Umræða fréttir

Þjónustusamningur TR við endurhæfingarteymi

Með sífellt auknum fjölda örorkuþega er ljóst að sporna verður við þeirri þróun. Það er að einungis þeir, sem nauðsynlega þurfa á örorku að halda, fari á örorku og að áður en einstaklingur fari á örorku þá hafi hann fengið sanngjarna meðhöndlun og allar þær leiðir sem stuðlað gætu að aukinni vinnufærni hafi verið reyndar. Nokkuð tilviljanakennt hefur verið hvað hefur verið í boði fyrir hvern og einn einstakling og oft ekki markvisst tekið á málum. Það er ljóst að mikilvægt er að koma sem fyrst inn í myndina, helst innan fárra mánaða frá því einstaklingur dettur út af vinnumarkaði.

Með þetta í huga hefur Tryggingastofnun ríkisins gert þjónustusamning við endurhæfingarteymi, sem undirritaður stýrir en auk endurhæfingarlæknis eru í teyminu félagsráðgjafi, sálfræðingur og sjúkraþjálfari. Einnig er fyrirhugað að setja á stofn teymi á Akureyri, sem í eru auk undirritaðs, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og sjúkraþjálfari, einnig verður mögulegt að kalla aðra til ef við á. Hlutverk þessara teyma er að kortleggja þá færniskerðingu sem til staðar er og þær endurhæfingarleiðir sem reyndar hafa verið, meta endurhæfingarmöguleika viðkomandi einstaklings og koma með tillögur. Þessi teymi verða aldrei meðferðaraðili eða dómari á þá meðferð sem átt hefur sér stað. Markmiðið er að vera til aðstoðar við endurhæfinguna, setja markmið og hjálpa til við val á þeim meðferðarleiðum sem til greina koma.

Þar sem þetta er enn á tilraunastigi er mikilvægt að læknar segi sitt álit á því hvernig teymið getur sem best hjálpað til við endurhæfinguna. Markmiðið er sameiginlegt, að koma einstaklingum sem fyrst til vinnu á nýjan leik.

Til þess að þessi teymi hafi yfir einhverjum úrræðum að ráða, þá hefur TR gert þjónustusamninga við Reykjalund varðandi atvinnulega endurhæfingu, einnig við Hringsjá, starfsþjálfun fatlaðra, varðandi kennslu og ráðgjöf og svæðisskrifstofu fatlaðra varðandi atvinnu með liðveislu. Þar sem vitað er að mest gagn er af inngripi sem fyrst í ferlinu, það er innan nokkurra mánuða, þá er oft of seint að grípa inn þegar sótt er um örorku. Mikilvægt er því að heimilislæknar eða aðrir þeir læknar, sem verða varir við að það stefni í óefni, hafi samband við tryggingayfirlækni og komi þessu ferli sem fyrst af stað.



Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica