Ritstjórnargreinar

Sjálfsvíg unglinga

Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche segir einhvers staðar; "Möguleikinn á að fremja sjálfsmorð hefur bjargað mörgu mannslífinu. Sjálfsmorðið er einhvers konar brunaútgangur út úr lífinu; mönnum verður rórra af því að vita af honum þótt þeir noti hann ekki." Þýski rithöfundurinn Hermann Hesse kallaði sjálfsvígið "neyðarútgang sem alltaf væri fyrir hendi". En hverjir eru það sem velja sér þennan neyðarútgang og af hverju?

Margir grískir heimspekingar litu svo á að sjálfsvíg væri eins konar heimspekleg frelsisyfirlýsing en sú skoðun breyttist mjög með kristninni enda leit kirkjan á sjálfsmorðið sem refsiverðan glæp gegn lögum manna og Guðs. Þessi fordæming kirkjunnar þýddi að sjálfsmorðingjar nutu venjulega engrar kirkjulegrar þjónustu, þeir voru ekki grafnir innan kirkjugarða heldur huslaðir utangarðs eins og hverjir aðrir óbótamenn.

Á átjándu og nítjándu öld fóru að koma upp raddir sem lögðu áherslu á það að sjálfsvígið væri sjúkdómur en ekki synd. Áhrif kirkju fóru minnkandi og ný, vísindalegri hugsun var að ryðja sér til rúms í hugmyndafræði mannkyns. Smám saman fóru sjálfsmorðingjar að fá greftrun eins og annað fólk og bölvun kirkjunnar var aflétt. Sigmund Freud hélt því fram árið 1917 að sjálfsvígið væri einkenni um geðsjúkdóm. Síðan hafa flestir sem um málið fjalla verið þeirrar skoðunar að sjálfsvíg beri að skoða sem hluta af alvarlegu þunglyndi.

Fæstir skilgreina verknaðinn lengur sem synd en á hinn bóginn stendur umræðan um sjálfsvígið milli þeirra sem telja að hver einstaklingur hafi fullan rétt á því að svipta sig lífi og hinna sem standa fastir á þunglyndiskenningunni og vilja með lyfjum eða annarri meðferð koma sjúklingunum yfir þetta erfiða tímaskeið. Inn í þessa umræðu blandast afdrif sjúklinga með ólæknandi sjúkdóma, réttur þeirra til að deyja, hvort þeir hafi eitthvað um það að segja, hversu lengi haldið skuli áfram að viðhalda lífi. Menn tala um dauðahjálp og óteljandi frásagnir erlendra blaða um rimmu sjúklinga og aðstandenda þeirra við lækna- og dómarastétt flækja þessa umræðu alla. Ef sjúklingur sem ekki eygir neinn bata vegna alvarlegs líkamlegs sjúkdóms á rétt á náðarsprautunni, hvað þá um einstakling sem sér ekki fram úr tilvistarþokunni vegna þunglyndis eða svartsýni? Á hann líka rétt á sömu aðstoð til að komast yfir landamærin?

Tilvistarspekingar nítjándu og tuttugustu aldar lögðu áherslu á frelsi einstaklingsins og ábyrgð hans á gerðum sínum. Hámark mannlegs sjálfræðis er að falla allsgáður fyrir eigin hendi á réttum tíma þegar sköpunarkraftur og lífsgleði eru horfin. Fjölmargir heimspekingar á öllum tímum hafa lagt orð í þennan belg enda telst enginn liðtækur í þeim hópi nema hann hafi einhverja skoðun á fyrirbærinu. Flestir sem um málið fjalla vitna í Albert Camus þar sem hann segir í Goðsögninni um Sísífos: "Það er bara eitt raunverulegt heimspekilegt vandamál til og það er sjálfsmorðið. Grundvallarspurning heimspekinnar er að úrskurða hvort lífið sé þess virði að lifa því eða ekki."

Geðlæknisfræðin leggur áherslu á það að sjálfsvígshugmyndir séu einkenni um alvarlegt þunglyndi en ekki tilvistarleg, heimspekileg lífsafstaða. Fyrir mér er erfitt að gera greinarmun á þessu tvennu enda er þunglyndisleg lífsskoðun oft samofin hugmyndum um tilgangsleysi, vonleysi og tóm tilverunnar.

Mín skoðun er sú að vaxandi tíðni sjálfsvíga í Vesturheimi stafi ekki af neinni tilvistarlegri sjálfstæðisyfirlýsingu heilbrigðra einstaklinga heldur sé verknaður framinn í örvinglan og uppgjöf stundarinnar. Sjálfsmorðinginn snýr baki við lífinu, afneitar því og lætur sig hverfa. Hvort heldur verknaðurinn er skyndilegur eða skipulagður, framinn út úr neyð eða fylgir í kjölfar langvinns þunglyndis, í stundaræði eða ekki; hann verður til í aðstæðum, þar sem einstaklingurinn með réttu eða röngu sér enga leið út úr.

Sjálfsvígum ungs fólks hefur fjölgað á Íslandi á síðustu árum. Reglulega berast fregnir af mannvænlegu fólki sem tekur þá ákvörðun að yfirgefa þetta líf og starfsfólk bráðamóttöku veit að sjálfsvígstilraunirnar eru enn fleiri. Þetta daður ungs fólks við dauðann á sér mjög flóknar ástæður. Dauðinn er spennandi eins og ókannað landsvæði sem allir eiga eftir að heimsækja. Unglingurinn finnur í lífsþorsta sínum fyrir þrá eftir þessu ókunna landi, fara og skoða sig um og jafnvel koma aftur. Suma langar til að reyna sig í glímu við Dauðann sem allir segja að sé ósigrandi. Foreldrar eiga erfitt með að skilja hvernig dauðaótti og dauðaþrá haldast í hendur.

Margir unglingar finna fyrir vaxandi leiða í nútímasamfélagi og óttast ekki Dauðann heldur lífið sjálft sem þeim finnst ógnvekjandi í miskunnarlausri kröfugerð sinni.

Þunglyndir unglingar, sem reyna að fyrirfara sér en er bjargað, tala sjaldnast um Dauðann, svo sjálfsagður er hann. Hann er orðinn eins og þaulsetinn leigjandi í sál þeirra sjálfra sem stjórnar athöfnum og hugsunum daglegs lífs. Dauðinn verður eina fótfestan á lífssvellinu. Slíkt hjálpræði Dauðans finna sérstaklega þeir unglingar sem langar til að fyrirfara sér vegna leiðinda "taedium vitae". Endalaus dauðasvefn verður eins og friðsælt sæluhús í lífsþokunni þar sem takmarkalaus friður ríkir í skarkala og vonbrigðum daglegs lífs.

Það er löngu þekkt að sjálfsvíg geta verið eins og smitandi faraldur þar sem sjálfsmorð eins hrindir öðrum inn í eilífðina og svo áfram koll af kolli. Margar sagnir bæði frá Íslandi og öðrum löndum eru til um slíkt. Þegar foreldri fyrirfer sér aukast líkur á því að börn þeirra feti í sömu dapurlegu sporin síðar á lífsleiðinni. Sjálfsvíg unglinga geta orðið til að sveipa verknaðinn dýrðarljóma í augum eftirlifandi vina og kunningja. Jarðarför, grátur, sorg og músík verður eins og tilkomumikil leiksýning þar sem hinn látni leikur í fyrsta og síðasta skiptið á ævi sinni langþráð aðalhlutverk. Dauðinn verður skyndilega eftirsóknarverður og sjálfsvígið aðgöngumiði að leiksviði sorgarinnar þar sem hinn látni fær að standa einn smástund og lifa í minningunni um langt skeið.

Hátterni dauðans hefur gjörbreyst á síðustu áratugum. Hann hefur fjarlægst úr venjulegri tilveru fólks en tekið sér bólfestu á sjúkrahúsum og sérstökum stofnunum. Þessi fjarlægð gerir hann enn óraunverulegri en hann var áður. Ég tel að þessi fjarlægð dauðans geri sjálfsvígið að eftirsóknarverðum kosti þegar einhver vandamál kveðja dyra. Fólk veltir fyrir sér sjálfsvígi án þess að gera sér fulla grein fyrir endanleika dauðans vegna þess hversu óraunverulegur og fjarlægur hann er orðinn. Sumt ungt fólk, sem ég hef talað við eftir misheppnaða sjálfsvígstilraun, segist ekki hafa ætlað að hverfa á brott úr þessum heim fyrir fullt og allt heldur einungis sofna um stund, hefna sín á umhverfinu og koma svo aftur eins og ekkert hefði í skorist.

Einhver líkti lífinu við lestarferð. Enginn fer þó sjálfviljugur eða vitandi vits um borð eftir að hafa legið lengi yfir lestaráætluninni og ákveðið hvert förinni er heitið. Eftir nokkra stund vakna menn til lífsins í lestarklefa, virða fyrir sér samferðamenn sína og reyna að gera sitt besta við þessar kringumstæður. Enginn man hvenær eða hvernig hann komst um borð. Sjálfsvitundin er eins og jurt sem lengi þarf að hlúa að áður en sjálfið verður til. Lestin er búin að vera á ferðinni í mörg þúsund ár. Margir sem ferðast með lestinni gera það alls ekki vegna þess að ferðalagið sé þess virði eða skemmtilegt, heldur eru þeir of ragir að hoppa út úr vagninum. Yfir hverri einustu dyrum stendur skrifað að leyfilegt sé að hoppa: "Springen erlaubt - Sautez s´il vous plaît - Permersso saltare - Please adjust your clothes before jumping off."

Stundum finnst mér reyndar furðu sæta að fleiri skuli ekki fyrirfara sér en raun ber vitni, sem kannski er til merkis um þol mannsins gagnvart mótlæti. Langstærstur meirihluti fólks sættir sig við lestarferðina eins og hún er þótt oft sé freistandi að hoppa út um næstu dyr. Flestir velja að gera það ekki heldur bíða þess að einhverjir sjúkdómar eða óhöpp komi og fleygi þeim nauðugum út. Jafnvel þótt trúarbrögð og samfélag leggi allt kapp á að hindra menn í að velja þessa leið er hún samt fær og greið, gild sem örþrifaráð, og margir sem velja hana.

Það hlýtur að vera skylda hvers samfélags að koma í veg fyrir sjálfsvíg með öllum tiltækum ráðum; neyðarmóttöku og viðtalaþjónustu og kembileit að áhættuhópum eða einstaklingum sem teljast vera í meiri hættu en aðrir. Því miður mun okkur aldrei takast að koma í veg fyrir sjálfsvíg ungs fólks eða annarra. Dauðavitundin býr innra með okkur öllum og þol einstaklingsins gagnvart áföllum, leiðindum og vonleysi er mjög mismunandi. Einhverjir munu á öllum tímum taka þá ákvörðun að ljúka lestarferð síns eigin lífs löngu áður en það er tímabært. Mestu skiptir þó að átta sig á því að hvert sjálfsvíg eða sjálfsvígstilraun er ákaflega flókið fyrirbæri þar sem lífslöngun einstaklingsins er ekki nægilega mikil. Allar aðgerðir sem efla tilfinningu fólks fyrir lífinu sjálfu og sjálfsögðum endalokum þess, dauðanum, eru því af hinu góða.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica