Umræða fréttir

Fjölbreytt úrræði fyrir unga vímuefnaneytendur á Fjóni

Fjölbreytt úrræði fyrir unga vímuefnaneytendur á Fjóni

Vímuefnavandamál eru víðast hvar fyrir hendi en sennilega er neyslumynstrið hér á landi líkast því sem gerist í nágrannalöndunum. Forvarnafulltrúar á Fjóni í Danmörku tala um að ,,stafræna kynslóðin", 14-25 ára, noti vímuefni til að kveikja og slökkva á sjálfri sér, rétt eins og tölvunum sem hún notar. Hún kveikir á sér með örvandi lyfjum á borð við helsælu og kókaín en slævandi efni af ýmsum styrkleika eru slökkvitakkinn, hvort sem er hass eða heróín.

Á Fjóni er starfandi miðstöð sem ungt fólk í vímuefnaneyslu getur leitað til. Um 170 ungmenni leita þangað á ári hverju, þar af um 80 af hundraði að eigin frumkvæði. Starfsmenn eru 19 talsins, bæði læknar, sálfræðingar, kennslufræðingar og félagsráðgjafar. Unglingarnir geta komið í eitt viðtal án þess að gefa upp nafn eða sýna persónuskilríki. Miðstöðinni er ætlað að laða að unglinga, þeir geta þvegið af sér þar, fengið kaffisopa og kökur ef þeir vilja og smokkar liggja frammi. Oft leiðir þessi fyrsta nálgun unglingsins til þess að hann ákveður að halda áfram samstarfi við miðstöðina og fara í meðferð. Eiginleg meðferð er ákveðin í samvinnu við heimilislækni viðkomandi og samráði við félagsmálayfirvöld sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnirnar standa straum af helmingi kostnaðar við viðtalsmeðferðina ef um ungmenni innan 18 ára aldurs er að ræða. Ef ákveðið er að fara út í meðferð eru félagslegar aðstæður unglingsins kannaðar, hann fer í læknisskoðun og að því búnu er gerð meðferðaráætlun fyrir hvern einstakling fyrir sig. Tilgangur miðstöðvarinnar er ekki síst sá að nálgast unglinga sem ella gerðu lítið eða ekkert í sínum málum og geta hagnýtt sér göngudeildarþjónustu.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica