Umræða fréttir

Smásjá 2

Sjúkraflug með miðstöð á Akureyri boðið út

Hér í blaðinu var í fyrra fjallað um þá hugmynd að staðsetja sjúkraflugvél á Akureyri sem gæti þjónað landsbyggðinni. Nú hefur heilbrigðismálaráðherra ákveðið að bjóða út sjúkraflug í landinu og er það gert í samvinnu við Samgöngumálaráðuneytið. Jafnframt því hefur ráðherra ákveðið að miðstöð sjúkraflugsins verði á Akureyri og styðst sú ákvörðun við úttekt sem ráðuneytið lét gera á sjúkraflugi í landinu.



Sýning á læknislist fornmanna

Í anddyri K-byggingar Landspítala Hringbraut hefur verið komið fyrir sýningu sem nefnist Sjúkdómar og lækningar að fornu. Þar er fjallað um lækningar til forna, hverjir stunduðu þær og átrúnað af ýmsu tagi sem tengdist þeim. Einnig er fjallað um lagaákvæði sem tengjast heilbrigðismálum.

Sýningin er þannig uppbyggð að spjöld hafa verið hengd á veggi anddyrisins þar sem á eru textar úr bók Sigurðar Samúelssonar læknis, Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna. Á hverju veggspjaldi er svo teiknuð mynd eða myndir sem Halla Bjartmars Arnardóttir myndlistarkona hefur gert. Auk þessa eru sýnd gömul lækningaáhöld, svo sem blóðtökuhnífar og brennslujárn og munir úr kumlum sem varðveittir eru á Þjóðminjasafni Íslands.

Að þessari sýningu standa Landspítali háskólasjúkrahús, Nesstofusafn og Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000. Verður hún opin í K-byggingunni til 30. júní en eftir það er fyrirhugað að setja hana upp á sjúkrahúsum og byggðasöfnum víða um land.

Í tengslum við sýninguna hélt Hafsteinn Sæmundsson læknir erindi um Hrafn Sveinbjarnarson lækni og héraðshöfðingja. Hrafn var uppi á 12. og 13. öld og bjó að Eyri í Arnarfirði. Hann er talinn fyrsti menntaði læknir á Íslandi og fara af læknisverkum hans miklar sögur.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica