Umræða fréttir

Íðorðasafn 127. Leynikrabbamein

Eins og fram kom í 118. pistli hefur carcinoma occulta fengið íslenska heitið leynikrabbamein í Íðorðasafninu og sér undirritaður ekki ástæðu til að gera tillögu um að breyta því. Aðrar samsetningar Íðorðasafnsins, þar sem occult kemur fyrir, eru samræmdar og nota orðhlutann leyni-. Í almennum orðabókum má finna viðtekin heiti á ýmsum fyrirbærum sem starfa á laun, leynifélag, leynilögregla, leyniskytta, leynivínsali og leyniþjónusta. Segja má þó að í almennu máli sé nokkur hefð fyrir því að þýða occult með orðhlutanum dul- eða dular-. Með þeirri aðferð gæti carcinoma occulta fengið heitið dulkrabbamein. Ágóðinn við það er sá að auðveldara verður þá að muna hvert erlenda heitið er. Mestur yrði ágóðinn þó ef tækist að finna nýtt íslenskt heiti sem vísaði í tvö aðaleinkenni occult carcinoma: að liggja í leyni og að hafa sent frá sér meinvörp.Meinvörp

Í framhaldi af umræðu um krabbamein má rifja upp þýðingar Íðorðasafnsins á gríska heitinu metastasis, meinvarp, meinrek, meinsáð, sáðmein. Læknisfræðiorðabók Stedmans gefur til kynna að metastasis hafi verið notað á þrjá vegu: 1. um tilfærslu sjúkdóms eða tjáningarmerkja hans frá einum líkamshluta til annars og tekur dæmi um hettusótt, þegar sjúkdómurinn virðist hlaupa úr munnvatnskirtlunum niður í eistun; 2. um útbreiðslu staðbundins sjúkdóms til annarra svæða, svo sem útbreiðslu illkynja æxlis frá frumæxli til fjarlægra staða; 3. um flutning baktería frá einum líkamshluta til annars, ýmist með blóði eða vessa.

Tilefni upprifjunar er íslensk þýðing á ensku sögninni to metastasize. Íðorðasafn lækna gefur eingöngu miðmyndina af íslensku sögninni að varpa, það er að segja að meinvarpast. Undirritaður heyrði hins vegar virtan og smekkvísan starfsbróður nota sögnina að verpa. Hann sagðist líta svo á að frumæxlið verpti til annarra staða og vildi ekki ljá máls á þeirri túlkun að frumæxlið varpaði til annarra staða. Hann bar fyrir sig nafnorðið varp, sem hann sagði í sinni sveit hafa verið notað um það að verpa og stað þar sem fuglar verpa. Tilvísun undirritaðs í Íslenska orðabók Máls og menningar, kast, það að kasta, varpa, lét hann sér í léttu rúmi liggja.

Fram til þessa hafði undirritaður ekki kynnst öðru en að heitið meinvarp væri sambærilegt við kúluvarp. Rétt er að minna á að nafnorðið meinvarp er annars vegar notað um ferilinn, það að varpa, og hins vegar um viðfangið, það sem varpað er. Gaman væri að heyra frá fleiri læknum um þetta efni.Mismunargreining

Í 61. pistli (Læknablaðið 1995; 81: 75) var rætt um differential diagnosis sem Íðorðasafn lækna nefnir mismunargreiningu eða samanburðargreiningu. Undirritaður lýsti þá skoðun sinni á íslensku heitunum með þessum orðum: Íslenska heitið samanburðargreining lýsir einkar vel því sem við er átt, sjúkdómsmerki eru borin saman og aðgreining sjúkdóma gerð. Heitið mismunargreining er ef til vill torræðara við fyrstu sýn, en verður þó vel skiljanlegt við nánari skoðun. Finna þarf mismun á teiknum og einkennum þeirra sjúkdóma sem til greina koma.

Því er þetta tekið upp að nú gætir tilhneigingar til að sleppa "r"-inu úr mismunargreining og skrifa "mismunagreining". Þetta hefur undirritaður ætíð talið að væri ritvilla og haft Íðorðasafn lækna sér til stuðnings. Uppfletting í því sýnir að heitið er dregið af nafnorðinu mismunur sem í eignarfalli er mismunar. Uppfletting í Íslenskri orðabók Máls og menningar leiðir þó í ljós að til er einnig nafnorðið mismuni, sömu merkingar, sem mundi þá verða mismuna í eignarfalli. Undirrituðum finnst ólíklegt, að þeir sem sleppa "r"-inu, geri það meðvitað og af þessari ástæðu. Verðum við ekki að láta Íðorðasafnið ráða?Slettur og slangur

Fyrst á annað borð er búið að opna nöldurskjóðuna, þá er rétt að víkja að málfari fyrirlesara eins á fræðslufundi á liðnum vetri. Svo langt er um liðið að hann þekkist örugglega ekki af tilvitnuðum dæmum. Þó efnið væri vel valið og efnistök með ágætum, þá gilti ekki það sama um notkun fræðiheita. Sletturnar gengu yfir áheyrendur í gusum. Í flestum tilvikum var um að ræða einföld heiti sem auðvelt hefði verið að íslenska, eins og dæmin sýna: dókúmenntasjón (skráning, skjölun), effektinn (áhrifin), fílterinn (sían), inndíkasjón (ábending), jatrógen (af völdum lækna), klíentelið (sjúklingarnir, viðskiptavinirnir), konntrólið (viðmiðið), kúrvan (línuritið), massívur (stór, mjög stór, þéttur), metabólismi (efnaskipti), mínímal (lágmarks-), prófílaktískt (til forvarnar) og siggnifíkant (marktækur).

Dægradvöl

Í síðasta pistli var dægradvölin úr bókinni Heilsurækt og mannamein, sem út kom árið 1943, nánar tiltekið úr kaflanum Aðferðir til þess að halda næmum sjúkdómum í skefjum, bls. 204. Höfundur kaflans er Niels Dungal, prófessor í meinafræði, og var hann að leiðbeina um það hvernig forðast ætti sýkla. Dægradvölin í þetta skipti er heldur eldri, eins og sjá má af stafsetningunni .Dægradvöl II.

Um hvað er rætt og hver er höfundurinn?

"Það verður því að leggja ríkt kapp á, að veikin sje uppgötvuð í tíma, hjá þeim sem hana fá. En þetta hvílir að mestu leyti á sjúklingunum sjálfum, og útheimtir fyrst og fremst þekkingu á háttalagi veikinnar. Í öðru lagi athygli og eftirtekt, en umfram allt áhuga og framtakssemi. - Það er til lítils gagn, þó menn fái grun um að ekki sje allt með feldu hvað ---- ------ snertir, ef sá grunur er jafnharðan kæfður í sinnuleysi og trassaskap."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica