02. tbl. 96. árg. 2010

Umræða og fréttir

Áhrifin eru lengi að koma fram, segir Nick Spencer um áhrif kreppu á börn

Það kom kannski engum beinlínis á óvart að yfirstandandi kreppa og afleiðingar hennar skyldu verða umfjöllunarefni á nokkrum málþingum á Læknadögum í ár. Það var einnig greinilegt að áhugi læknastéttarinnar á þessu málefni er mikill ef marka má aðsókn að málþingum sem tóku þetta fyrir. Læknisfræðin snertir margar hliðar kreppunnar, andleg og líkamleg heilsa stendur að sjálfsögðu og fellur með líðan, efnahag og möguleikum þeirra til atvinnu og mannsæmandi lífs. Geðlæknisfræðin kemur hér mjög við sögu og var athyglisvert að hlýða á framsögu Páls Matthíassonar framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítala á málþingi um áhrif kreppu á heilsu barna. Þar kom ýmislegt fram sem hlýtur að vekja stjórnvöld til umhugsunar um hvernig skuli standa vörð um grunnþjónustu í velferðarkerfinu.

u04-fig1

„Stúlkur gætu upplifað minni frjósemi þegar þær komast á barneignaraldur,” 
segir Nick Spencer barnalæknir og prófessor emeritus við Warwick háskóla.



Á sama málþingi flutti breski barnalæknirinn og prófessor emeritus við Warwick University, Nick Spencer, erindi en hann hefur kynnt sér sérstaklega áhrif kreppu á líkamlegt heilsufar barna. Þriðju framsöguna á þessu málþingi átti forseti Evrópusamtaka um geðheilsu barna og unglinga, Tuula Tamminen frá Finnlandi, en hún rakti fjölmörg dæmi um langtímaáhrif kreppunnar í Finnlandi á fyrrihluta tíunda áratugar síðustu aldar. Er ljóst að Finnar eru enn að súpa seyðið af mistökum sem gerð voru meðan á kreppunni stóð, sérstaklega eru langtímaáhrif gagnvart börnunum sláandi og auðvelt að nýta sér þau víti til varnaðar ef áhugi er fyrir hendi.

 

Kreppa hefur áhrif á heilsufar

Nick Spencer varð góðfúslega við þeirri beiðni Læknablaðsins að svara fáeinum spurningum í lok ráðstefnudags og fyrsta spurningin kemur í rauninni af sjálfu sér; hvað eigum við Íslendingar helst að varast til að tryggja heilsufar barna okkar þrátt fyrir núverandi kreppuástand.

„Ef við lítum á Ísland sem eitt af ríkari löndum heimsins má gera ráð fyrir að dánartíðni muni ekki aukast þrátt fyrir kreppuna en í fátækari ríkjum heimsins er það eitt hið fyrsta sem gerist þegar efnahagsáföll ríða yfir. Hins vegar munuð þið eflaust sjá önnur áhrif á heilsufar barna ykkar, sérstaklega andlega heilsu þeirra, sem prófessor Tamminen sýndi skýrt fram á. Það er flóknara að sýna fram á bein tengsl milli kreppu og líkamlegrar heilsu barna enda er kannski meira viðeigandi að beina sjónum að andlegri heilsu barnanna við þessar aðstæður.

Ísland hefur mjög gott heilbrigðiskerfi og líkamleg heilsa barna er mjög góð eins og stendur, bæði börn og mæður þeirra hafa fengið góða næringu og aðstæður þeirra verið eins góðar og frekast er hægt að gera ráð fyrir. Þjóðin í heild er einnig nægilega vernduð fyrir sjúkdómum til að geta staðist verstu áhrif efnahagslegrar kreppu. Það er hins vegar hafið yfir vafa að aukið atvinnuleysi mun skapa umtalsverð vandamál fyrir margar fjölskyldur. Það mun birtast í versnandi andlegri heilsu bæði barna og foreldra en langtímaáhrifin gætu orðið þau að stúlkubörn í dag sem njóta ekki sömu umönnunnar og næringar og kynslóðin á undan gætu upplifað minni frjósemi þegar þær komast á barneignaraldur. Fæðingarþyngd barna þeirra gæti einnig orðið undir meðaltali dagsins í dag. Margar rannsóknir benda til þessa þó ég treysti mér ekki til að fullyrða að þessi þróun muni eiga sér stað.“

 

Mikilvægt að standa vörð um grunnstoðirnar

Prófessor Spencer lagði áherslu í fyrirlestri sínum á áhrif ójöfnuðar innan samfélagsins á heilsufar einstaklinganna og hann dregur enga dul á og segir það stutt ótal rannsóknum, að því meiri sem ójöfnuður er í samfélaginu því meiri verða félagsleg og heilsufarsleg vandamál. Einhvern veginn finnst manni það næsta augljóst.

„Það fer að sjálfsögðu eftir því hversu neðarlega neðstu mörkin liggja. Í samfélagi þar sem hluti þjóðarinnar lifir undir fátækramörkum er enginn vafi á útkomunni. Ef hins vegar er gætt að þeim sem minnst eiga undir sér þá er líklegt að betur gangi. Í ykkar íslenska samfélagi snýst þetta um að standa vörð um grunnstoðir velferðarkerfisins til að tryggja að enginn verði útundan. Það er þekkt að þegar efnahagskreppa skellur á gliðna sprungurnar í kerfinu og fleiri falla í þær. Mér skilst reyndar að ójöfnuður hafi verið að aukast jafnt og þétt í íslensku samfélagi undanfarin ár og hugsanlega hefur kreppan hjaðnandi áhrif á þá þróun. Það er einnig þekkt að efnahagslegur ójöfnuður og félagsleg og efnaleg staða hafa streituvaldandi áhrif sem hefur síðan bein áhrif á heilsufar fólks. Þetta á reyndar aðallega við um fullorðna því ég er ekki sannfærður um að samkeppni um stöðu hafi merkjanleg áhrif á börn. En fátækt og hin félagslega niðurlæging sem henni fylgir hefur ekki síður áhrif á börn en fullorðna.“

Hann bendir að lokum á að rannsóknir sýni að börn sem líði skort af einhverju tagi og búi við versnandi andlega heilsu muni síðar á ævinni njóta verri líkamlegrar heilsu en ella.

„Þetta eru einstaklingar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að taki meiri áhættu með heilsu sína og hirði minna um hana en aðrir. Þeir eiga frekar á hættu að ánetjast áfengi og tóbaki, fá lífsstílssjúkdóma sem tengjast slæmu mataræði og lenda frekar í slysum vegna ógætilegrar hegðunar eða skertrar dómgreindar. Það er því margt að varast þegar huga skal að vörnum við verstu mögulegum áhrifum kreppu, þó íslenskt samfélag virðist að mörgu leyti vel í stakk búið til að takast á við hana.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica