Umræða fréttir

Úrskurður Siðanefndar LÍ

Ár 1999, mánudaginn 13. desember kom Siðanefnd Læknafélags Íslands saman til fundar á Landspítalanum í Reykjavík.

Fyrir er tekið erindi stjórnar Læknafélags Íslands frá 17. nóvember sl. og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 17. nóvember sl. vísaði stjórn Læknafélags Íslands erindi Sifjar Konráðsdóttur, hdl. f.h. skjólstæðings hennar til Siðanefndar Læknafélagsins. Erindi þetta barst stjórninni með bréfi dagsettu 15. nóvember sl. og er þess þar farið á leit að tiltekin atriði sem talin eru upp í bréfinu verði tekin til sérstakrar athugunar auk annarra atriða er stjórn LÍ telji ástæðu til að taka til umfjöllunar.

Málsatvik eru í stuttu máli þau, að með bréfi dagsettu 17. ágúst sl. óskaði Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl. eftir skriflegu áliti Högna Óskarssonar, læknis, á því hvort hann teldi skýrslu sálfræðings, sem lögð hafði verið fram í dómsmáli, sýna að kærandi í kynferðisbrotamáli væri haldinn heilkenninu áfallastreitu. Jafnframt sagði lögmaðurinn æskilegt að læknirinn léti fylgja sérfræðilegar athugasemdir sínar um þá sönnunarfærslu um sekt ákærða sem fælist í meðferð meirihluta héraðsdóms á skýrslum sérfræðinga þeirra sem til voru kvaddir. Um þetta skilaði læknirinn skýrslu sem dagsett er 7. október sl. Með framangreindu bréfi Sifjar Konráðsdóttur hdl. til stjórnar Læknafélags Íslands lýsti hún því að umbjóðandi hennar teldi Högna Óskarsson hafa gerst brotlegan við siðareglur lækna með skýrslu sinni og óskaði afgreiðslu málsins. Þá hefur verið lögð fram greinargerð sem fylgdi bréfi Sifjar dagsettu 1. desember sl. þar sem því er haldið fram að læknirinn hafi í skýrslu sinni margoft þverbrotið siðareglur lækna og læknalög.

Er Siðanefnd hafði borist erindi þetta boðaði hún Högna Óskarsson lækni á fund sinn og gaf honum kost á að gera grein fyrir viðhorfum sínum gagnvart því sem fram kom í nefndu bréfi auk þess að nefndin benti lækninum á þau atriði önnur sem að mati nefndarinnar kæmu til álita og veitti lækninum frest til 10. desember til þess að gera grein fyrir viðhorfum sínum til þeirra álitaefna sem nefndin hafði gert grein fyrir.

Nefndin bauð Sif Konráðsdóttur að koma á fund sinn og gera munnlega grein fyrir máli sínu en hún taldi þess ekki þörf.

Nefndin er þeirrar skoðunar að þau álitaefni sem snerta faglegt mat, umfjöllun og efnistök læknis í tilviki sem þessu heyri ekki undir hana og bendir í því efni á ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 192/1942.

Afmarkast umfjöllun nefndarinnar því við þau álitaefni sem hér á eftir er gerð grein fyrir og afstaða tekin til.

Svo sem að framan er rakið óskaði verjandi ákærðs manns eftir því við lækni að sá síðarnefndi léti í ljós sérfræðilegt álit um tiltekin atriði. Í þessu tilviki er það álitaefni hvort það hafi verið brot á siðareglum lækna að vinna verk þetta þar sem ákærði hafði verið sjúklingur læknisins. Nefndin telur að þau tengsl sem voru með lækninum og ákærða í málinu vegna þess að ákærði hafði verið sjúklingur læknisins útiloki ekki að læknirinn hafi mátt veita verjanda hans þá aðstoð á sérfræðisviði sínu sem um var beðið. Telur nefndin að gagnstæð niðurstaða þrengi kosti ákærðs manns við vörn sína í sakamáli og feli í sér of þrönga takmörkun á heimild læknis til að tjá sig í faglegum efnum. Þess ber þó að gæta hér að slík tengsl kunna að sjálfsögðu að hafa áhrif á mat á því hversu hlutlæg slík skýrsla er.

Það er og álitaefni hvort læknir eigi að vinna verk af þessu tagi vegna þess, að tengsl hans við sjúkling gefi tilefni til að draga hlutlægni hans í efa og rýra þannig gildi slíkrar skýrslu. Það er álit nefndarinnar hvað þetta snertir, að það sé mat sjúklings og læknis hversu með skuli fara en að það sé ekki brot á siðareglum lækna að gera slíka skýrslu.

Það er því álit Siðanefndar að Högni Óskarsson, læknir, hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur lækna með því að taka að sér að gera þá skýrslu sem hann gerði.

Þá kemur til athugunar hvort læknirinn hafi með einhverjum hætti reynt að leyna tengslum sínum við ákærða eða láta í veðri vaka að skýrsla hans væri hlutlæg og þannig til orðin að jafna megi til álitsgerða þeirra er fjallað var um í skýrslunni. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að tengsl læknisins og ákærða voru kunn er málið var dómtekið og að bréf verjanda til læknisins þar sem fram koma spurningar hans til læknisins lá frammi í málinu og er ekki sýnt fram á það hér að ætlan læknisins hafi verið sú að leyna tengslum sínum við ákærða og telur Siðanefnd að læknirinn hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur lækna í þessu efni að heldur.

Ekki verður séð að umfjöllun læknisins um álitsgerðir þær sem lagðar voru fyrir héraðsdóm og framburð sérfræðinganna fyrir héraðsdómi hafi verið með þeim hætti að meiðandi sé eða orðaval farið út fyrir þau mörk, sem eðilegt er að setja umræðu þar sem gagnrýndar eru niðurstöður annarra.

Loks er það úrlausnarefni hvort þau ummæli í skýrslu læknisins að kærandi væri ekki haldin heilkenninu áfallastreitu feli í sér brot á siðareglum lækna með því að þar komi fram greining sem styðjist ekki við skoðun á kæranda né heldur hafi samþykkis hennar verið aflað fyrir því. Þess ber sérstaklega að gæta hér að í inngangi skýrslu Högna Óskarssonar og í bréfi verjanda ákærða til hans kemur fram að viðfangsefnið var að meta hvort sú ályktun yrði dregin af skýrslu og framburði sálfræðings að kærandi væri haldin tilteknu heilkenni. Telur Siðanefnd að ljóst sé af skýrslu læknisins að hann er þar að fjalla um skoðun annarra á kæranda og að hann dregur ályktanir af því sem aðrir hafa sagt eins og óskað var eftir við hann. Umfjöllun að þessu leyti verður ekki jafnað til vottorðsgjafar sem gerð sé í óþökk sjúklings og án hans samþykkis. Hér er um að ræða mat á skýrslu sérfræðings og framburð hans fyrir dómi um tiltekið atriði sem snertir sérfræðisvið læknisins. Gilda hér sömu sjónarmið og að framan er lýst þegar tekin er afstaða til þess hvort lækninum var heimilt að gera skýrsluna.

Í áðurnefndri greinargerð, sem fylgir bréfi Sifjar Konráðsdóttur hdl. frá 1. desember sl. eru margháttaðar athugasemdir gerðar við skýrslu læknisins. Um þau atriði vísast til þess sem fyrr segir að Siðanefnd telur að álitamál af því tagi eigi ekki undir hana og verður ekki frekað fjallað um það á vettvangi nefndarinnar.

Úrskurðarorð

Högni Óskarsson, læknir, gerðist ekki brotlegur við siðareglur lækna í tengslum við gerð ofangreindrar skýrslu.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica