Umræða fréttir

Formannaráðstefna læknasamtakanna. Símenntun og sameining sjúkrahúsa

"Ef við segjum að Læknafélag Íslands sé pabbinn í læknasamtökunum þá er Læknafélag Reykjavíkur mamman og hefur það hlutverk að sjá til þess að börnin tali saman, fari snemma að sofa og mæti í skólann." Þannig lýsti Ólafur Þór Ævarsson formaður LR uppbyggingu læknasamtakanna á formannaráðstefnu Læknafélags Íslands sem haldin var föstudaginn 12. maí síðastliðinn.

Á ráðstefnunni voru samankomnir á fjórða tug forsvarsmanna hinna ýmsu aðildarsamtaka LÍ, svæðafélaga um allt land og sérgreinafélaga auk trúnaðarmanna í nefndum og ráðum. Tilgangurinn með þessari ráðstefnu er að líta yfir sviðið á miðju starfsári, greina frá því sem er að gerast hjá hverjum og einum og fræðast um það sem er að gerast í öðrum deildum.

Formaður LÍ, Sigurbjörn Sveinsson, reið á vaðið og greindi frá því helsta sem hefur verið að gerast hjá stjórn LÍ en þar bar hæst umræður um fjármál og húsnæðismál samtakanna, vefsíðu og sameiningu sjúkrahúsa, að ógleymdum viðræðum sem staðið hafa yfir milli stjórnarinnar og forsvarsmanna Íslenskrar erfðagreiningar um gagnagrunnsmálið. Formaðurinn sagði að þar þokuðust mál fram á veg, enn væru ýmis álitamál óleyst en flest virtust þó leysanleg nema ef til vill eitt. Ekki tilgreindi hann það nánar og var hinn varkárasti í tali um þessar viðræður.



Sameining tefur samningagerð

Fulltrúar úr samninganefndum skýrðu frá því sem gerst hefur á þeirra vettvangi en flestir hópar lækna eru með lausa samninga á þessu ári. Ingunn Vilhjálmsdóttir formaður samninganefndar sjúkrahúslækna sagði að lítið hefði miðað í samningum enda hefði sameining sjúkrahúsanna sett strik í reikninginn. Við hana skapaðist óvissa um stöðu sumra hópa, til dæmis vissi samninganefndin ekki hvort hún ætti að semja fyrir sviðsstjóra í framtíðinni, þeir hefðu fyrst og fremst fengist við fjármál en nú ættu þeir einnig að gerast faglegir og þá breyttist staða þeirra hugsanlega. Annað óvissuatriði væri staða þeirra sem reka stofu úti í bæ, en frá yfirstjórn sjúkrahúsanna hefur komið fram sú hugmynd að þeir verði einungis í hlutastöðum á sjúkrahúsunum. Þá á eftir að manna þær stöður sem losna.

Þórður Sverrisson í samninganefnd sérfræðilækna sagði að nefndin hefði átt í stöðugum viðræðum við Tryggingastofnun en lítið hefði miðað. Það ylli töluverðum vanda hversu mikill vöxtur hefur verið á sjálfstæðri starfsemi sérfræðinga utan sjúkrahúsa en á síðasta ári varð 15% fjölgun á samningum sérfræðinga við TR. Ólafur F. Magnússon hafði svipaða sögu að segja af samningamálum sjálfstætt starfandi heimilislækna en þeir eru í þeirri sérkennilegu stöðu að endurnýjun stéttarinnar hefur verið bönnuð um nokkurt skeið. Fannst Ólafi það skjóta skökku við í miðri einkavæðingunni.



Er símenntun mælanleg?

Lífeyrismál voru nokkuð til umræðu á fundinum en þeim eru gerð sérstök skil hér í opnunni. Auk þess töluðu forsvarmenn Læknablaðsins, orðanefndar og Orlofssjóðs og báru sig allir nokkuð vel. Fram kom að Orlofssjóður keypti nýjan bústað í vor og er hann í Vaðnesi í Grímsnesi.

Stefán E. Matthíasson formaður Fræðslustofnunar lækna flutti framsögu um símenntun lækna og urðu nokkrar umræður um hana. Þar kom meðal annars fram að þótt allir séu sammála um nauðsyn símenntunar eru ýmsir erfiðleikar á því að mæla árangurinn af henni. Við þetta er glímt víða um lönd enda tengist þetta kjaramálum lækna. Í Noregi og víðar lækka læknar í launum vanræki þeir símenntunina. Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að halda utan um þessi mál, skráningu námskeið og mat á gæðum þeirra, og bíður þar nokkurt starf til að koma þessu í viðunandi horf hér á landi.

Talsmenn heimilislækna og annarra sérfræðinga stigu í pontu og loks greindu formenn svæðafélaganna frá því sem er efst á baugi í þeirra heimabyggð og kom fram í máli flestra landsbyggðarmanna að fræðslumálin ber hæst. Víða hafa læknar fengið aðgang að fjarfundabúnaði og hefur það gerbreytt aðstöðu lækna í afskekktari héruðum til þess að fylgjast með í faginu. Annað mál sem víða brennur á landsbyggðarlæknum eru erfiðleikar við að manna læknastöður.

En svona á heildina litið var nokkuð gott hljóð í læknum á þessari ráðstefnu, í það minnsta hvessti aldrei í salnum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica