Ritstjórnargreinar
  • Karl Andersen

Hinn dýri vegatollur

Á undanförnum vikum hafa fleiri ungmenni látið lífið og örkumlast í umferðarslysum hér á landi en dæmi eru um í annan tíma. Landsmenn eru slegnir óhug við þessa atburði, leita skýringa og jafnvel sökudólga í hverju einstöku tilviki og komast oftar en ekki að þeirri niðurstöðu að slysinu hefði mátt afstýra, ef einhver hefði hagað sér á annan veg en raunin varð. Síðan heldur lífið áfram sinn vanagang, það er að segja hjá þeim sem ekki eiga um sárt að binda. Eftirköstin eru sjaldan dregin fram í dagsljósið: þjáningar syrgjenda, langar sjúkrahúslegur fórnarlamba, endurhæfing, örkuml og örorka. Sú þrautaganga er sjaldan tilefni fréttaflutnings og gleymist fljótt.

Öllum ber saman um það, að þessari vargöld verði að linna. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á að gjalda vegatoll með æsku landsins. En hvað er til ráða? Sérstök átök Umferðarráðs og Dómsmálaráðuneytis virðast engum árangri skila. Hræðsluáróðurinn með illa leiknum bílhræjum við vegarkantinn hverfur í rykmekki baksýnisspegilsins. Kallað er eftir aukinni löggæslu, hertum viðurlögum við umferðarlagabrotum, öruggari umferðarmannvirkjum, hækkun lágmarksaldurs ökumanna, bættri ökukennslu. Einn bendir á annan.

Staðreyndin er hins vegar sú að þegar slysin verða í umferðinni er sjaldan einum um að kenna. Við berum öll ábyrgð á umferðinni eins og hún er í dag og það er á valdi okkar sjálfra að breyta henni til batnaðar. Til þess þarf hugarfarsbreytingu í þá veru að við sem ökumenn öxlum þá ábyrgð sem okkur er falin með ökuréttindunum og högum okkur í samræmi við það þegar út í umferðina er komið. Við verðum að hætta að líta á samferðamenn okkar sem keppinauta og andstæðinga í baráttu um að komast leiðar okkar. Við verðum að læra að gera sömu kröfur til okkar sjálfra og við gerum til annarra. Hver og einn verður að líta í eigin barm og spyrja sig þeirrar spurningar hvað hann getur sjálfur lagt af mörkum til að gera umferðina öruggari. Þetta gæti reynst erfitt, því að skeytingarleysi Íslendinga gagnvart náunganum, tillitsleysi, ókurteisi og frekja nær langt út fyrir samskipti manna í umferðinni og er orðin að einkenni þeirrar þjóðar sem þykist meiri og betri en aðrar þegar til samanburðar kemur á alþjóðavettvangi.

Læknar kynnast öðrum fremur afleiðingum umferðarslysa í störfum sínum. Fyrir þeim eru óhöppin að undanförnu í engu frábrugðin öðrum umferðarslysum sem þeir hafa sinnt í gegnum árin. Læknar heyra harmasögurnar frá fyrstu hendi, og þekkja hverja sjúkdómsgöngu frá upphafi til enda. Þeir vita, að næsta slys verður ekki það síðasta. Læknastéttin á því að vera leiðandi afl í því að bæta umferðarmenningu og fækka slysum. Ekki með því að kalla eftir auknum fjárveitingum hver til sinnar deildar. Ekki með því að taka þátt í fjölmiðlasótt stjórnmálanna. Ekki með því að varpa ábyrgðinni yfir á einhvern annan. Ekki með því að veita áfallahjálp þar sem hennar er ekki þörf. Læknastéttin á að vera einu skrefi á undan og benda á raunhæfar leiðir til að fyrirbyggja umferðarslys. Þetta verður aðeins gert með því að vekja almenning til umhugsunar um, að það hættulegasta í umferðinni erum við sjálf.Góða ferð og akið varlega.Garðabæ 23. ágúst 2000Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica