01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

„Ég fór þangað sem fjörið var“

Eiríkur Jónsson var, þar til fyrir þremur árum, yfirlæknir þvagfæraskurðlækningadeildar Landspítala og hefur verið lykilmaður í þróun fagsins hér á landi, menntað kynslóðir lækna og unnið að því að færa skjólstæðingum sínum betri líðan og bætt lífsgæði. Í ár fór hann nýja og óvænta leið: gaf út sitt fyrsta rit, Andrými – kviksögur, bók sem er jafn mikil formtilraun og hún er persónulegt ferðalag. Bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldverka. Læknablaðið hitti Eirík á fallegu heimili hans í miðborginni til að ræða bókina, lífið sem læknir, kennsluaðferðir og lífsviðhorfin sem hafa mótað starf hans.

Það var langt ferli sem leiddi að Andrými, nærri sex ár að sögn Eiríks, en síð-asta árið mótaðist form bókarinnar skýrt. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég geri svona lagað,“ segir hann, og brosið er blítt og fasið hógvært, rétt eins og hann sé enn að venjast hugmyndinni um sig sem bókarhöfund. Fyrirkomulagið varð undirstaða bókarinnar: ein saga á hverri síðu, stutt og fínstillt eins og skurðaðgerð sem þarf að ná utan um aðalatriðið. Undir sögunum bregður hann fyrir sig „harðsoðnum eftirþönkum“ sem tengjast hverri frásögn. Eins konar spor sem situr eftir í lesandanum og gefur honum andrými til að melta textann.

Myndirnar, dregnar af Elínu Eddu Þorsteinsdóttur, ramma inn þennan örsagnastíl á látlausan en áhrifaríkan hátt. Þær minna á upphafsstafi handrita, en eru settar í horn síðnanna til að brjóta upp rýmið án þess að þröngva sér í frásögnina. Börkur Arnarson hannaði bókina og kápuna, Páll Valsson ritstýrði og í samvinnunni varð til heild sem Eiríkur lýsir sem: „formi sem varð að segja til sín“. Þegar formið varð skýrt þurfti hann að stytta sumar sögur, móta þær inn í rammann, og segir að þetta ferli hafi orðið jafn áhugavert og hugmyndirnar sjálfar.

„Andrými er margþætt,“ bætir hann við. „Það er annars vegar huglægt rými, staður sem þú ferð á til að anda upp úr hversdeginum. Hins vegar er það líka saga í bókinni – vinnuherbergi með hreyfanlegum vegg sem breytir heimilinu eftir því hvernig lífinu er háttað. Einhvers konar heimur sem andar og er varðveittur í mjög takmörkuðu rými.“

Innra líf frásagnanna

Eiríkur lýsir örsagnagerðinni sem náttúrlegri framlengingu á starfi læknisins. „Við erum sífellt að skrásetja sjúkrasögur og koma þeim á knappt og skiljanlegt form. Þetta eru örsagnir í eðli sínu og því kannski ekki langt frá því sem ég hef verið að gera áður.“ Því sé í raun stutt skref að skrifa sögur sem endurspegla allt það sem situr eftir í huganum – ígrundað, opið, stundum í lausu lofti en alltaf með þráð sem liggur til einhvers kjarna. „Ég er vissulega að fara út fyrir þægindarammann minn og inn á eitthvað svið sem ég þekki ekki alveg inn á. Ég er mögulega að fara yfir á annarra manna svið, stunda annarra iðn, sem læknar eru yfirleitt ekki hrifnir af að aðrir geri,“ segir hann kíminn.

Í bókinni bregður hann upp persónum sem oft eru á jaðri samfélagsins: til dæmis vasaþjófi í borg sem rænir túrista en réttlætir gjörðir sínar með óvæntum rökum. Hann sér fórnarlömb sín ekki sem slík heldur „skjólstæðinga, jafnvel viðskiptavini“. Hann velur fólk upp úr miðjum aldri í yfirþyngd því þá eru líkurnar á seðlum meiri. Hann er skapaður af þörf, af fjölskyldu sem hann þarf að framfleyta, en þegar hann sjálfur er rændur snýst sagan við og stoltið er sært.

„Mjög margir hafa einhverja skapandi þrá sem býr innra með þeim og getur brotist fram á ýmsan hátt. Svo geta orð haft fleiri en eina merkingu. Ég leik mér með tvíræðnina, skrauthvörfin, það að nota fallegt orð yfir vafasamar athafnir, eins og skapandi brotavilji,“ segir Eiríkur. „Og sögurnar í fyrstu persónu gera lesandanum kleift að fara beint inn í hugarheim persónanna. Það opnar rými sem ég hef gaman af að kanna.“

Hlátrasköllin heilluðu og löðuðu að

Þótt heimur bókaútgáfu sé nýr vettvangur fyrir Eirík, þá er læknisfagið hans rótgróna jörð. Hann lauk læknanámi 1984 og fór í sérnám í Bandaríkjunum. Aðspurður hvort hann hafi snemma ákveðið að nema þvagfæraskurðlækningar, segist hann hafa verið óráðinn og jafnvel hugsað sér almennar skurðlækningar og svo bæklunarlækningar. „En svo bárust hlátrasköllin frá fólki í þessu fagi, skemmtilegt fólk, og ég dróst að því og hafði gaman af því sem þau voru að gera. Ég fór þangað sem fjörið var. Þannig gerist þetta oft. Það getur haft áhrif á lífsvalið hver er staddur hvar. Lífið er að mestu leyti passívar og tilviljanakenndar ákvarðanir, nema þegar keypt eru hljómflutningstæki, þá eru teknar vandaðar ákvarðanir,“ segir hann og skellir upp úr.

Eríkur sneri heim árið 1993. Þegar spítalarnir í Reykjavík sameinuðust á tíunda áratugnum varð hann yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga og gegndi því hlutverki í nær þrjá áratugi. Hann var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til þvagfæraskurðlækninga og heilbrigðisþjónustu sumarið 2024 og árið 2009 hlaut hann kennsluverðlaun á skurðlækningasviði Landspítala. Verðlaunin voru veitt þeim sérfræðingi sem þótti hafa skarað fram úr við kennslu deildarlækna árið á undan. Hann hefur kennt stórum hópi unglækna og læknanema og segir að maður á mann kennslan sé sú árangursríkasta. „Þetta er eins og meistara – sveina fyrirkomulagið í iðngreinum. Ég segi við nemendur mína sem vilja vera skurðlæknar að þeir séu háskólamenntaðir iðnaðarmenn og megi vera stoltir af því. Fagmennska er grunnurinn að öllu.“

Breytingar í faginu hafi verið gríðarlegar. Innkoma skurðþjarkans hafi gert aðgerðir inngripsminni og sjúklingar geti nú margir hverjir jafnvel farið heim samdægurs. „Þetta gjörbreytti öllu,“ segir Eiríkur. „Við erum í raun í framleiðslustörfum. Við tökum við hráefni – manneskju með vandamál – og ætlunin er að skila henni betri út í samfélagið. Það er ekki niðurlægjandi að hugsa svona. Þvert á móti kennir þetta okkur að virða ferlið og gæðin sem við viljum skapa. Virðisaukinn sem stefnt er að er bætt líðan og lengra líf.“

Að læra af sjávarútveginum

Eiríkur var á sjó á menntaskólaárunum. Sú reynsla hefur mótað hugsun hans um nýtingu og virði þeirra verðmæta sem fara um hendur okkar. Þessa hugsun má auðveldlega færa inn í læknisfræðina. „Fyrir daga kvótakerfisins var stöðugt verið að moka inn hráefni sem ekki náðist að vinna. Mikið fór til spillis. Í dag nýtist nær allt úr fiski og þetta er vísindalegt ferli. Það sama á við í læknisfræðinni. Við þurfum að hámarka nýtingu fjármagns, sem og þeirrar þekkingar og hæfileika sem nýtt heilbrigðisstarfsfólk leggur á borðið.“

Þegar hann og aðrir yfirlæknar heimsóttu sjávarútvegsfyrirtæki, þá töldu starfsmennirnir að þeir gætu lært af sjúkrahúsfólkinu en Eiríkur taldi hitt vera nærri lagi. „Við gátum lært af þeim. Í þeirra ferli var og er margt sem við getum tileinkað okkur.“

Um nýliðun, umboð og traust

Tal hans um nýliðun og umboð er ástríðu-fullt. Hann hefur séð -hvernig nýir sér-námslæknar halda oft uppi spítölum, á sama tíma og kerfið er byggt á eldri læknum og óreyndu fólki, en millilagið sem aðrar þjóðir hafa, skortir okkur. „Við höfum látið aðrar þjóðir mennta sérnámslæknana okkar, sem helgast af smæð okkar samfélags. Þegar þetta fólk kemur svo heim er mjög mikilvægt að tæki og tækni sem þau hafa lært á sé einnig til staðar hér. Það er mikilvægt að þau fái strax umboð til að vinna eftir sérnám. Maður má ekki hanga eins og hundur á roði.“ Í rödd Eiríks ómar staðföst trú á að fagið þurfi að þróast áfram. Að virkja verði nýtt fólk, nýjar hugmyndir og aðferðir.

Að ráfa inn í örsögurnar

Þegar talið berst að bókmenntum, ljómar Eiríkur. Hann segir að innra með honum búi „ístöðulaus maður“ sem hefur gaman af alls konar textum, les gjarnan sama efnið aftur og hlustar reglulega á gamlar upptökur í Sarpi Ríkisútvarpsins þar sem Halldór Laxness les eigin verk. „Ég gramsa í öllu,“ segir hann með hlýju. Hann hefur gaman af örsögum og vill ekki flokka sig sem rithöfund. „Ég lít ekki á mig sem rithöfund. Eins og ég lít ekki á mig sem söngvara þó ég sé í karlakórnum Fóstbræðrum ,“ segir hann og brosir í kampinn. „Þetta er bara eins og það kemur af skepnunni. Pælingar sem sitja inni í manni og svo finnur maður form til að koma þeim frá sér.“

Fyrstu hugmyndirnar að sögunum eru meira en tíu ára gamlar, en margar hafa dvalið í höfðinu lengi. „Það furðulegasta við þetta er að þú byrjar og veist ekki hvernig sagan endar. En allt í einu kemur endirinn eins og fæddur af flæðinu.“

Tímamót og andrými

Nú, þegar hann er hættur sem yfirlæknir og hefur opnað nýja gátt í gegnum skriftirnar, virðist Eiríkur standa á krossgötum þar sem reynsla og sköpun renna saman. Bókin er ekki flótti heldur útvíkkun. Andrými. „Við lifum í stórum heimi,“ segir hann, „en oft er raunheimur okkar minni en við höldum. Og það er allt í lagi. Við þurfum ekki að fylla allt rými. Stundum þurfum við bara smá andrými.“

Andrými – kviksögur er ekki aðeins bók heldur vitnisburður um að lífið heldur áfram að kenna, líka þeim sem hafa kennt öðrum í áratugi. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica