Umræða fréttir

Smásjáin 2

Kynferðisofbeldi

vaxandi vandamál



Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum lendir ein af hverjum fimm konum í heiminum í því á lífsleiðinni að vera nauðgað eða að reynt sé að nauðga henni. Þessar tölur koma fram í skýrslu SÞ um ástand íbúa heimsins árið 2000. Tölurnar benda einnig til þess að vandamálið sé vaxandi, þrátt fyrir yfirlýst markmið SÞ að berjast gegn hvers konar kynferðisofbeldi. Opinberar tölur sýna ekki nema hálfan sannleikann og afstaða yfirvalda er víða talin ámælisverð. Í sumum fylkjum Bandaríkjanna telst kynferðisáreiti fangavarða við kvenfanga ekki glæpsamlegt. Í Perú er fórnarlömbum nauðgunar í sumum tilvikum sjálfum gert að birta árásarmanninum kæruna. Í Pakistan neitar lögreglan oft að skrá nauðganir og dómari þar í landi vísaði kæru frá þar sem hann taldi að fórnarlambið hefði ekki sýnt nógu mikinn mótþróa. Í sumum löndum snýst rannsókn nauðgunarmála fyrst og fremst um það hvort fórnarlambið hafi verið hrein mey fyrir árásina.

Í umfjöllun British Medical Journal er sjónum meðal annars beint að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki og möguleikum þess til að bæta ástandið. Aukin umræða og upplýsingaflæði er meðal þess sem talið er hjálpa til að svipta hulunni af ástandinu eins og það er og leiða í ljós að um alþjóðlegt vandamál er að ræða. Einnig er fjallað um þá kröfu ýmissa samtaka að fólk í heilbrigðisþjónustu geti veitt fórnarlömbum kynferðisofbeldis ráðgjöf og stuðning. Það getur skipt sköpum um meðferð slíkra mála og þar með líðan fórnarlamba hvort þau fá fullnægjandi læknisskoðun, hvort kostur er á sálfræðiþjónustu í kjölfarið og hvort heilsugæslan fylgir því eftir að fórnarlömb ofbeldis komi í eftirskoðun og fái viðeigandi aðstoð í kjölfar fyrstu hjálpar.



Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica