Umræða fréttir

Biðlistar sjúkrastofnana

Landlæknir kallaði eftir stöðu á biðlistum á öllum sjúkradeildum landsins í október síðastliðnum. Eftirleiðis munu biðlistar verða innkallaðir til landlæknis þrisvar sinnum á ári. Meðfylgjandi eru biðlistar þeir er bárust embættinu. Nú eru listarnir skráðir með nokkrum breytingum frá því sem verið hefur. Rétt er að útskýra þær breytingar. Í stað þess að gera eingöngu grein fyrir fjölda einstaklinga sem bíður er einnig skráð sú forgangsröðun sem er skráð á biðlistum einstakra deilda. Nýtt skráningarferli, lágmarksskráning vistunarupplýsinga er að komast í gagnið hjá einstökum deildum.

Tafla I sýnir stöðuna eins og hún var á sama tíma árin 1996, 1997 og 1998 eftir því sem upplýsingar leyfa hverju sinni. Einnig kemur fram meðalbiðtími sjúklinga á hverri deild í vikum talið eins og staðan var í október. Taka verður skýrt fram að vart er hægt að bera heildartölur ára saman þar sem aldrei hafa verið jafn margar deildir sem skila inn tölum til embættisins en sérstök áhersla var lögð á það nú að hafa alla biðlista heilbrigðisstofnana með.

Biðlistar eru í eðli sínu ekki neikvæðir þó svo að of langir biðlistar og óhóflegur biðtími eftir meðferð séu það. Listi yfir sjúklinga sem óska eftir og þarfnast meðferðar og kallaður er biðlisti getur í sumum tilfellum verið að megninu til listi yfir sjúklinga sem hafa valið sér ákveðið tímabil sem þeir vilja gangast undir meðferð og eru í sjálfu sér ekki að bíða eftir að komast að heldur kjósa sjálfir að fá meðferð síðar. Hæfilega langir biðlistar eru í flestum tilfellum jákvæðir að því leyti sem þeir gera deildum sjúkrahúsa tækifæri til að halda uppi áætlunum og fullri starfsemi til nokkurra vikna í senn. Sé enginn biðlisti til dæmis á skurðdeild eykur það verulega líkur á að hún nýtist ekki sem skyldi þar sem ekki er hægt að skipuleggja aðgerðir fram í tímann. Þess ber einnig að geta að biðlistar eru eðlilega breytilegir eftir deildum. Á sumum biðlistum er nokkuð um einstaklinga sem geta ekki gengist undir meðferð vegna þess að beðið er eftir einhverri annarri meðferð eða að árangur náist hjá sjúklingnum sjálfum. Dæmi um þetta eru biðlistar barnadeilda þar sem stór hluti þeirra biðlista er vegna þess að einstaklingarnir eru ekki líkamlega tilbúnir að gangast undir aðgerð eða þurfa á einhverri annarri meðferð að halda fyrst. Vel gerðir biðlistar geta sýnt fram á heilbrigðisvanda og þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. Þá geta biðlistar stutt ákvarðanir um áherslubreytingar í heilbrigðisþjónustunni. Eftirlit með vel gerðum biðlistum getur leitt til jafnræðis og réttlátari þjónustu við sjúklinga.



Biðlistar eftir deildum


Almennar skurðlækningar

Heildarbiðlistinn hefur lengst á almennum skurðdeildum. Undantekning er þó á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem biðlistinn hefur styst um helming. Rétt er að gera grein fyrir biðlista deildarinnar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Sérstaklega voru athugaðir sjúklingar sem biðu eftir magaminnkun, það er aðgerð JDF 20. Alls bíða 25 eftir slíkri aðgerð og hafa beðið að meðaltali í tæp fimm ár eftir meðferð. Heildarbiðlisti deildarinnar telur því 148 einstaklinga.

Margar deildanna sem skila inn upplýsingum nú hafa ekki sent inn biðlista til landlæknis fyrr. Ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að þar hafi ekki verið biðlistar árið 1997. Vænta má breytinga á biðlista Landspítalans fljótlega þar sem nú er verið að innleiða nýtt fyrirkomulag við skráningu þeirra, jafnframt sem biðlistinn er endurskoðaður.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum á almennum skurðdeildum, þar sem vitað er um biðtíma, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 24,7 vikur.


Augndeildir


Í fyrsta sinn sendir augndeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri inn biðlista en hann er ekki nýtilkominn. Biðlistinn á Landspítalanum hefur lengst nokkuð frá árinu 1997 en ekki liggja fyrir tölur frá deildinni frá síðasta ári. Hugsanlegt er að þessi fjöldi nú eigi eftir að minnka aftur með vetrinum þar sem mikil aukning beiðna kom til deildarinnar eftir sumarið.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum augndeilda, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 16,3 vikur.


Barnadeildir

Nú eru í fyrsta sinn birtir biðlistar frá barnadeildum og verður það gert framvegis. Eins og getið var um í inngangi er eðli biðlista barnadeilda annað en á öðrum deildum þar sem oft á tíðum eru aðrir þættir sem orsaka bið eftir meðferð en vöntun á deildunum sjálfum.


Barna- og unglingageðdeild Landspítalans

Biðlistar frá deildinni hafa borist embættinu frá árinu 1996. Á þeim tíma hafa verið á bilinu 60-93 skráðir á biðlista. Nú kemur í fyrsta sinn fram sundurgreining á eftir hvaða þjónustu hve margir bíða. Með þessu fyrirkomulagi verður auðveldara að fylgjast með biðlistanum.


Bæklunaraðgerðir

Heildarbiðlisti eftir bæklunaraðgerðum hefur styst og það umtalsvert á rúmu ári. Til viðmiðunar eru teknar tölur frá árinu 1998. Þar munar mestu um að fækkun er á biðlista bæði á deildum Sjúkrahúss Reykjavíkur, Landspítalans og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en fjölgun hefur hins vegar orðið hjá minni deildum svo sem á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Akranesi.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum á bæklunarskurðdeildum, þar sem vitað er um biðtíma, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 49,3 vikur.


Endurhæfing

Fyrirvari er gerður við tölur um biðtíma á FSA þar sem skráningarkerfi biðlistans er í endurskoðun.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum eftir endurhæfingu, þar sem vitað er um biðtíma, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 27 vikur.


Glasafrjóvgunardeild

Biðlisti deildarinnar hefur verið nánast jafnlangur frá árinu 1997 og segja má að þar ríki ákveðið jafnvægi í eftirspurn eftir þjónustu. Á deildinni er biðlistinn eðlilega annars konar en á öðrum deildum. Reikna má með að meðferð heppnist í þriðjungi tilfella þannig að tveir þriðju þeirra sem eru á biðlista fara á hann aftur. Þá sýnir biðlistinn einnig mun betur eftirspurn eftir þjónustu deildarinnar þar sem ekki er um bráðatilfelli að ræða með sama hætti og á öðrum deildum. Þess má einnig geta að auk þessa eru framkvæmdar um 250 tæknifrjóvganir.


Háls-, nef- og eyrnadeildir

Biðlistar á þessum deildum hafa styst á undanförnum árum. Á fyrrihluta árs árið 1997 var biðlistinn lengstur eða 1273 sem biðu eftir meðferð. Veruleg breyting hefur orðið á, þar munar mestu um styttri biðlista á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en hann hefur styst úr því að þar biðu 1000 einstaklingar eftir meðferð árið 1997 en nú eru skráðir 422 á bið eftir meðferð.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum á háls-, nef- og eyrnadeildum, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 31,2 vikur.


Kvensjúkdómadeildir

Mun fleiri deildir en áður skila nú inn tölum um biðlista á kvensjúkdómadeildum en verið hefur. Engu að síðar er heildarfjöldi þeirra sem bíða minni, árið 1997 var 501 kona á biðlista en nú teljast þær vera 382. Þar munar mestu um um mikla fækkun á biðlista á Landspítalanum.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum á kvensjúkdómadeildum, þar sem vitað er um biðtíma, kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 18,5 vikur.


Lýtalækningar

Nokkur fækkun er á biðlistum lýtalækna á sjúkrahúsunum. Fækkun er hjá Landspítalanum en fjölgun á biðlistum St. Jósefsspítala. Þá eru engir sérfræðingar í lýtalækningum með biðlista á Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum eftir lýtaaðgerðum kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 130 vikur.


Þvagfæraskurðdeildir

Nokkur fækkun hefur orðið á biðlistanum á Landspítalanum. Í upplýsingum frá árinu 1997 frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur kom fram að þá biðu 25 eftir meðferð og meðalbiðtími þeirra væru átta vikur. Álag á deildinni hefur því aukist þar sem nú bíða 67 einstaklingar og meðalbiðtími þeirra er 21 vika.

Þegar teknir eru allir sjúklingar á biðlistum á þvagfæraskurðdeilda kemur í ljós að meðalbiðtími þeirra er 70,1 vika.


Öldrunarlækningar


Öldrunarlækningasvið Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur ekki fyrr sent embættinu jafn ítarlegan biðlista eins og nú er gert. Í samráði við Pálma V. Jónsson yfirlækni öldrunalækningasviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur var ákveðið að gera grein fyrir hverri deild innan öldrunarsviðsins eins og gert er þar sem það gefur betri lýsingu á ástandi biðlista deildarinnar. Á þessu verður framhald. Rétt er að geta þess að biðlistinn á Landspítalanum er annars vegar biðlisti eftir plássi á deildinni en mikill meirihluti sjúklinganna mun að öllum líkindum flytjast á Sjúkrahús Reykjavíkur, Landakot.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica