Umræða fréttir

Tjarnarplásturinn

Þegar spurningaskrá um gömul læknisráð var send út árið 1994 minntust nokkrir heimildarmenn úr Eyjafjarðarsýslu og V-Ísafjarðarsýslu á plástur, sem hefði verið notaður þar við ýmiss konar kvillum, svo sem gigt og ígerð. Þegar betur var að gáð reyndist plásturinn vera af sömu rót á báðum stöðum og má rekja hann til Þórunnar Hjörleifsdóttur ljósmóður (f. 1844) sem var langdvölum á Tjörn í Svarfaðardal, en við þann bæ kenndu margir plásturinn og kölluðu Tjarnarplástur. Í kvæði til Þórunnar eftir Jón Björnsson er meðal annars þetta sem vísar til lækninga hennar:

...

verkin þín í veikra hreysum

varpa þó á hjartans haf

líknarinnar göfga, fagra geislastaf
Faðir Þórunnar, séra Hjörleifur Guttormsson var prestur á Skinnastað í Öxarfirði og seinna á Tjörn en móðir hennar Guðlaug Björnsdóttir ljósmóðir austan úr Hróarstungu sem hafði orð á sér fyrir að vera læknir góður eins og dóttirin. Þórunn var gift Arngrími Gíslasyni málara og bjuggu þau í Gullbringu, bæ sem enn stendur í brekkunni fyrir ofan bæinn á Tjörn og er málarastofa Arngríms þar, nú friðuð. Afkomendur þeirra héldu síðan áfram að búa til plásturinn eftir uppskrift Þórunnar. Hér að neðan eru skráð munnmæli um Tjarnarplásturinn úr gögnum þjóðháttadeildar, en vel kann að vera að heimildir um hann leynist víðar. Einn af heimildarmönnum þjóðháttadeildar um þetta efni er raunar barnabarn Arngríms og Þórunnar, Ingunn Angantýsdóttir nú á tíræðisaldri, búsett á Þingeyri. Faðir hennar, Angantýr Arngrímsson, flutti til Þingeyrar og breiddi út hróður plástursins vestra en sumir þar nefna hann eftir Angantý:

"Angantýsplástur var mjög vel látinn, hann var minnir mig þannig að fletja mátti efni hans út með fingrunum, það var svart og seigt og minnti á malbik," segir dýrfirskur heimildarmaður.

Annar sem alinn var upp á Flateyri, en reyndar ættaður úr Svarfaðardal, segir:

"En svo var eitt lyf, sem hafði alveg sérstöðu og var mikill leyndardómur og hvísl þegar um það var rætt en það var Tjarnarplásturinn. Mamma geymdi hann í sérstakri skúffu í "servantinum" sínum og þetta var kolsvart eins og lakkrís og vel um búið. Ef tók að grafa í einhverjum var gripið til Tjarnarplástursins. Þá var tekinn svolítill biti af þessum svarta klumpi og honum velt í lófa og mýkt svipað og börn gera við leir. Þegar plásturinn var hæfilega mjúkur var hann lagður yfir kýlið og svo bundið vel um. Það var segin saga að máttur þessa plásturs var slíkur, að aldrei varð neitt úr meininu en það dróst saman og eftir sat ljós nabbi, sem þornaði og hvarf. Þegar ég spurði sem barn um þennan plástur var mér sagt, að það væri aldrei nema einn í ættinni, sem kynni uppskriftina og honum bar að skila henni til yngri ættingja með þeim orðum, að segja engum frá því hvernig plásturinn væri búinn til."

Ingunn Angantýsdóttir var níu ára gömul þegar Þórunn amma hennar dó hálfáttræð árið 1918. Hún man vel eftir því þegar þegar amma hennar var að sjóða efnablönduna í plásturinn og eins eftir því þegar faðir hennar var að búa hann til. Ekki kunni Ingunn uppskriftina að plástrinum en vissi að í honum hafði verið kamfóra, bómolía og menja. Ingunn hafði heyrt að plásturinn kæmi upphaflega frá Hólum fyrir langalöngu og hefði fyrst verið kallaður Hólaplástur. Hann hefði síðan gengið niður í beinan ættlegg. Faðir hennar hefði gert mikið af því að búa til plástra handa sjómönnum með fingurmein, en fiskimenn fengu oft ígerð í fingur. Ýmsar sögur eru til um lækningar fyrir tilstuðlan plástursins, til dæmis segir Ingunn að móðir hennar, Elín Tómasdóttir frá Völlum (f. 1879) hafi verið flutt dauðvona sem unglingur, greind með berkla, heim af Akureyrarspítala til að deyja heima. Móðir hennar tók það til ráðs að leita til Þórunnar Hjörleifsdóttur sem lagði plásturinn góða við síðuna á henni, þar sem hún var slæm af kvölum. Og eftir nokkra daga opnuðust undir honum tvö sár og út löðraði gröftur. Þetta reyndist sem sagt hafa verið brjósthimnubólga sem læknaðist upp úr þessu og seinna giftist Elín Angantý syni Þórunnar. Þórunn og móðir Elínar suðu grasasmyrsl til að græða síðusár Elínar en merki um þau sáust alla tíð og sagði Ingunn að þessi saga hefði síðast verið rifjuð upp þegar hún var að þvo móður sinni, háaldraðri, en þá blöstu örin við. Elín hafði því óbilandi trú á plástrinum og notaði hann mikið. Angantýr hætti að gera plástra fyrir fólk eftir að pensilín fór að verða algengt en þá fékk Elín sendan plástur frá Selá á Árskógsströnd þar sem Björg Arngrímsdóttir, systir Angantýs, hélt áfram plástursgerðinni. Þóra Angantýsdóttir, sonardóttir Bjargar taldi að leyndarmálið um gerð plástursins hefði farið í gröfina með foreldrum hennar, en Björg kenndi Dagmar Þorvaldsdóttur móður hennar uppskriftina og mun hún síðast hafa gert plásturinn, eða allt fram á sjöunda áratuginn. Þóra vissi þó að uppistaðan í honum hefði verið bómolía og að í honum var blýmenja. Soðið var mjög hægt og lengi, fleiri kíló í einu, fyrst var jukkið lapþunnt, síðan dökknaði það og þykknaði, en potturinn var hafður opinn og hrært viðstöðulítið í. Þóra á ennþá bita úr síðustu löguninni og pottinn sem plásturinn var soðinn í. Koppsetningartæki sem Þórunn átti og fatið sem plásturinn var látinn kólna í eru hins vegar komin á byggðasafnið á Dalvík. Þegar plástursdeigið var orðið kalt var það skorið niður í flata bita sem voru um 2 sm í þvermál og 1 sm á þykkt. Plásturinn var velgdur og honum smurt í tusku sem lögð var við bólgur og ígerðir. Fólk sem vann við beitingu notaði plásturinn mikið því að það fékk oft ígerð í fingur vegna stungusára.

Ekki er ólíklegt að heimildir um Tjarnarplásturinn séu til á fleiri stöðum, enda stutt síðan að hann var í notkun. Seint verður til dæmis fullleitað í gögnum þjóðháttadeildar og ekki hefur enn fengist peningur til að tölvusetja svör við spurningaskrá um gömul læknisráð, en slíkt myndi auðvelda verulega leit í þeim gögnum.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica