Umræða fréttir

Einhleypir og fráskildir notfæra sér heilbrigðisþjónustuna síst

Ungt fólk hefur sjaldnar en aðrir aldurshópar heimilislækni sem það þekkir, fólk á miðjum aldri á erfiðast með að komast frá verkefnum sínum ef leita þarf læknis, aðgangur að heilbrigðisþjónustu er lakastur meðal einhleypra og fráskilinna og íbúar dreifbýlis mæta verulegum hindrunum í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn Háskóla Íslands og landlæknisembættisins frá haustinu 1998 en henni stjórnaði Rúnar Vilhjálmsson prófessor.

Rannsóknin byggist á úrtaki 1.924 íbúa um land allt á aldrinum 18 til 75 ára. Stuðst var við erlendar og innlendar viðmiðanir sérfræðinga og mat svarenda sjálfra á þörf fyrir þjónustu við mat á því hvort notkun á heilbrigðisþjónustu samræmdist þjónustuþörf einstaklinga og hópa. Áætluð vannotkun læknisþjónustu í veikindum er mest hjá yngsta aldurshópnum, 18-24 ára, og áætluð vannotkun fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu er einnig mest hjá þeim hópi. Þá hafa einstaklingar í yngsta hópnum oftar en aðrir (32%) frestað eða fellt niður heimsókn til læknis sem þeir telja þörf fyrir og segjast 13% þeirra hafa frestað læknisheimsókn af kostnaðarástæðum.

Sé litið á kynin hafa fleiri konur en karlar heimilislækni sem þær þekkja með nafni, einhleypir eru sjaldnast með heimilislækni og fráskildir telja sig eiga erfiðast með að komast til læknis. Áætluð vannotkun læknisþjónustu í veikindum er mest meðal einhleypra og fráskilinna. Mestar gloppur í blóðþrýstingseftirliti og leghálsskoðunum er að finna meðal einhleypra en ekkjur fara sjaldnast í brjóstaskoðanir. Þá eru fráskildir líklegastir allra hjúkskaparstétta til að fresta eða fella niður heimsókn til læknis en einhleypir koma næst á eftir. Má því segja að einhleypir og fráskildir nýti sér síst heilbrigðisþjónustuna.

Fólk á vinnumarkaði og barnaforeldrar hafa lakara aðgengi að heilbrigðisþjónustunni og nota hana síður í veikindum en fólk sem ekki er á vinnumarkaði og fólk sem ekki hefur fyrir börnum að sjá. Lítill munur er á aðgengi eftir menntun en niðurstöðurnar sýna að lágtekjufólk hefur lakara aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslu um niðurstöðurnar kemur fram að margar ástæður geta verið fyrir þessum mun á aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sumar tengist viðhorfum og fjölskylduaðstæðum, aðrar veikindaréttindum og enn aðrar tengist heilbrigðisþjónustunni. Í tillögum til úrbóta eru færð rök að því að árangursríkustu leiðirnar séu þær að bæta sjúkratryggingar og styrkja heilsugæslukerfið meðal annars til að tryggja að allir hafi heimilislækni. Þá geti aukin almenningsfræðsla um heilsufar og þjónustu í heilsugæslunni einnig skipt máli.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica