01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Hvernig fer maður af öldrunardeild í Lillehammer inn í A-landslið kvenna í knattspyrnu? Aðalheiður Jóhannesdóttir

Kannski ekki eitthvað sem fólk veltir almennt fyrir sér en það hef ég oft gert undanfarin sex ár. Ég var búsett í Lillehammer í Noregi ásamt fjölskyldu minni, ég að vinna á öldrunardeild og maðurinn minn á svæfingu á spítalanum þar.

Í byrjun mars 2019 vorum við hjónin á gönguskíðum á sunnudegi á Birkebeinerstadion eins og innfæddir gera, hann var kominn langt á undan mér og ég stödd ein einhversstaðar í miðjum skógi þegar síminn hringdi. Sjúkraþjálfari stödd á Algarve cup með kvennalandsliðinu: „Læknirinn okkar handleggsbrotnaði, það er leikur á morgun, ég er búin að finna flug sem fer frá Osló á miðnætti, millilendir í London og lendir í Faro í fyrramálið. Kemstu?’’ Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um, því þetta var fráleitt. „Ertu eitthvað rugluð? Ég er ekki bæklunarlæknir, ég kann ekkert í fótbolta og ég er að fara að vinna í fyrramálið.“ Þegar ég hitti manninn minn á bílastæðinu sagði ég honum frá þessu stórfurðulega símtali, hafði hann heyrt meira rugl? Hann var ósammála og vildi að ég færi. Frekar ósannfærð hringdi ég í yfirmann minn í frítíma hans og spurði hvort það væri í lagi að mæta ekki í vinnu næstu vikuna. Þó ég hafi verið mjög meðvituð um að Lillehammerbúar væru uppteknir af afreksíþróttum með sín minnismerki um löngu liðna ólympíuleika á hverju götuhorni, þá kom það mér samt á óvart hversu vel fyrirspurninni var tekið. Hann var svo uppveðraður yfir því hvernig í veröldinni mér hefði hlotnast sá heiður að vera útvalin í þessa virðulegu stöðu. Ekki meðvitaður um rammíslenskan náskyldleikann við örvæntingarfulla sjúkraþjálfarann.

Þá gat ég ekki lengur skýlt mér á bak við ósátta eigin- eða yfirmenn og var allt í einu lögð af stað til Algarve. Ég lenti ósofin og hálfrugluð í Faro, var skutlað beint upp á hótel og troðið í íþróttagalla sem gerði ekkert sérstaklega mikið fyrir mig.

Án þess að fá tíma til að átta mig á aðstæðum, var mér skóflað upp í rútu með fótboltaliðinu og keyrt á keppnisvöllinn. Ég hafði aldrei áður átt erindi inn í búningsklefa fyrir leik. Ég á einkunnaspjald úr grunnskóla þar sem ég fékk einkunnina S í boltaíþróttum á skalanum Á, G, S, Ó fyrir þá sem muna eftir því.

Þennan dag lærði ég að það væri búið að ákveða fyrirfram hverjir tækju hornspyrnur eða færu í varnarvegg, ég hafði alltaf haldið að það væru bara þær sem stæðu næst sem gerðu það. Til að kóróna afkáraleika minn var mér troðið í leðurtakkaskó því það væri svo vandræðalegt ef læknirinn dytti á hausinn við að hlaupa inná. Ég átti hins vegar í mesta basli með að renna ekki á hausinn á flísunum útúr klefanum. Ég var stödd í kringumstæðum þar sem ég skildi ekki frasana, kunni ekki reglurnar, sá aldrei almennilega hvort liðið á innkastið eða aukaspyrnuna og var sú eina í staffinu sem gat ekki verið með í skotkeppni. Svo ef til vill eru fleiri en ég sem furða sig á því að KSÍ þætti bara alveg gráupplagt að hafa þennan lækni í landsliðinu áfram og fara með liðið á tvö stórmót. En ég er mjög þakklát fyrir þetta ófyrirsjáanlega tækifæri og reynslu. Allar gleðistundirnar þegar vel gekk en líka að hafa þurft að læra að tapa.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica