tiltækur á bakvakt og samið er um viðtalstíma eftir hentugleikum. Samtökin fengu herbergi til afnota í Hinu húsinu og var það innréttað mjög ólíkt hefðbundnum læknastofum. Hugmyndirnar komu flestar frá unga fólkinu sjálfu. Lýsingin er dempuð, í dökku loftinu er jólasería eða skreyting sem minnir á stjörnubjartan himin en á gólfinu eru notaleg antíkhúsgögn.



Vaxandi umsvif

Aðstaðan í Hinu húsinu hefur verið aðalaðsetur Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir. Auk ráðgjafarinnar var þar aðstaða með símsvara og tölvu. Síðastliðið haust fengu samtökin hins vegar skrifstofuhúsnæði á Laugavegi 7 ásamt fleiri félögum. Þar hefur félagið þegar komið upp skrifstofuaðstöðu og hefur aðgang að fundarsal. Draumurinn er að fá starfsmann í hlutastarf á næsta ári og efla útgáfustarfsemi og námskeiðshald. Bókasafn samtakanna sem geymt hefur verið á Heilsuverndarstöðinni mun einnig flytjast í nýja húsnæðið.

Þátttaka lækna

Þeir læknar sem tekið hafa þátt í starfi FKB hafa sinnt margvíslegum verkefnum. Kvensjúkdómalæknar hafa að vonum verið mest áberandi í þeirra hópi en heimilislæknar hafa einnig sýnt starfinu áhuga og oft komið með nýjar áherslur í ljósi reynslu sinnar. Sóst er eftir að fá fleiri heimilislækna til starfa, ekki síst vegna þeirra sérstöku tengsla sem þeir hafa við sjúklinga sína.

Fræðslusamtökin hafa talið það í sínum verkahring að standa fyrir fræðslu fyrir heilbrigðisstéttir og hafa haldið fundi um ýmis málefni. Þá hafa læknar getað sótt fræðslufundi og námskeið erlendis fyrir milligöngu samtakanna. Þau hafa lagt sérstaka áherslu á það að undanförnu að kynna neyðargetnaðarvörnina ítarlega, meðal annars fyrir læknum, því upplýsingar um hana hafa verið af skornum skammti og misskilnings gætt. Í því skyni hafa meðal annars verið skrifaðar greinar, útbúinn bæklingur og haldnir fundir.

IPPF hefur á sínum snærum alþjóðlegt læknaráð (International Medical Advisory Panel) sem er hópur sérfræðinga í málefnum fjölskylduáætlunar. Ráðið gefur út fréttabréf nokkrum sinnum á ári. Ráðið fær ýmsar spurningar og verkefni á sitt borð og reynir að gefa faglegar ráðleggingar sem eru birtar í fréttabréfum þess og eru lesnar og notaðar af heilbrigðisstarfsfólki um allan heim. Þar er til dæmis að finna ráðleggingar um getnaðarvarnanotkun fyrir ákveðna langvinna sjúkdóma, ráðleggingar um fóstureyðingar og ófrjósemiaðgerðir, svo eitthvað sé nefnt

Heimasíða FKB er tengd heimasíðu IPPF, www.ippf.org en þar er meðal annars að finna nánari upplýsingar um læknaráðið.



Alþjóðastarf

Starfsemi aðildarfélaga IPPF er samræmt milli landa og mikil áhersla lögð á að samsvörun sé til dæmis í notkun ýmissa hugtaka. Þar af leiðandi eru þær upplýsingar sem safnað er saman frá hinum fjölmörgu aðildarlöndum sambærilegar og í sumum tilvikum mikilvægt efni í alþjóðlegum rannsóknum. Rík áhersla er lögð á að allt sem gert er í landssamtökunum sé í samræmi við hugmyndafræði og sjónarmið sem alþjóðasamtökin hafa samþykkt. Samtökin fjalla mikið um mannréttindi og það er ekki síst á því sviði sem þessi afdráttarlausa afstaða og samræming hefur sannað gildi sitt. Mannréttindi eru að mati samtakanna algild réttindi sem eiga ekki að vera breytileg milli landa. Samtökin leggja áherslu á að kynlífs- og frjósemiréttindi séu hluti almennra réttinda. Þar er til dæmis átt við rétt hvers og eins til að ráða yfir líkama sínum, rétt til aðgangs að getnaðarvörnum, að þurfa ekki að undirgangast aðgerðir á borð við umskurð á unga aldri og að njóta jafnréttis án tillits til kynhneigðar. Það telst til tíðinda að alþjóðasamtök fólks af öllum trúarbrögðum heims frá fjölmörgum löndum og menningarsvæðum skuli standa saman að stefnumótun af þessu tagi.

Starfsemin er mismunandi eftir löndum, sums staðar er um að ræða einu fræðslu og ráðgjöf sem tiltæk er um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir, sums staðar er jafnvel boðið upp á fæðingarþjónustu og síðan hafa samtökin allvíða verið eini staðurinn þar sem hægt er að leita eftir fóstureyðingum. IPPF hefur mikið samstarf við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og hefur tekið virkan þátt í alþjóðaráðstefnum á borð við Kaíró-ráðstefnuna og kvennaráðstefnuna í Bejing.



Framundan

Á nýju ári eru helstu verkefni félagsins að útvega góðan starfsmann sem getur tekið yfir ýmis verkefni sem fram til þessa hafa verið á höndum stjórnar og unnin í rýrum frítíma stjórnarfólks. Stefnt er að því að hafa fastan opnunartíma skrifstofu eftir að starfsmaður hefur verið ráðinn. Framundan eru ýmis verkefni sem eru rétt að fara af stað. Í bígerð er að vera með fræðslu fyrir foreldra og samvinnu við foreldasamtök í skólum. Unnið er að útgáfu bæklings um ófrjósemiaðgerðir. Verið er að leggja síðustu hönd á ítarlega starfsáætlun Fræðslusamtakanna. Áfram verður lögð mikið áhersla á samstarf við yfirvöld til þess að sjónarmið samtakanna um jafnan rétt allra á þessu sviði og að réttur einstaklingsins varðandi kynlíf og fjölskylduáæltun verði virtur. Þótt stundum heyrist að þessi málaflokkur sé í himnalagi á Íslandi er ljóst að úr ýmsu þarf að bæta, ekki síst hvað varðar fræðsluna. Fjöldi fólks sem flyst til Íslands frá öðrum menningarsvæðum fer vaxandi. Reynsla nágrannaþjóðanna hefur sýnt að þekking og þátttaka í alþjóðlegu starfi er gott veganesti í að laga fræðsluna að þeim ólíku þörfum sem geta verið til staðar í fjölmenningaríkjum.





Tenglar við vefsíður:

www.ippf.org

www.mmedia.is/fkb

RÉTTUR ÞINN

Sérhver sem fær fræðslu og ráðgjöf um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir á rétt á:

1. Upplýsingum. Að geta fengið upplýsingar um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir.

2. Aðgengi að þjónustu. Að hafa aðgang að fræðslu og ráðgjöf óháð kyni, kynhneigð, kynstofni, hjúskaparstöðu og trúarbrögðum.

3. Vali. Að geta ákveðið sjálfur um takmörkun barneigna og tegund getnaðarvarna.

4. Öryggi. Að geta notað örugga getnaðarvörn.

5. Friðhelgi. Að geta rætt við ráðgjafa í einrúmi.

6. Þagnarskyldu. Að vera viss um að geta treyst fagfólki fyrir persónulegum málefnum.

7. Virðingu. Að framkoma starfsfólks einkennist af kurteisi, tillitssemi og umhyggju.

8. Vellíðan. Að geta liðið vel meðan á fræðslu og ráðgjöf stendur.

9. Áframhaldi á þjónustu. Að geta komið aftur til að fá frekari fræðslu og ráðgjöf.

10. Skoðun. Að geta sagt frá skoðun sinni á þeirri fræðslu og ráðgjöf sem veitt er.



Þessar leiðbeiningar hafa meðal annars komið út á veggspjaldi og eru gerðar að fyrirmynd frá IPPF (1992) en þýddar af Sóleyju S. Bender í ágúst 1995.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica