Fræðigreinar
  • Tafla I-V
  • Fig. 1
  • Tafla VI
  • Tafla VII
  • Tafla VIII-XI

Heimanfarnir, heimanreknir og heimilislausir unglingar á Íslandi Úttekt á fyrstu 10 starfsárum Rauðakrosshússins

Hjartarson H, Arnarson EÖ

The first 10 years of operation of the Red Cross House for runaway, throwaway and homeless adolescents in Reykjavík, Iceland

Læknablaðið 2000; 86: 33-8

Objective: The Red Cross House (RCH) is a 24-hour emergency shelter in Reykjavik, Iceland for adolescents. On the occasion of its 10th anniversary it was decided to analyse the data collected since inauguration.

Material and methods: During the first 10 years of running 475 adolescents, age 10-18, (grouped into runaways, throwaways and homeless adolescents) registered 927 visits. The admission records of the RCH were used for collecting data for subsequent analysis.

Results: The runaways and throwaways were more alike one another than the homeless. Most of the parents were living apart suggesting that conflicts were more likely to take place in stepfamilies and single parent families and the situation at home had enforced one parent to leave home. Many of the guests were school-dropouts particularly those coming from the country. A majority had been in contact with the social services, and many boys had been dealt with by the police. Prior use of alcohol, tobacco and drugs was common. Conflicts within the family was the most usual reason for the runaways and throwaways seeking assistance. The most common reason for the homeless visiting was having nowhere to stay, alcohol or drug abuse.

Conclusions: The plight of the homeless was more serious than that of the runaways and throwaways. The homeless usually had a prior history of having run away or been throwaways from home. The preventive work of the RCH is reflected in keeping young people off the streets and offering assistance before it is too late.

Key words: emergency shelter, adolescents, runaways.

Corresponcence: Eiríkur Örn Arnarson. E-mail: eirikur@ rsp.is


Ágrip

Tilgangur: Í tilefni 10 ára starfsafmælis Rauðakrosshússins var ákveðið að vinna úr upplýsingum sem skráðar höfðu verið um hjálparþurfi unglinga frá 1985 til 1995.

Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu voru skráðar 927 komur 475 unglinga á aldrinum 10-18 ára sem röðuðust í heimanfarna, heimanrekna og heimilislausa. Skráningarblað athvarfsins var notað við gagnaöflun.

Niðurstöður og ályktanir: Rannsóknin leiddi í ljós talsverðann mun á heimanförnum og heimanreknum annars vegar og heimilislausum hins vegar. Fæstir foreldra unglinganna voru í sambúð. Margir gestanna höfðu hætt skyldunámi og skáru landsbyggðarunglingar sig úr. Meirihluti unglinganna hafði verið í tengslum við félagslegar stofnanir og margir drengjanna sætt afskiptum lögreglu. Rannsóknin sýndi að neysla tóbaks, áfengis og fíkniefna var útbreidd meðal þeirra sem leituðu til athvarfsins. Árekstrar innan fjölskyldu var algengasta ástæða komu heimanfarinna og heimanrekinna til Rauðakrosshússins. Húsnæðisleysi og eigin neysla voru helstu ástæður fyrir því að heimilislausir leituðu aðstoðar.

Ályktanir: Almennt stóðu heimilislausir mun verr að vígi en heimanfarnir og heimanreknir. Heimilislausir unglingar eiga líklega flestir forsögu sem heimanfarnir eða heimanreknir. Þeir eru því viðvörun um þær hættur, sem heimanfarnir og heimanreknir standa frammi fyrir ef ekki finnst viðunandi lausn á þeirra málum, svo sem vandamál í skóla, aukin neysla, afbrot og húsnæðisleysi. Forvarnarstarf Rauðakrosshússins felst í því að halda þessum unglingum frá götunni og bjóða þeim hjálp áður en vandamálin verða yfirþyrmandi.Inngangur

Í tilefni þess að 10 ár voru liðin frá því að Rauðakrosshúsið hóf starfsemi sína árið 1985 var ákveðið að fara kerfisbundið yfir þær upplýsingar sem skráðar höfðu verið um þá hjálparþurfi unglinga sem leitað höfðu til athvarfsins á þessum tíma.

Rauðakrosshúsið byggir á grundvallarmarkmiðum Rauðakrosshreyfingarinnar um mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi, auk þess sem það gegnir ákveðnu málsvarahlutverki. Á því tímabili sem rannsóknin spannar var Rauðakrosshúsið opið allan sólarhringinn. Markmið starfsemi þess er að auðvelda börnum og unglingum í neyð að leita sér hjálpar áður en í óefni er komið, með því að veita húsaskjól, fæði, stuðning og ráðgjöf. Þess var vænst að með opnun stöðvarinnar fengjust upplýsingar um fjölda barna og unglinga í vanda vegna neyslu ávana- og fíkniefna eða af öðrum persónulegum og/eða félagslegum ástæðum. Flestir unglinga sem leita til neyðarathvarfsins hafa farið að heiman vegna vandamála á heimili og/eða vegna persónulegra vandamála. Þegar í upphafi var lögð rík áhersla á fyrirbyggjandi starf, svo sem að halda unglingunum af götunni og bjóða þeim hjálp við að leysa vandamál sín.

Heimanfarinn unglingur (runaway adolescent) er skilgreindur sá sem fer að heiman án leyfis foreldra að minnsta kosti eina nótt með það fyrir augum að strjúka að heiman (1,2).

Margir fræðimenn telja hugtakið heimanfarinn unglingur of almennt og vilja greina á milli þeirra sem fara að heiman og hinna sem reknir eru að heiman (3,4). Heimanfarnir unglingar fara oftast að heiman vegna deilna og minnkandi tilfinningatengsla við foreldra og vegna neikvæðra félagslegra tengsla við vini og félaga (4). Heimanreknir unglingar fara hins vegar oft vegna hvatninga eða jafnvel þvingana foreldra. Í sömu rannsókn nefndu fleiri heimanrekinna en heimanfarinna deilur við foreldra sem helstu ástæðu þess að þeir þurftu að yfirgefa heimilið og bentu niðurstöður rannsóknar (4) til þess að á heimilum heimanrekinna unglinga séu togstreita og rifrildi algengari en á heimilum heimanfarinna unglinga. Áætlað er að 30-60% allra unglinga sem að heiman fara séu reknir að heiman (5).

Álitið er að í Bandaríkjunum hlaupist yfir ein milljón ungmenna að heiman árlega (6), en helmingur þeirra snýr heim aftur innan fárra daga og um það bil 75-80% eru komin heim aftur eftir eina viku (7). Sá hópur sem ekki hefur snúið heim að viku liðinni er talinn í mestri hættu á að leiðast út í áfengis- og/eða fíkniefnamisnotkun, verða fyrir ofbeldi eða kynferðislegri misnotkun.

Rannsókn (8) leiddi í ljós að meðal heimanfarinna unglinga bjuggu 21% með báðum foreldrum, 26,5% með einu foreldri og stjúpforeldri, 34,4% hjá einstæðri móður og 18,1% bjuggu hjá hvorugu foreldra.

Engin einhlít skýring liggur fyrir á því hvers vegna unglingar hlaupast að heiman, hins vegar benda slíkar rannsóknir til margsvíslegs orsakasamhengis og skilyrða sem á víxlverkandi hátt leiða til brotthlaups að heiman. Rannsóknir (4,9) hafa sýnt að heimanfarnir nefna oftast vandamál í samskiptum við foreldra sem ástæðu þess að fara að heiman. Yfir 70% heimanfarinna (4) kváðust hafa farið að heiman vegna deilna við foreldra. Tengsl innan fjölskyldunnar einkenndust aðallega af tjáskiptaerfiðleikum, deilum og álagi. Foreldrum var lýst sem ströngum, ósveigjanlegum og refsandi og fannst unglingunum að þau nytu lítils stuðnings þeirra. Auk deilna við foreldra virðast margir heimanfarnir unglingar hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi. Niðurstöður rannsóknar (8) leiddu í ljós að samtals 27,7% heimanfarinna unglinga höfðu verið beittir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi áður en þeir hlupust að heiman, 16,8% höfðu verið beittir líkamlegu ofbeldi, 5,4% kynferðislegu ofbeldi og 5,5% hvoru tveggja. Um það bil helmingur þeirra sem beittir höfðu verið líkamlegu ofbeldi voru stúlkur, þær voru 87,3% þeirra sem orðið höfðu fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis og 83,9% þeirra sem beittir höfðu verið hvoru tveggja. Sama rannsókn sýnir að heimanfarnir unglingar sem beittir hafa verið ofbeldi eigi við meiri persónuleg vandamál að etja en aðrir unglingar. Einnig hafa vandamál í skóla, áfengis- og fíkniefnaneysla og neikvæð sjálfsmynd heimanfarinna verið nefnd sem ástæður þess að unglingur fer að heiman (10-12).

Niðurstöður rannsóknar (13) sýndu að heimanfarnar stúlkur kvörtuðu marktækt oftar yfir ströngu eftirliti og refsingum foreldra en allir aðrir hópar (heimanfarnir piltar, heimadveljandi stúlkur og piltar), en heimanfarnir piltar greindu sjaldnar frá eftirliti foreldra en hinir hóparnir.

Vandamál unglinga sem fara oftar en einu sinni að heiman, eru yfirleitt örðugri viðfangs en þeirra sem fara einu sinni. Þeir eiga oftar við meiri persónuleg og félagsleg vandmál að glíma, eiga oftar í erfiðleikum í skóla eða starfi og samband þeirra við eigin fjölskyldu er lakara (14).

Auk hópa heimanfarinna og heimanrekinna var einn hópur sem leitar til Rauðakrosshússins greindur til viðbótar, það er hópurinn heimilislausir unglingar sem höfðu rofið félagsleg tengsl við fjölskyldu, skóla og heimili og áttu yfirleitt ekki fast heimili eða aðsetur.

Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þessa þrjá hópa hjálparþurfi unglinga, sem leituðu til Rauðakrosshússins og kanna meðal annars hvort munur væri á þeim með tilliti til kyns, aldurs, uppruna úr borg eða dreifbýli og frum- og endurkomu. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar í þessari grein.Efniviður og aðferðir

Þátttakendur: Í rannsókninni voru notuð gögn allra unglinga sem leituðu til Rauðakrosshússins frá desember 1985 til desember 1995. Á þessu tímabili voru skráðar 927 komur samtals 475 unglinga á aldrinum 10-18 ára.

Unglingarnir voru flokkaðir í þrjá flokka eftir ástæðu komu þeirra í Rauðakrosshúsið. Í hóp heimanfarinna voru þeir unglingar flokkaðir sem ekki hafði verið vísað að heiman. Einnig voru þeir unglingar, sem komu af götunni en nefndu aðra ástæðu en húsnæðisleysi fyrir komu sinni, settir í hóp heimanfarinna.

Allir unglingar sem hafði verið vísað að heiman eða af stofnun sem þeir dvöldust á voru settir í hóp heimanrekinna.

Í hóp heimilislausra voru þeir unglingar flokkaðir sem ekki höfðu búið hjá forráðmönnum heldur komu úr leiguhúsnæði, í fylgd lögreglu eða að lokinni áfengis- eða vímuefnameðferð. Einnig voru þeir unglingar flokkaðir með heimislilausum sem komu af götunni og nefndu húsnæðisleysi sem ástæðu komu sinnar.

Af 927 skráðum komum í Rauðakrosshúsið voru 476 (51%) skráðar í hóp heimanfarinna (289 unglingar), 197 (21%) í hóp heimanrekinna (119 unglingar) og 254 (28%) í hóp heimilislausra (67 unglingar).

Í hópi heimanfarinna voru stúlkur nær tvöfalt fleiri en piltar, í hópi heimanrekinna er kynjaskipting nær jöfn, en meðal heimilislausra eru komur pilta nær tvöfalt fleiri en stúlkna (tafla I).

Mikill meirihluti unglinganna var á aldrinum 16-18 ára (tafla II).

Það var sammerkt með öllum hópunum að flestir gesta Rauðakrosshússins komu af höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallslega voru fleiri landsbyggðarunglingar í hópi heimilislausra en í hinum hópunum (tafla III).

Flestar komur heimanfarinna og heimanrekinna skráðust á hóp frumkvæmra, það er þeir unglingar sem eru að koma í fyrsta sinn til Rauðakrosshússins (tafla IV). Í hópi heimilislausra skráðust flestar komur á hóp endurkvæmra, það er þeirra sem áður höfðu leitað til Rauðakrosshússins.

Mælitæki: Upplýsingar um unglingana voru fengnar úr skráningarblöðum Rauðakrosshússins. Skráningarblaðið skiptist í fimm hluta: 1) almennar upplýsingar, þar sem nafn unglings er ekki skráð, heldur gefið skráningarnúmer, dagsetning komu, aldur, kyn, fyrri komur, iðja, skólaganga, búseta, lögheimili og tengsl við félagslegar stofnanir; 2) fjölskyldugerð, síðasta aðsetur og sambúðarform foreldra; 3) tóbaks-, áfengis- og fíkniefnaneysla síðustu þrjá til sex mánuði; 4) ástæður komu/dvalar og 5) almennar upplýsingar við brottför, dagsetning brottfarar og með hvaða hætti hún átti sér stað.

Framkvæmd: Við komu unglings í Rauðakrosshúsið fyllti starfsmaður á vakt út skráningarblað að unglingi ásjáandi. Þeim upplýsingum sem fram komu síðar var bætt við á skráningarblaðið. Margir starfsmenn Rauðakrosshússins komu að skráningu gagna á fyrrgreindu 10 ára tímabili, en frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á að fylgja nákvæmum leiðbeiningum við skráningu gagna.

Tölfræðiforritið SPSS 6.0 var notað við úrvinnslu gagna. Til að athuga hvort marktækur munur væri á milli einstakra nafnbreyta var kí-kvaðrat marktæknistuðullinn notaður.

Rannsókn þessi var heimiluð af stjórnum Rauðakrosshússins og Rauða kross Íslands.Niðurstöður

Þegar hlutfall kynja í yngri og eldri aldurshópi þeirra þriggja hópa unglinga sem athugaðir voru, það er heimanfarinna, heimanrekinna og heimilislausra er athugað, kemur í ljós að hlutfallslega fleiri stúlkur eru í yngri aldurshópnum en í þeim eldri. Á meðal heimanfarinna voru stúlkur 76% í yngri aldurshópi en í þeim eldri voru þær 57% (c2 (1,476) =16,55; p<0,001). Í hópi heimanrekinna voru stúlkur 56% í yngri aldurshópi en í þeim eldri 44% og í hópi heimilislausra voru stúlkur 46% í yngri aldurshópi en 35% í þeim eldri.

Tafla V sýnir að foreldrar tveggja þriðju hluta heimanfarinna og heimanrekinna voru ekki í sambúð en hjá heimilislausum var hlutfallið enn hærra.

Stór hluti hjálparþurfi unglinga í öllum hópum var hvorki í skóla né vinnu er þau leituðu til Rauðakrosshússins (tafla V). Í hópi heimilislausra var hlutfall þeirra sem hvorki voru í skóla né vinnu mjög hátt og var munurinn á milli hópanna marktækur.

Mun fleiri piltar en stúlkur voru hvorki í skóla né vinnu þegar leitað var til Rauðakrosshússins. Í hópi heimanfarinna voru 61% piltanna hvorki í skóla né vinnu en 36% stúlknanna og var munurinn marktækur (c2 (3,433) =33,5; p<0,001). Meðal heimanrekinna voru fleiri piltar (60%) en stúlkur (46%) hvorki í skóla né vinnu. Marktækt fleiri unglingar sem áður höfðu leitað til Rauðakrosshússins í hópi heimanfarinna og heimanrekinna sóttu hvorki skóla né vinnu. Á meðal heimanfarinna voru 55% endurkvæmra, en 38% frumkvæmra hvorki í skóla né vinnu (c2 (2,473) =15,0; p<0,001). Í hópi heimanrekinna sóttu 64% endurkvæmra, en 46% frumkvæmra hvorki skóla né vinnu (c2 (2,195) =8,6; p<0,05).

Þegar litið er á hve margir höfðu hætt skyldunámi, kom í ljós að fjórðungur heimanfarinna og heimanrekinna og rúmlega helmingur heimilislausra hafði hætt skyldunámi og var munurinn á hópunum marktækur (tafla V).

Eftirtektarvert er að mun fleiri unglingar af landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu höfðu hætt skyldunámi og er munurinn í hópum heimanfarinna og heimanrekinna marktækur. Í hópi heimanfarinna höfðu 19% borgarunglinga í samanburði við 40% landsbyggðarunglinga hætt skyldunámi (c2 (3,433) =24,2; p<0,001). Í hópi heimanrekinna höfðu 23% borgarunglinga samanborið við 45% landsbyggðarunglinga hætt skyldunámi (c2 (3,433) =28,0); p<0,001).

Í hópum heimanfarinna og heimanrekinna höfðu helmingi fleiri endurkvæmir en frumkvæmir unglingar hætt skyldunámi. Á meðal heimanfarinna höfðu 38% endurkvæmra hætt skyldunámi en 17% frumkvæmra (c2 (3,433) = 28,0; p<0,001). Í hópi heimanrekinna höfðu 37% endurkvæmra hætt skyldunámi samanborið við 18% frumkvæmra (c2 (3,178) = 22,6; p<0,001).

Stór hluti gestanna hafði áður verið í tengslum við félagslegar stofnanir, en það átti einkum við um heimilislausa og var munurinn á milli hópanna marktækur. Einnig er eftirtektarvert hvað lögreglan hafði haft afskipti af stórum hluta unglinganna (tafla VI).

Í öllum hópum höfðu marktækt fleiri endurkvæmra en frumkvæmra verið í tengslum við félagslegar stofnanir: heimanfarnir (frumkvæmir 48%, endurkvæmir 81%) (c2 (1,476) =51,8; p<0,001), heimanreknir (frumkvæmir 59%, endurkvæmir 81%) (c2 (1,197) =10,4; p<0,001), heimilislausir (frumkvæmir 63%, endurkvæmir 94%) (c2 (1,254) =37,8; p<0,001).

Tóbaksneysla var almenn á meðal unglinganna sem leituðu til Rauðakrosshússins, einnig höfðu langflestir þeirra neytt áfengis undanfarna þrjá til sex mánuði fyrir komu til Rauðakrosshússins (tafla VII). Marktækur munur var á hópunum hvað varðar tíðni áfengisneyslu. Í hópi heimanfarinna drukku 36% vikulega eða oftar, 40% í hópi heimanrekinna og 69% í hópi heimilislausra (c2 (2,901) =76,9; p<0,001). Marktækur munur var á hópunum ef litið er á neyslu ólöglegra fíkniefna undanfarna þrjá til sex mánuði fyrir komu í Rauðakrosshúsið (tafla VII).

Niðurstöðurnar sýna að flestir heimanfarinna (60%) og heimanrekinna (69%) nefna samskiptaörðugleika heima fyrir sem aðalorsök þess að þeir leituðu til Rauðakrosshússins og var munurinn á heimanförnum og heimanreknum marktækur (c2 (1,673) =4,9; p<0,05) (mynd I). Langflestir hinna heimilislausu nefndu húsnæðisleysi (89%) sem meginorsök komu í Rauðakrosshúsið og var munurinn á milli hópanna marktækur (c2 (2,927) =274,2; p<0,001). Því næst nefndu heimilislausir eigin vímuefnaneyslu, en þar kom einnig fram marktækur munur á milli hópanna (c2 (2,927) =29,1; p<0,001).

Í hópi heimanfarinna nefndu marktækt fleiri stúlkur en piltar samskiptaörðugleika sem aðalástæðu komu (tafla VIII). Í hópi heimanrekinna nefndu einnig fleiri stúlkur en piltar samskiptaörðugleika sem aðalástæðu komu, þó ekki væri um marktækan mun að ræða. Heimanfarnir piltar nefndu marktækt oftar húsnæðisleysi sem meginástæðu komu en stúlkur. Stúlkur í hópi heimanfarinna og heimanrekinna kvörtuðu hins vegar marktækt oftar yfir að hafa verið beittar ofbeldi en piltar.

Yngri aldurshópar heimanfarinna og heimanrekinna nefndu marktækt oftar samskiptaörðugleika heima fyrir en eldri aldurshópar. Eldri aldurshópar heimanfarinna og heimanrekinna nefndu hins vegar marktækt oftar húsnæðisleysi (tafla IX).

Bæði í hópi heimanfarinna og heimanrekinna nefndu marktækt fleiri borgarunglingar samskiptaörðugleika sem ástæðu fyrir komu í Rauðakrosshúsið (tafla X). Í hópi heimanfarinna nefndu marktækt fleiri borgarunglingar en landsbyggðarunglingar erfiðar heimilisaðstæður. Hins vegar nefndu fleiri landsbyggðarunglingar en borgarunglingar úr hópi heimanfarinna eigin neyslu sem ástæðu komu og var munurinn marktækur. Einnig nefndu heimanfarnir landsbyggðarunglingar marktækt oftar húsnæðisleysi en borgarunglingar úr sama hópi.

Það kom í ljós munur á frum- og endurkvæmum varðandi ástæðu komu í Rauðakrosshúsið (tafla XI).

Í hópi heimanfarinna nefndu marktækt fleiri frumkvæmir en endurkvæmir samskiptaörðugleika og ofbeldi. Í sama hópi nefndu hins vegar marktækt fleiri endurkvæmir en frumkvæmir eigin neyslu sem ástæðu komu. Í hópi heimanrekinna nefndu marktækt fleiri frumkvæmir en endurkvæmir erfiðar heimilisaðstæður. Í sama hópi nefndu einnig marktækt fleiri frumkvæmir en endurkvæmir samskiptaörðugleika. Á hinn bóginn nefndu marktækt fleiri endurkvæmir í hópi heimanrekinna en frumkvæmir húsnæðisleysi.Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós mikinn mun á heimanförnum og heimanreknum annars vegar og heimilislausum hins vegar. Það hallar verulega á heimilislausa en minni munur er á heimanförnum og heimanreknum.

Meirihluti þeirra sem leituðu til Rauðakrosshússins fór sjálfviljugur að heiman og var hlutfall stúlkna í þeim hópi nær tvöfalt hærra en pilta.

Í samræmi við fyrri rannsóknir (8) kom í ljós að fæstir foreldra unglinga sem leituðu til Rauðakrosshússins voru í sambúð. Þær niðurstöður benda til að meðal einstæðra foreldra og í stjúpfjölskyldum sé hættara við árekstrum forráðamanna og unglinga eða að heimilisaðstæður verði svo erfiðar að unglingar ákveða að fara að heiman.

Margir unglinganna áttu undir högg að sækja í skóla og ber því saman við niðurstöður fyrri rannsókna (8). Líkur benda til að vandamál í námi samhliða fjölskylduvanda geti leitt til þess að unglingur hlaupist að heiman. Helmingi hærra hlutfall landsbyggðarunglinga en borgarunglinga hafði hætt skyldunámi. Meðal skýringa má nefna færri úrræði fyrir nemendur með námsörðugleika á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Að auki má ætla að mikið framboð á vinnu hafi dregið úr áhuga á skólanámi. Um miðbik 10. áratugarins gerði atvinnuleysi vart við sig og endurspeglaðist það í meiri skólasókn unglinga sem leituðu til Rauðakrosshússins en áður hafði verið.

Hið háa hlutfall unglinga, sem hafa verið í tengslum við félagslegar stofnanir eða sætt afskiptum lögreglu, undirstrikar mikinn félagslegan og persónulegan vanda ungmenna sem leita til Rauðakrosshússins.

Almenn áfengisneysla unglinganna og neysla fíkniefna hjá stórum hluta þeirra, svo og að eigin neysla er nefnd sem ein algengasta orsök komu í Rauðakrosshúsið er í samræmi við rannsóknir sem hafa sýnt að áfengis- og fíkniefnaneysla ýti undir brotthlaup að heiman (12).

Rannsóknin sýnir að árekstrar heima fyrir eru algengasta orsök komu í Rauðakrosshúsið og er það í samræmi við fyrri rannsóknir (4,9). Fræðimenn hafa greint frá því að heimanfarnir unglingar hafi verið beittir kynferðislegu ofbeldi heima fyrir (8). Hlutfall heimanfarinna sem beittir höfðu verið kynferðislegu (6%) eða líkamlegu (11%) ofbeldi var ívið lægra í þessari rannsókn en í erlendri rannsókn (8). Samskiptaörðugleikar á heimili voru marktækt oftar nefndir af heimanreknum en heimanförnum sem er í samræmi við fyrri niðurstöður (4).

Áberandi er að heimanfarnar stúlkur kvörtuðu oftar en piltar undan samskiptaörðugleikum heima fyrir. Rannsóknir (13) hafa sýnt að heimanfarnar stúlkur kvarta oftar undan ströngu eftirliti og refsingum foreldra. Kynþroski stúlkna gæti skipt máli hér. Vegna ótta við ótímabæra þungun dóttur reyna foreldrar að hafa áhrif á samskipti stúlkna út á við, svo sem með því að setja strangar reglur um útivistartíma og eftirgrennslan.

Munur er á aldurshópum heimanfarinna þegar litið er á ástæður komu í Rauðakrosshúsið og nefndi yngri aldurshópur fremur samskiptaörðugleika heima fyrir en hinn eldri. Mikill meirihluti yngri heimanfarinna eru stúlkur. Má draga þá ályktun að stúlkur þurfi að hlíta reglum um útivistartíma og svara nærgöngulum spurningum í upphafi kynþroskaskeiðs og ýti það undir samskiptaörðugleika. Einnig nefndi yngri hópur heimanrekinna fremur samskiptaörðugleika heima fyrir sem ástæðu komu í Rauðakrosshúsið en eldri hópurinn.

Munur á unglingum af höfuðborgarsvæði og utan af landi kom í ljós þegar litið var á ástæðu komu í Rauðakrosshúsið. Helmingi fleiri borgarunglingar en landsbyggðarunglingar nefndu erfiðar heimilisaðstæður eða samskiptaörðugleika heima fyrir sem ástæðu komu. Hins vegar nefndu þrefalt fleiri heimanfarnir landsbyggðarunglingar en borgarunglingar húsnæðisleysi sem ástæðu komu sinnar. Þennan mun má skýra á þann hátt að borgarunglingar komi fremur beint úr foreldrahúsum sem skýrir vægi fjölskylduvandamála hjá þessum hópi. Á hinn bóginn kom stór hluti landsbyggðarunglinga frá systkinum, ættingjum og vinum þar sem þau höfðu fengið að dveljast um tíma, eða beint af götunni og var því húsnæðisleysi helsta vandamálið við komu. Í öðru lagi kann að vera að landsbyggðarunglingar sem fara að heiman sækist eftir ævintýrum í borgarmenningunni og leiti síðan í Rauðakrosshúsið vegna húsnæðiserfiðleika.

Þessi rannsókn staðfestir fyrri niðurstöður (14) um að unglingar sem hlaupast oftar en einu sinni að heiman eigi við meiri vandamál að stríða heldur en þeir sem hafa hlaupist einu sinni á brott. Í hópi heimanfarinna höfðu tvöfalt fleiri endurkvæmir en frumkvæmir hætt skyldunámi. Fleiri endurkvæmir en frumkvæmir í hópi heimanfarinna höfðu verið í tengslum við félagslegar stofnanir. Auk þess kemur í ljós að fleiri endurkvæmir en frumkvæmir unglingar höfðu neytt vímuefna og komu oftar í Rauðakrosshúsið vegna áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heimilislausir höfðu sérstöðu. Á flestum sviðum skáru þeir sig marktækt úr og staða þeirra var mun lakari en hinna hópanna tveggja. Flestir hinna heimilislausu voru iðjulausir er þeir leituðu til Rauðakrosshússins og meirihlutinn hafði hætt námi. Langflestir þeirra höfðu fyrri reynslu af stofnunum og nánast helmingur hafði komist í kast við lögin. Að auki neyttu heimilislausir fremur áfengis og fíkniefna en heimanfarnir og heimanreknir unglingar. Ólíkt hinum hópunum var húsnæðisleysi langalgengasta ástæðan fyrir komu heimilislausra í Rauðakrosshúsið og því næst eigin vímuefnaneysla. Þessi mikli munur á heimilislausum annars vegar og heimanförnum og heimanreknum hins vegar skýrist vísast af því að heimilislausir hafa ekki búið hjá foreldrum um hríð. Því eru fjölskylduvandamál ekki lengur efst á baugi hjá þeim heldur vandamál sem snerta bága stöðu þeirra.

Niðurstöður þessarar rannsóknar árétta mikilvægi Rauðakrosshússins. Ljóst er að Rauðakrosshúsið fyllti í eyðu þegar það var sett á stofn. Ungmenni eiga oft undir högg að sækja og aðstæður heima fyrir ekki alltaf sem skyldi. Athygli vekja erfiðar félagslegar aðstæður margra ungmenna og hve algeng vímuefnaneysla er í hópi þeirra.Þakkir

Rauða Krossi Íslands og aðildarfélögum hans, formanni og framkvæmdarastjóra RKÍ, forstöðumanni Rauðakrosshússins og starfsfólki þess eru færðar þakkir fyrir stuðning meðan á rannsókn stóð.Heimildir

1. Kammer PP, Schmitdt D. Counseling runaway adolescents. School Counselor 1987; 35: 149-54.

2. Regoli RM, Hewitt JD. Delinquency in society: a child-centered approach. New York: McGraw-Hill; 1991.

3. Gullotta TP. Runaway: reality or myth. Adolescence 1978; 13: 543-9.

4. Adams GR, Gullotta T, Clancy MA. Homeless adolescents: a descriptive study of similarities and differences between runaways and throwaways. Adolescence 1985; 21: 715-23.

5. Ingersoll GM. Adolescents. 2nd ed. New Jersey: Prentice Hall; 1989.

6. Conger JJ. Adolescence and youth: psychological development in changing world. 4th ed. New York: Harper Collins Publishers; 1991.

7. Steinberg L. Adolescence. 4th ed. New York: McGraw-Hill; 1996.

8. Kurtz PD, Kurtz GL, Jarvis SV. Problems of maltreated runaway youth. Adolescence 1991; 26: 543-55.

9. Palenski JE, Launer HM. The "process" of running away: a redefinition. Adolescence 1987; 22: 347-62.

10. Brennan T, Huzinga D, Elliott DS. The social psychology of runaways. Boston: DC Heath; 1978.

11. Johnson R, Carter MM. Flight of the young: why children run away from their homes. Adolescence 1980; 15: 483-9.

12. Vaskovics LA. Nichtsesshaftigkeit, Verwahrlosung und Heimerziehung von Jugendlichen. In: Marefka M, Nave-Herz, eds. Handbuch der Familien und Jugendforschung. Neuwied, Frankfurt M: Luchterhand; 1989.

13. Wolk S, Brandon J. Runaway adolescents´ perceptions of parents and self. Adolescence 1977; 12: 175-87.

14. Nielsen L. Adolescent Psychology: a contemporary view. New York: Holt; 1987.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica