Ritstjórnargreinar

Hugleiðingar eftir Suðurlandsskjálfta

Þegar Þetta er ritað er innan við vika frá því að seinni jarðskjálftinn reið yfir Suðurland. Ekki fer hjá því að menn velti því fyrir sér hvernig heilbrigðiskerfið hafi brugðist við og hvort einhverjar lexíur megi læra af þeirri reynslu sem fengist hefur. Búist er við fleiri skjálftum og því ekki úr vegi að reyna að meta ástand mála nú þó alllangur tími muni líða þar til við getum metið viðbrögðin endanlega.

Ljóst er að við vorum heppin. Í fyrsta lagi varð nærfellt enginn fyrir líkamstjóni. Í öðru lagi stóðust stofnanir heilbrigðiskerfisins, bæði heilsugæslustöðvar og sjúkrahús á svæðinu, skjálftana og urðu þar litlar sem engar skemmdir. Í þriðja lagi urðu skjálftarnir á góðviðrisdögum um mitt sumar, ekki þarf að fara í grafgötur um hörmungarnar hefði Suðurland skolfið á óveðursnóttu í febrúar.

Á heildina litið virkuðu samskiptakerfi heilbrigðisþjónustunnar vel og mjög fá dæmi ef nokkur eru um að boðleiðir hafi brugðist. Ljóst er að meginhlutverk heilbrigðisþjónustunnar þessa daga var á sviði áfallahjálpar. Þar hefur verið unnið ómetanlegt starf, bæði á vegum Rauða krossins og áfallahjálpar Landspítala Fossvogi. Áfallahjálp Rauða krossins hefur verið rekin frá fjöldahjálparstöðvum samtakanna og hinn faglegi þáttur að mestu hvílt á sálfræðingum. Áfallahjálp Landspítalans er í höndum hjúkrunarfræðinga og lækna sem margir hafa þjálfað sig sérstaklega í þessum efnum og er í því starfi horft til langtímastuðnings og sérstakrar meðferðar. Enn er óvíst hver merki Suðurlandsskjálfta verða í sálarlífi fólks á svæðinu, en jafnljóst að hlutverki áfallahjálpar er þar hvergi nærri lokið. Þessi starfsemi hefur sannað sig sí og æ undanfarna mánuði og misseri og er teymið sífellt að afla sér meiri reynslu. Mikilvægt er að starfsemi þessi verði efld í framtíðinni í heilbrigðiskerfinu enda gagnsemi hennar óumdeild í mýmörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið.

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort við séum nægilega viðbúin alvarlegri jarðskjálftum með meiri skemmdum. Hvernig væri umhorfs á Sjúkrahúsi Suðurlands ef upptökin hefðu verið undir því og hvað hefði gerst ef bæði brýrnar yfir Þjórsá og Ölfusá hefðu lokast? Líta þarf nánar á stöðu heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu í þessu ljósi. Nefna má sem dæmi að blóð og blóðhlutar eru ekki geymdir á sjúkrahúsinu. Engin færanleg sjúkrahús eru til í landinu og vitað er að ekki þarf að vera mikið að veðri svo að illa gangi að flytja vistir loftleiðis. Almannavarnaráð hefur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga unnið að tillögum um almannavarnabúnað sem komið verður fyrir í stórum gámum og unnt er að flytja tiltölulega auðveldlega. Um er að ræða 13 einingar sem komið verður fyrir á átta stöðum á landinu og geta mætt þessum vanda að hluta.

Suðurlandsskjálftar minna okkur ennfremur á að hópslysaáætlanir heilbrigðisstofnana út um land þurfa stöðugrar endurnýjunar við og starfsfólk þarf endurmenntunar við. Einnig þarf að fara yfir útkallsbúnað reglulega. Vitað er að hér er víða pottur brotinn. Á óskalista okkar hefur um hríð verið starfsmaður sem starfaði á vegum landlæknis og Almannavarna að þessum málum og hefði meðal annars það hlutverk að fara um landið og endurskoða hópslysaáætlanir, mennta heilbrigðisstarfsfólk og svo framvegis. Æskilegt væri að reynsla af Suðurlandsskjálftum ýttu þessum hugmyndum úr vör.

Þeirri spurningu hefur verið komið á framfæri hvað læknar og hjúkrunarfræðingar eigi að gera séu þeir staddir af tilviljun á svæði þar sem jarðskjálftar af þessu tagi verða. Eiga þeir að flýta sér á möguleg slysasvæði? Að sjálfsögðu er öll hjálp vel þegin en mönnum er eindregið ráðlagt undir þessum kringumstæðum að hafa samband við stjórnstöð Almnannavarna eða Almannavarnanefnd á svæðinu sem á að hafa yfirsýn yfir vandann og getur beint aðstoð þangað sem hennar er mest þörf. Þetta er mun affarasælla en að rjúka af stað, miskunnsamir Samverjar þurfa líka stjórnunar og skipulagningar við.

Að lokum er ástæða til að minna alla lækna á að viðbrögð þeirra í hópslysum og náttúruhamförum eru undir þekkingu þeirra komin. Menn eru því hvattir til að kynna sér hópslysaáætlanir þær sem til eru á hverju svæði, og koma ábendingum á framfæri til okkar telji menn áætlunum vera ábótavant. Við munum tvímælalaust fara betur ofan í saumana á þessum málum og draga frekari lærdóm af þessum skjálftum. Vonast er til að þeir verði ekki fleiri.

Á Hellisheiði 25. júní 2000

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica