Fræðigreinar

Doktorsvörn. Garnamein af völdum glútena (coeliac disease) getur valdið beingisnun (osteoporosis) og þannig aukið hættu á beinbrotum

Trausti Valdimarsson varði doktorsritgerð sína við háskólann í Linköping, Svíþjóð, þann 1. október 1999. Ritgerðin heitir á ensku Bone in Coeliac Disease. Andmælandi var Pekka Collin dósent við Háskólann í Tammerfors, Finnlandi.

Garnamein af völdum glútena, einnig kallað glútenóþol, er sjúkdómur í smáþörmum. Glúten er eggjahvítuefni í korntegundum, aðallega í hveiti, sem til dæmis gefur brauðdegi góða bökunareiginleika. Hjá sjúklingum með glútenóþol veldur glúten í fæðunni bólgu í slímhúðinni og þarmatoturnar skaddast. Þannig verður truflun á eðlilegu frásogi á mörgum vítamínum og steinefnum, meðal annars á kalki. Margs konar einkenni geta skýrst af glútenóþoli; langvarandi kviðverkir, niðurgangur, megrun, þreyta, slappleiki og jafnvel þunglyndi. Oft eru einkennin svo óljós að mörg ár líða áður en rétt sjúkdómsgreinig fæst. Meðferðin felst í að sneiða hjá fæðu sem inniheldur glúten. Við það lagast bólgan í þarmaslímhúðinni og einkennin hverfa.

Rannsóknir Trausta hafa sýnt að án meðferðar verður truflun á efnaskiptum kalks og hormónajafnvægi í blóði. Af 121 sjúklingi sem voru 18-86 ára þegar sjúkdómurinn greindist höfðu 60 óeðlilega lága beinþéttni (beingisnun) fyrir meðferð. Jafnvel sjúklingar með vægari einkenni höfðu beingisnun. Hækkað kalkkirtlahormón (parathyroid hormone, PTH) í blóði þrátt fyrir eðlilegt eða lágt kalkgildi (secondary hyperparathyroidism) var algengt hjá sjúklingum fyrir meðferð. PTH-gildi í sermi hafði sterkt samband við beinþéttni. Þegar meðferð með fæðu án glútens var hafin, jókst beinþéttnin fljótt og vel og varð eðlileg hjá flestum innan þriggja ára, jafnvel hjá sjúklingum sem voru eldri en 65 ára við sjúkdómsgreiningu. Og rannsóknir á 76 sjúklingum með þekkt glútenóþol í 4-14 ár sýndu að þeir sjúklingar sem höfðu verið duglegir að forðast alla fæðu með glúteni voru með eðlilega beinþéttni, en þeir sem höfðu verið minna nákvæmir með fæðuvalið voru oftast með beingisnun.

Þannig er mjög mikilvægt að allir sjúklingar með glútenóþol fái rétta sjúkdómsgreiningu og meðferð, ekki aðeins til að bæta sjúkdómseinkennin, heldur einnig til að minnka hættu á beinbrotum í framtíðinni. Og þegar sjúklingur greinist með beingisnun af óljósum toga er mikilvægt að rannsaka hvort garnamein af völdum glútena geti verið orsökin.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica