01. tbl. 112. árg. 2026
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Í átt að öflugra faghlutverki Læknafélags Íslands. Steinunn Þórðardóttir
Á heimsvísu eru félög lækna í þeirri lykilstöðu að hafa innan vébanda sinna gríðarlega breiðan og fjölbreyttan hóp félagsfólks sem býr að þekkingu sem er lífsnauðsynleg velsæld samfélaganna sem félögin starfa í. Læknafélög eru miklu meira en stéttarfélög sem sýsla með kjarasamninga og eru læknar meðvitaðir um mikilvægi þess að faghluti félaga þeirra sé öflugur og virkur. Það mætti ganga svo langt að halda því fram að læknafélögum beri skylda til að vera í faglegum fararbroddi og vísa veginn þegar kemur að veitingu heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki og í takti við bestu fyrirliggjandi þekkingu, allt frá forvörnum til lífslokameðferðar. Læknafélag Íslands (LÍ) hefur látið til sín taka á þessum vettvangi frá stofnun og má þar nefna máttarstólpa fagstarfs félagsins á borð við Læknablaðið og Læknadaga, auk lýðheilsuráðs og siðfræðiráðs. LÍ stóð einnig fyrir því að skráningarvefur símenntunar lækna, Mínerva, var settur á laggirnar fyrir nokkrum árum. Vefnum er ætlað að halda utan um símenntun lækna og gaf félagið á sínum tíma út leiðbeiningar um æskilega símenntun. Þessi skráningarmöguleiki skiptir miklu máli því frá árinu 2023 eiga læknar að skrá upplýsingar um símenntun sína í samræmi við tilmæli fagfélags og sinna upplýsingaskyldu til vinnuveitenda þar um eins og við á, sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 856/2023.
Stjórn LÍ hefur undanfarið orðið vör við ákall lækna um áframhaldandi aukningu á virkni félagsins á fagsviðinu og var því ákveðið að ræða faghlutann sérstaklega á aðalfundi félagsins í Stykkishólmi s.l. haust. Haldin var vinnustofa um efnið á fundinum, þar sem þrír frummælendur stigu í pontu og fjölluðu um fagstarf lækna frá ólíkum sjónarhornum. Margrét Ólafía Tómasdóttir sagði frá Vöndum valið (Choosing Wisely) herferðinni, alþjóðlegu átaksverkefni þar sem sérgreinafélög lækna benda meðal annars á sóun í heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að fræða almenning og fagfólk, sérstaklega hvað varðar sjúkdómsvæðingu og ofnotkun rannsókna og meðferða. Tómas Þór Ágústsson fjallaði um fagfélag breskra lækna (The Royal College of Physicians), og þá aðallega um hlutverk félagsins í gæðavottun heilbrigðisþjónustu og sérfræðimenntun lækna. Að lokum ræddi Anna Björg Jónsdóttir um reynslu sína sem formaður sérgreinafélags á Íslandi og hvernig LÍ gæti stutt betur við sérgreinafélögin og fagstarf þeirra.
Aðalfundarfulltrúar settust í kjölfarið niður í minni hópum þar sem fram fór frekara hugarflug um faghlutverk LÍ og hvaða skref væri eðlilegast að taka í framhaldinu til að auka vægi þess. Ljóst er að sérgreinafélög lækna verða ávallt burðarásinn í fagstarfinu, en starf þeirra mætti formgera betur og efla hlutverk LÍ í stuðningi við þau. Þegar niðurstöður hópavinnunnar voru dregnar saman kom í ljós að mikill samhljómur var meðal hópanna varðandi hvaða viðfangsefni ættu að heyra undir fagstarf félaga lækna. Töldu fulltrúar fundarins að á þessum vettvangi ættu læknar að koma að marklýsingum og skipulagi sérnáms, símenntun lækna, faglegum verkferlum og vegvísum, klínískum leiðbeiningum, umsögnum um frumvörp og lagabreytingar og fræðslu og upplýsingamiðlun til almennings, auk þess að taka þátt í opinberri umræðu um heilbrigðismál. Þessi upptalning er viðamikil og burðir sérgreinafélaganna í dag mis miklir þegar kemur að því að ráðast í þessi verkefni. Hér gæti hugmyndafræði á borð við Vöndum valið komið sér vel á upphafsmetrunum þar sem hver sérgrein gæti til dæmis skilgreint þrjú atriði sem gera mætti minna af og þrjú atriði sem gera mætti meira af. Í kjölfarið væri hægt að fara í upplýsingaherferðir og miðla þessum atriðum til almennings og/eða annarra hagaðila.
Aðalfundurinn taldi mikilvægt að starfsmaður yrði ráðinn sérgreinafélögunum til stuðnings og tók Hrönn Pétursdóttur verkefnastjóri við því verkefni í hlutastarfi í kjölfar fundarins. Hún mun í upphafi kortleggja sérgreinafélögin og stjórnir þeirra og skapa vettvang þar sem þau geta eflt samstarf og samráð sín á milli. Bæta á stuðning við og upplýsingaflæði til sérgreinafélaganna og veita þeim greiðari aðgang að almannatengli félagsins, hagfræðingi félagsins og annarri aðstoð sem félagið hefur yfir að ráða. Það er von stjórnar LÍ að með þessu móti muni aukið fagstarfs félagsins efla rödd íslenskra lækna og áhrif þeirra á gæði heilbrigðisþjónustu hérlendis.
