Umræða fréttir

Bráðvantar lækna til Palestínu

Læknarnir Sveinn Rúnar Hauksson og Guðbjörn Björnsson heimsóttu nýverið byggðir Palestínumanna á átakasvæðinu á Gazaströndinni. Tildrögin voru þau að Guðbjörn þurfti að mæta á stjórnarfund hjá ISAM (International Society for Addiction Medicine) í Kaíró og á ráðstefnu samtakanna í leiðinni. Það varð úr að Sveinn Rúnar slóst í för með honum og sótti ráðstefnuna. Upphaflega átti hún að vera á tveimur stöðum, í Jerúsalem og Kaíró, en Ísraelsmenn hurfu frá því að halda hluta hennar í Jerúsalem vegna ástandsins. Það voru einkum læknar á meðferðarstofnunum og heimilislæknar sem sóttu ráðstefnuna en Guðbjörn er læknir á Vogi og Sveinn Rúnar heimilislæknir og fyrrverandi yfirlæknir á sjúkrastöðinni Von. Á ráðstefnunni var fjallað um framfarir á sviði lækninga og forvarna gagnvart áfengissýki, lyfjafíkn og annarri fíkniefnamisnotkun, þar á meðal reykingum. Kappnóg af verkefnum fyrir eina ferð, en þeir létu ekki þar við sitja.

Í framhaldi af ráðstefnunni héldu þeir félagar til Jerúsalemborgar, Vesturbakkans og Gazastrandarinnar til að kynna sér af eigin raun afleiðingar hernaðar Ísraela á hendur Palestínumönnum og hvernig læknar bregðast við þeim aðstæðum sem skapast. Á Gazaströndinni heimsóttu þeir fjölmörg sjúkrahús, en Sveinn Rúnar þekkir vel til þessa svæðis gegnum starf sitt sem formaður Félagsins Ísland-Palestína og hefur tvívegis áður heimsótt svæði Palestínumanna og kynnt sér heilbrigðisþjónustuna. Í framhaldi af ferð þeirra félaga fékk Læknablaðið Svein Rúnar í spjall og grennslaðist meðal annars fyrir með hvaða hætti íslenskir læknar gætu veitt neyðaraðstoð og hvernig undirbúningi þess væri háttað. Hann var fyrst spurður hvort vel hefði gengið að komast inn á átakasvæðin:

,,Það er varla hægt að segja það. Þarna voru ekki margir á ferð, hvorki læknar né aðrir. Raunar átti ekki að hleypa okkur í gegn og inn á svæðið. Ísraelsmenn töldu að tveir læknar frá Íslandi ættu ekkert erindi inn á Gaza. Það gagnaði lítið fyrir okkur að benda á að beðið væri eftir okkur og að við ættum heimboð hjá starfsfélögum okkar. Á endanum voru það gömlu, góðu, íslensku samböndin sem tryggðu okkur leið í gegn. Íslenskur ljósmyndari, Þorvaldur Örn Kristmundsson á DV, hafði komið sér upp samböndum hjá ísraelska hernum og var með ísraelskt blaðamannaskírteini. Eftir nokkur símtöl var okkur reddað í gegn. Merkilegt nokk, þá hefur stefna Ísraelsstjórnar að þessu sinni verið sú að leyfa blaðamönnum að fylgjast með en stundum hefur verið algert fréttabann í gildi."Skrifstofan rjúkandi rúst þremur dögum síðar

Hverjir voru það sem þið heimsóttuð?

,,Við áttum fyrst stefnumót við dr. Zakaria Agha, sem var áður yfirlæknir á Ahli-sjúkrahúsinu, en í mínum fyrri heimsóknum 1990 og 1992 var það eina sjúkrahúsið sem Palestínumenn leituðu til á átakatímum, en nú er stærsta sjúkrahúsið, Shifa, einnig komið undir stjórn Palestínumanna. Dr. Agha er að mestu hættur læknisstörfum og kominn í miðstjórn Fatah-stjórnmálahreyfingarinnar, eins konar miðflokks og sósíaldemókrata þeirra Palestínumanna. Við hittum hann á skrifstofu þeirra samtaka en þremur dögum síðar var hún sprengd í loft upp. Ég var varla lentur heima þegar ég sá dr. Agha á skerminum, brattan að vanda, í beinni útsendingu á CNN vegna þessarar árásar, en skrifstofan var rústir einar."

Það hefur kannski verið nokkuð stór skammtur af raunveruleika, að sjá hve skammt var milli ykkar og sprengingarinnar?

,,Jú, það var svolítið einkennilegt, en það var svo margt fleira sem var raunverulegt við þessa heimsókn. Þótt við værum ekki á vígvellinum og sæjum ekki skothríð þá heyrðum við hana. Við vorum á hinum endanum, við móttöku særðra, og sáum fólkið þegar það var að koma eftir að hafa orðið fyrir skotárásum og einnig sjúklinga sem legið höfðu á sjúkrahúsi í nokkra daga og gengist undir aðgerðir."

Tölur fallinna úr hópi Palestínumanna eru orðnar ógnvekjandi háar, en þarf ekki að margfalda þær til að fá út tölu særðra?

,,Jú og það er æði hátt margfeldi. Eftir rúmlega 10 vikur var tala fallinna orðin um 320 en særðir um 17.000. Palestínumenn á herteknu svæðunum eru ekki nema um þrjár milljónir talsins, þar af ein milljón á Gazaströndinni, en margar milljónir eru landflótta. Fyrir svo fámenna þjóð er þetta mikil blóðtaka. Það væri sambærilegt við að um ein milljón Bandaríkjamanna lægju særðir.

Palestínumenn eiga góða lækna, hjúkrunarfólk og sjúkraflutningamenn með gríðarmikla reynslu. Í okkar samfélagi þykir ýmsum kaldranalegt að tala um forgangsröðun og að gera upp á milli sjúklinga. Þarna er forgangsröðun engin spurning heldur alger nauðsyn. Heilbrigðisstarfsfólkið fær eldskírn í markvissum vinnubrögðum og forgangsröðun þegar það dag eftir dag þarf að taka á móti hundruðum slasaðra. Það verður að geta snúið sér að því mikilvægasta fyrst en jafnframt að skoða alla og að afgreiða hvern og einn á þann besta og hraðasta hátt sem unnt er. Undir slíkum kringumstæðum er auðvitað mun minna um innlagnir en ella, alltaf þurfa að vera einhver laus rúm til að taka á móti fleiri særðum og streymið gegnum sjúkrahúsið þarf að vera stöðugt. Hlutirnir ganga ótrúlega hratt fyrir sig."Gúmmíkúlurnar eru stálkúlur

með þunnu gúmmílagi

,,Palestínumenn eiga góða sérfræðinga en alls ekki nógu marga. Það reynir einna mest á sérfræðingana í skurðlækningum, slysa- og bráðalækningum. Eini æðaskurðlæknirinn á svæðinu vinnur myrkranna á milli því skotfærin sem Ísraelsher notar fara mjög illa með æðakerfið. Hættulegustu kúlurnar eru hinar svokölluðu gúmmíkúlur og dúm-dúm kúlurnar. Það hljómar fremur sakleysislega að nota gúmmíkúlur og fólk ímyndar sér að þetta séu einhverjir litlir gúmmíboltar sem lenda á fólki og hoppa svo burt. En sannleikurinn er allur annar. Þetta eru stálkúlur með gúmmílagi utan á. Gúmmílagið verður einfaldlega til þess að kúlurnar eru erfiðari við að eiga, erfiðara að fjarlægja þær og þær valda meiri vefjaskemmdum en venjulegar kúlur. Þetta á ekki síst við um skot í augu og heila. Dúm-dúm kúlurnar eru enn hættulegri. Það eru háhraða sprengikúlur sem springa þegar þær eru komnar inn í líkamann. Flísar úr kúlunum þeytast í nærliggjandi líffæri. Þetta er sérlega hættulegt ef þær lenda í kviðarholinu þar sem þær valda miklum blæðingum. Ef þær lenda í heilanum og splundrast þar er baninn vís. Þörfin fyrir æðaskurðlækna er einnig mikil vegna þeirra kúlna sem lenda í kviðarholi."Þörf fyrir íslenska lækna

,,Við heimsóttum Shifa-sjúkrahúsið 15. nóvember síðastliðinn. Þá voru liðnar sjö vikur frá því átökin hófust og þetta sjúkrahús var búið að taka á móti 1200 særðum, þar af voru 650 innlagnir. Æðaskurðlæknirinn var aleinn við störf í sinni sérgrein og mér varð hugsað til síldarstúlknanna hér áður fyrr sem fóru ekki úr stígvélunum vikum saman. Það var eins með hann, hann hafði verið að í sjö vikur. Hann var orðinn útkeyrður eftir stöðuga vakt. Auðvitað kemur þetta í hryðjum og dagpartar eða dagar eru rólegir en hann er aldrei laus af vaktinni."

Þarf ekki nauðsynlega að fá liðstyrk utan frá?

,,Jú, og eftir því hefur verið leitað, meðal annars hér á landi. Meðan við vorum þarna kynntumst við hópi Norðmanna, skurðlækni, bæklunarskurðlækni, sjúkraflutningamanni og geðlækni, sem var skipuleggjandi hjálparstarfsins. Þessi hópur dvaldi á svæðinu í tvær vikur. Við erum að reyna að fá íslenska lækna til slíkra hjálparstarfa. Þeir þyrftu helst að geta verið í þrjár til fjórar vikur á svæðinu, en tvær vikur koma líka til greina."

Ef einhver læknir sem les þetta vill leggja sitt að mörkum, á hann þá að hafa samband við þig?

,,Já, endilega eða við Guðbjörn Björnsson. Þeir sem fara á átakasvæðin gera tvennt, þeir sýna auðvitað mikið hugrekki og velvilja með því að fara en á hinn bóginn er líka mikið upp úr því að hafa fyrir lækni að fara í slíka ferð. Óvíða er aðra eins reynslu að fá. Læknar og hjúkrunarfólk sem fer á staðinn geta einnig verið þess fullviss að þarna er góð aðstaða fyrir hendi og framúrskarandi skipulag. Það er vel tekið á móti fólki og vel búið að því."

Hafa Norðurlandaþjóðirnar brugðist vel við hjálparbeiðnum?

,,Já, þær eru áberandi í hjálparstarfinu, ekki síst Norðmenn. Þeir hafa verið með margvíslegt starf svo sem heilsugæslu í flóttamannabúðum í Palestínu og nærliggjandi löndum. Reynsla þeirra er mjög dýrmæt og þeir eru ólatir við að miðla henni til annarra."Góðar undirtektir

Hefur gengið vel að afla fjár til verkefnisins?

,,Já, undirtektir hafa verið jákvæðar, bæði hjá heilbrigðisyfirvöldum og Rauða krossi Íslands. Við þurfum auðvitað helst að fá til liðs við okkur fleiri lækna en einn eða tvo, þannig að hægt yrði að senda að minnsta kosti tvo hópa. Við ætlum líka að senda lyf með hópnum því brýn þörf er á algengustu lyfjum svo sem verkjalyfjum, sýklalyfjum og svæfinga- og deyfilyfjum.

Utanríkisráðuneytið er þegar búið að senda eina milljón til palestínska Rauða hálfmánans og flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í gegnum Rauða krossinn sem fjórfaldaði íslenska framlagið með því að leggja fram þrjár milljónir til viðbótar. Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir neyðarsöfnun núna og byrjaði reyndar á því að tæma sjóð félagsins og senda okkur Guðbjörn með 3000 dollara framlag sem skiptist jafnt á milli tveggja sjúkrahúsa, Ahli-sjúkrahússins á Gaza og Makased-sjúkrahússins í Jerúsalem auk samtaka heilsugæslustöðva, UPMRC (Union of Palestinian Medical Relief Committees)."Sjúkraflutningamenn nýjasta skotmarkið

Börnin hafa orðið sérstaklega illa úti í þessu stríði ...

,,Já, um eitt hundrað þeirra 320 sem féllu á fyrstu 10 vikunum voru börn og unglingar yngri en 18 ára. Heimurinn man enn eftir 12 ára drengnum sem sat í fangi föður síns í 45 mínútur áður en hann var skotinn til bana, en það sem gerðist síðan og hefur ekki farið hátt er að sjúkraflutningamaðurinn sem reyndi að bjarga drengnum var einnig skotinn til bana. Dæmunum fer fjölgandi um sjúkraflutningamenn sem eru skotnir jafnvel undir stýri á sjúkrabílum merktum Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum."Vaxandi harka

Er innra skipulag samfélagsins ekki meira og minna lamað?

,,Jú, það er mikilvægt atriði sem allt of lítið er fjallað um. Nánast enginn kemst lengur til vinnu, víða erfitt að nálgast helstu nauðsynjavörur, matvæli og annað, lyf og vatn eru ennfremur af skornum skammti. Ísraelar hafa oft lokað fyrir rafmagnið og það er búið að breyta þessu landi í allsherjar fangabúðir, sem síðan sæta sprengjuárásum. Árásirnar verða alltaf harðari og harðari. Í vikunni sem við vorum þarna sagði læknir sem við töluðum við að breytingin væri sú að í fyrstu hefðu um 40% af skotsárunum sem komu inn á sjúkrahúsið verið í brjóst og höfuð en hlutfallið væri komið upp í 80%. Þar fyrir utan hafa þeir rekist á hættulegra táragas en fyrr, en smábörn, eldra fólk og fólk með lungnasjúkdóma getur dáið af venjulegu táragasi og þetta er mun skæðara. Auk þess fer eldflaugaárásum fjölgandi. Þetta eru ekki slysaskot í Palestínu."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica